Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast

Fréttir

Á degi íslenskrar tungu setjum við árlega Stóru upplestrarkeppnina í Áslandsskóla. Markmið keppninnar er að auka hlut talaðs máls í skólum landsins og auka vitund þjóðarinnar á mikilvægi þess. 

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember  -Leifur S. Garðarsson skólastjóri í Áslandsskóla skrifar:

Það er tungunni tamast sem hjartanu er kærast

Á 25 ára afmæli Stóru upplestrarkeppninnar

Á degi íslenskrar tungu setjum við árlega Stóru upplestrarkeppnina í Áslandsskóla. Í keppninni taka ár hvert þátt nemendur í 7. bekk skólans. Markmið keppninnar er að auka hlut talaðs máls í skólum landsins og auka vitund þjóðarinnar á mikilvægi þess. Þar gefst gott tækifæri til að leggja markvissa rækt við tvo þætti móðurmálsins, vandaðan upplestur og framsögn. Áhersla er lögð á að nemendur lesi upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Keppnin fer þannig fram að kennarar undirbúa nemendur sína og halda undankeppni innan skólans þar sem valdir eru nokkrir nemendur til áframhaldandi keppni. Sá hluti kallast ræktunarhluti. Undankeppnin er haldin í skólanum, þar sem 10 nemendur lesa að jafnaði til úrslita, og þaðan halda tveir nemendur til þátttöku í lokakeppninni sem fram fer í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sá hluti keppninnar er gjarnan nefndur hátíðarhluti.

Lokahátíðir eru í raun uppskeruhátíðir, þar sem uppskeru mikillar þjálfunar er fagnað.
Vandaður upplestur er óhugsandi án undirbúnings og leggja kennarar á sig mikla vinnu við þjálfun nemenda. Markmiðið er að lesturinn sé vel undirbúinn og nemandinn svo öruggur að ekki sé lengur um lestur að ræða heldur flutning. Upplestur er nær tilgangslaus nema hann sé áheyrendum til skilnings og ánægju. Til þess að auðvelda börnunum að ná þessu markmiði hvetjum við foreldra til þátttöku í undirbúningi barna sinna, með því að hlusta á þau og aðstoða við val á texta þegar þeim er falið það verkefni að koma með texta að eigin vali.

Við þjálfun nemenda er að ýmsu að hyggja. Farið er yfir rétta líkamsstöðu, standa í báða fætur, draga andann djúpt og horfa fram. Mikilvægt er að röddin berist, styrkur hennar sé réttur og öndun rétt. Við upplestur þarf stundum að kveða fastar og skýrar að heldur en í venjulegu tali milli fólks og framburður þarf að vera vandaður og skýr svo að hvert orð skiljist. Merking texta þarf að komast til skila til dæmis með því að hægja á lestrinum, setja þagnir inn á réttum stöðum og koma blæbrigðum til áheyrenda án ofleiks. Góð samskipti við áheyrendur verða til þess að þeir fylgjast betur með og upplifa að talað sé til þeirra.

Stóra upplestrarkeppnin er að mínu mati eitt allra merkilegasta þróunarverkefni sem unnið hefur verið að í skólum landsins. Verkefnið hófst árið 1996 með þátttöku nemenda í Hafnarfirði og á Álftanesi með það að markmiði að styðja við þann þátt aðalnámskrár um framsögn og tjáningu. Svo skemmtilega vill til að ég var þá umsjónarkennari í 7. bekk í Öldutúnsskóla og hef því fylgt þessu verkefni frá upphafi. Verkefnið hefur vaxið og dafnað undir styrkri stjórn Ingibjargar Einarsdóttur, fyrrum skrifstofustjóra Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Ingibjörg hefur verið vakin og sofin yfir verkefninu og stýrt því af miklum myndarbrag. Án ræktarsemi hennar við verkefnið hefði það aldrei vaxið og dafnað eins vel og það hefur gert.

Á landsvísu hefur verkefnið verið rekið af Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn. En nú hafa Raddir ákveðið að „senda barnið að heiman“ en með hvatningu til sveitarfélaganna um að taka við verkefninu. Ég tek undir þá hvatningu og tel að Hafnarfjörður og önnur sveitarfélög eigi að taka verkefninu fagnandi og móta sína upplestrarkeppni. Með þeim hætti getum við með góðri samvisku stutt við þennan mikilvæga þátt móðurmálskennslunnar hér eftir sem hingað til.

Ábendingagátt