Ungt fólk

Ungmennahús eru félagsmiðstöðvar fyrir ungt fólk. Þar er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, hópastarf, ráðgjöf, sköpun og aðstöðu fyrir viðburði, til að læra eða funda.

Ungmennahúsin

Ungmennahús veita ungu fólki stuðning og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, hverjar sem þær eru. Fyrir liggur að opna aðstöðu og starfsemi bæði á Selhellu og í Nýsköpunar- og tæknisetrinu í Menntasetrinu við Lækinn og færa þannig starfsemi ungmennahúsanna út í hverfin og nær notendum þjónustunnar. Þessi vinna stendur yfir og munu ungmennahúsin opna von bráðar.  

Hlutverk ungmennahúsanna

Markmið ungmennahúsa er að stuðla að menningu og bættri þjónustu við hafnfirsk ungmenni. Annars vegar er boðið upp á tómstundir sem hafa forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi. Hins vegar er boðið upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á fjölbreytileika og að öll upplifi sig velkomin.

Ungmennin eru alltaf drifkraftur í starfinu meðan verkefnastjórar halda utan um daglegan rekstur og faglegt starf.

Starfsemi ungmennahúsanna

Unnið er í klúbbum, ráðum, hópastarfi og tímabundnum verkefnum. Áhersla er lögð á að virkja fólk til þátttöku og framkvæmda í starfinu, einkum það sem þarf sérstaka hvatningu og stuðning. Áhersla er lögð á lýðræðisleg vinnubrögð og eflingu á sjálfstrausti og félagsfærni ungmenna, með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.