Sundhöll Hafnarfjarðar 80 ára

Fréttir

Í lok ágúst árið 1943 var Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð með pompi og prakt og er því 80 ára um þessar mundir. Af því tilefni verður þar opið hús mánudaginn 11. september 2023 kl. 15.00.

Í lok ágúst árið 1943 var Sundhöll Hafnarfjarðar opnuð með pompi og prakt og er því 80 ára um þessar mundir. Af því tilefni verður þar opið hús mánudaginn 11. september 2023 kl. 15.00. Bygging Sundhallarinnar var mikil bylting á sínum tíma en áður lærðu bæjarbúar að synda í sjónum. Nýtt söguskilti verður afhjúpað fyrir utan laugina á þeim stað við strandstíginn þar sem sundið var kennt áður en Sundhöllin kom til sögunnar. Í anddyrinu verða sýndar nýjar tillögur er varða breytingar og endurbætur á lauginni og sögulegar myndir munu prýða veggina. Stefán Ómar Jakobsson og félagar spila léttan sundlaugarjazz fyrir viðstadda.

„Heilnæmasta og gagnlegasta íþrótt allra íþrótta“

Snemma komu upp hugmyndir um byggingu sundlaugar í bænum, menn vildu „beita sér fyrir því, að upp kæmist í bænum sundlaug, þar sem börn og æskulýður bæjarins ættu kost á að nema heilnæmustu og gagnlegustu íþrótt allra íþrótta, sund“. Á næstu árum komu fram ýmsar hugmyndir um staðsetningu laugarinnar en það var loks árið 1939 sem lögð var fram teikning, og kostnaðaráætlun, af sundlaug við Krosseyrarmalir og hófust framkvæmdir í október sama ár.

1943, vígsla sundskálans í Hafnarfirði sem byggt var síðar yfir og er sundhöll Hafnarfjarðar nú. Mikill mannfjöldi á sundlaugabökkunum fylgist með sundæfingum.

 

Árið 1943 mátti lesa eftirfarandi frétt af vígslu sundlaugarinnar: „Er hjer um hið merkasta fyrirtæki að ræða, sem eflaust á eftir að hafa eigi minni þýðingu fyrir líkamlega hollustu Hafnfirðinga en Sundhöllin fyrir Reykvíkinga. Sjór er notaður í laugina og er hann hitaður upp með miðstöðvarhita. Fullkomin hreinsunartæki eru fyrir vatnið.“ Sundlaugin var opin allt árið en rekstrinum var skipt í þrjú tímabil. Frá 1. nóvember til 1. apríl var hún rekin sem baðhús. Mánuðina apríl, maí, september og október var aðeins vatnið í grynnri enda hennar hitað og hreinsað og var sundlaugin því aðeins í fullri notkun yfir sumarmánuðina.

Árið 1949 var hætt að nota sjó í laugina auk þess sem þá var kolakötlunum skipt út fyrir olíukyndingu. Samþykkt var að byggja yfir laugina árið 1951 og var hún vígð sem sundhöll tveimur árum síðar. Það var svo árið 1976 sem lögð var hitaveita í Sundhöllina en það gjörbreytti rekstrargrundvelli hennar til hins betra. Árið eftir voru settar upp tvær setlaugar í sólskýli við laugina.

Rómaður samveru – og heilsueflingarstaður

Sundhöll Hafnarfjarðar er rómaður samveru- og heilsueflingarstaður Hafnfirðinga og gesta á öllum aldri, enda á besta stað við Herjólfsgötu sem liggur samhliða Strandstígnum, vinsælustu gönguleiðar í Hafnarfirði. Færst hefur í aukana að halda ýmsa viðburði í húsnæði sundhallarinnar, á laugarbakkanum enda vettvangurinn til skemmtunar og upplifunar einstakur. Á aðventunni 2022 var einmitt einn slíkur haldinn þegar söngkonan vinsæla, hin hafnfirska Klara Elíasdóttir, flutti þar ljúfa tónlist fyrir sundlaugargesti og kom þeim í jólaskap. Í Sundhöll Hafnarfjarðar í dag má finna 25 metra innilaug, tvo rúmgóða heita potta í afgirtum garði með öflugum nuddtækjum sem njóta mikilla vinsælda og sánaklefa. Laugin er mikið notuð af eldra fólki og íbúum í nágrenni laugarinnar. Sundfélag Hafnarfjarðar er með hluta af sínum æfingatímum í lauginni og nemendur í Víðistaðaskóla og Engidalsskóla sækja þangað í skólasund.

Ábendingagátt