Ungt fólk

Ungmennahús er félagsmiðstöð fyrir ungt fólk. Þar er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, hópastarf, ráðgjöf, sköpun og aðstöðu fyrir viðburði, til að læra eða funda.

Ungmennahús

Ungmennahús er staður fyrir ungt fólk til þess að hittast og eyða frítíma sínum í notalegu rými. Starfsfólk ungmennahúsa er til staðar til að veita ungu fólki stuðning og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, hverjar sem þær eru. 

Hreiðrið

Hreiðrið ungmennahús er í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn. Þar er fjölmargt í boði fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára. Hreiðrið er opið kl. 14-22 á virkum dögum.

Í Hreiðrinu er: 

  • Þægilegur sófi og spilaaðstaða.
  • Pool borð og píluspjald .
  • Hægt að koma af stað klúbbastarfsemi.
  • Spunaspilarar á fimmtudögum.

Fjölbreytt aðstaða er fyrir ungt fólk í Nýsköpunarsetrinu öllu. Þar er: 

  • Hljóðsmiðja til að taka upp tónlist og hlaðvörp. 
  • Ljósmyndaaðstaða og hægt að taka upp myndbönd. 
  • Tilraunasmiðja og hægt að fá leiðsögn milli kl. 15-17. 
  • Tæknismiðjaí anda FabLab sem er sköpunarsmiðja. 
  • Bollinn, kaffiaðstaða þar sem hægt er að setjast, spjalla, elda sér mat og tengjast. 
  • Músík við Lækinn þar sem hljómsveitir geta fengið aðstöðu. Sótt er um með því að senda tölvupóst á nyskopunarsetur@hafnarfjordur.is.

Hlutverk ungmennahúsa

Markmið ungmennahúsa er að stuðla að menningu og bættri þjónustu við hafnfirsk ungmenni. Annars vegar er boðið upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi. Hins vegar er boðið upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileika og að öll upplifi sig velkomin. 

Ungmennin eru alltaf drifkraftur í starfinu meðan verkefnastjórar halda utan um daglegan rekstur og faglegt starf. 

Starfsemi ungmennahúsa

Unnið er í klúbbum, ráðum, hópastarfi og tímabundnum verkefnum. Áhersla er lögð á að virkja fólk til þátttöku og framkvæmda í starfinu, einkum það sem þarf sérstaka hvatningu og stuðning. Áhersla er lögð á lýðræðisleg vinnubrögð og eflingu á sjálfstrausti og félagsfærni ungmenna, með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.