Stóra upplestrarkeppnin 2020 – fyrsta hátíðin í kjölfar Covid19

Fréttir

Það þótti viðeigandi að fyrsta hátíðin í Hafnarfirði í kjölfar Covid19 væri lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem allajafna er haldin í Hafnarborg í mars ár hvert. Hátíðin var einungis opin upplesurum og aðstandendum auk annarra þeirra sem hlutverk höfðu á hátíðinni. 

Það þótti viðeigandi að fyrsta hátíðin í Hafnarfirði í kjölfar Covid19 væri lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem allajafna er haldin í Hafnarborg í mars ár hvert. “Um er að ræða uppskeruhátíð sem beðið er í ofvæni og í kristallast mikilvægi íslenskrar tungu, þrotlausar æfingar, árangur og eftirvænting”, eins og bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, komst svo vel að orði í ræðu sinni á hátíðinni. Hátíðin var einungis opin upplesurum og aðstandendum auk annarra þeirra sem hlutverk höfðu á hátíðinni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heiðraði upplesara og gesti með nærveru sinni, afhenti bókagjafir og flutti stutt ávarp.  

Sigurvegari

Verðlaunahópurinn með Forseta Íslands, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, formanni fræðsluráðs Hafnarfjarðar og móður upplestrarkeppninnar. Aftari röð f.v.: Kristín Thoroddsen formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Ingibjörg Einarsdóttir upphafsmaður keppninnar og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Í fremri röð f.v. eru sigurvegarar keppninnar í ár: Dagbjörg Birna Sigurðardóttir í Setbergsskóla (3. verðlaun), Ellen María Arnarsdóttir í Hvaleyrarskóla (1. verðlaun) og Smári Hannesson í Lækjarskóla (3. verðlaun)

Faglegur og fallegur upplestur 16 nemenda

Stóra upplestrarkeppnin hófst sem tilraunaverkefni um upplestur veturinn 1996-1997. Hefur keppnin eflst og stækkað með hverju árinu og má nú finna þátttakendur og þar með fyrirmyndir í upplestri á íslenskri tungu í nær hverju sveitarfélagi landsins. Uppskeruhátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var að þessu sinni haldin í Víðistaðakirkju og voru þar í aðalhlutverki 16 nemendur í 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar. Tveir nemendur frá hverjum grunnskóla stigu á stokk með faglegan og fallegan upplestur fyrir hönd síns skóla og fluttu texta og ljóð eftir skáld keppninnar. Skáld keppninnar í ár voru þeir Jón Jónsson úr Vör og Birkir Blær Ingólfsson sem einnig flutti hátíðarræðu. Afkomendur Jóns Jónssonar voru í salnum og voru þeir kallaðir upp og færðar gjafir.  Nemendur í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sungu og spiluðu á hljóðfæri og flutti Layan Ahmed Abukhalifa ljóð á arabísku. Forseti Íslands afhenti nemendum ljóðabók sem Félag íslenskra bókaútgefenda gaf öllum nemendum. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, flutti ávarp og hvatti nemendur til dáða samhliða þökkum fyrir fallegan upplestur.

Það standa allir uppi sem sigurvegarar

Stóra upplestrarkeppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og það að vanda sig í upplestri. Allir nemendur grunnskóla Hafnarfjarðar standa því uppi sem sigurvegarar eftir hátíðina. Fremst meðal jafningja voru þau Ellen María Arnarsdóttir í Hvaleyrarskóla sem hlaut 1. verðlaun fyrir upplestur sinn, Smári Hannesson í Lækjarskóla sem hlaut 2. verðlaun og Dagbjörg Birna Sigurðardóttir í Setbergsskóla sem hlaut 3. verðlaun. Kolbeinn Tumi Árnason fékk verðlaun fyrir boðskort hátíðarinnar. Viðurkenningar voru jafnframt veittar í smásagnasamkeppni grunnskólanna. Sagan Það skiptir nefnilega máli eftir Jón Ragnar Einarsson í 10. bekk Hraunvallaskóla lenti í fyrsta sæti, sagan Spegillinn eftir Guðmund Pétur Dungal Níelsson í 10. bekk í Víðistaðaskóla lenti í öðru sæti og í þriðja sæti lentu tvær sögur, Tvöföld gleði eftir Sögu Maríu Michaelsdóttur og Ættarleyndarmálið eftir Önnu Lilju D. Gunnarsdóttur en þær eru báðar í 10. bekk í Víðistaðaskóla.

Nýlega var Ingibjörg Einarsdóttir, upphafsmaður keppninnar, í viðtali í Vitanum hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar. Þar fer hún yfir sögu keppninnar, markmið og tilgang. Við hvetjum ykkur til að hlusta á viðtalið. 

Ábendingagátt