Frístundaheimili

Börn í 1.–4. bekk geta stundað fjölbreytt tómstundastarf á frístundaheimilum við sinn skóla frá því að skóladegi lýkur til klukkan 16:30.

Skráning í frístund

Að skrá barn í frístund

Þú skráir barnið á frístundavefnum Völu. Best er að senda inn skráninguna fyrir 15. júní, eftir það fara umsóknir á biðlista og eru ekki afgreiddar fyrr en í ágúst. Skráning gildir í eitt skólaár í senn (ágúst–júní). Í skráningunni er mikilvægt að tryggja að allar upplýsingar séu réttar, sérþarfir teknar fram og ef barnið þarf á stuðningi að halda. Gott er að athuga hvort allar upplýsingar um tengiliði séu réttar, stundum þarf að bæta við tengilið ef barn býr á tveim heimilum.

Þegar barn fær vistun á frístundaheimili færðu tölvupóst sem þarf að svara og samþykkja innan þriggja daga, annars er vistun ekki virk. Ef frestur til staðfestingar rennur út þarftu að hafa samband við viðkomandi frístundaheimili og fá aðstoð.

Ef ekki hefur tekist að fullmanna allar stöður á frístundaheimilum þegar starfsemin hefst að hausti er hugsanlegt að einhverjar tafir geti orðið á því að barnið geti byrjað á frístundaheimilinu.

Uppsagnir og breytingar

Ef þú þarft að breyta skráningunni eða segja henni upp ættirðu að tilkynna það til deildarstjóra frístundaheimilisins. Best er að gera það fyrir 15. hvers mánaðar svo það geti tekið gildi næstu mánaðamót.

Uppsögn fyrir vorönn verður að tilkynna fyrir 15. desember annars framlengist umsókn sjálfkrafa.

Vetrarfrí skóla og sérstakir dagar

Frístundaheimilin eru lokuð alla rauða almanaksdaga og í vetrarfríi grunnskóla. Auk þess eru frístundaheimilin með tvo skipulagsdaga á ári.

Opið er allan daginn á skipulagsdögum skólanna og virka daga í páska og jólafríi. Þú þarft að sækja sérstaklega um vistun á þessum dögum í gegnum Völu frístundarkerfi. Deildarstjóri sendir þér nánari upplýsingar varðandi umsókn fyrir þessa daga þegar að þeim kemur.

Starfið

Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir nemendur í 1.–4. bekk eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Starfið byggist á vali, hópastarfi, smiðjum og útiveru. Boðið upp á síðdegishressingu á miðjum degi.

Markmið frístundaheimila er að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.