Þroskafjör – efling flóttabarna á leikskólaaldri

Fréttir

Sérfræðingar í málefnum flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ, ásamt iðjuþjálfum, unnu að verkefninu Þroskafjör fyrir börn flóttafólks sem hafa sótt um vernd, en komast ekki strax að í leikskóla. Þroskafjör var eitt þeirra verkefna sem fékk tilnefningu sem fyrirmyndarverkefni UNICEF á Íslandi 2023.

Sérfræðingar í málefnum flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ, ásamt iðjuþjálfum, unnu að verkefninu Þroskafjör fyrir börn flóttafólks sem hafa sótt um vernd, en komast ekki strax að í leikskóla. Markmiðið var að veita þeim og foreldrum þeirra, þroskaeflandi kennslu- og leiktíma í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Áhersla var lögð á að efla skólafærni þeirra og einnig að skima fyrir mögulegum frávikum í þroska og færni barnanna, þar með aðstoða þau við að komast í hendur fagaðila fyrr. Börn sem búa við félags- og fjárhagslega skertar aðstæður geta greinst með frávik í þroska, þar sem uppvaxtar umhverfi þeirra hefur ekki verið nægilega eflandi. Þroskafjör var því hugsað sem forvörn gegn því. Með markmiði að þroska og efla skólafærni ungra barna, með leiðsögn iðjuþjálfanna, Svölu H. Sigurðardóttur og Hrefnu Karoninu Óskarsdóttur, sem og að skima fyrir frávikum, til að geta gripið inn sem fyrst og vísað á fagfólk ef þess þurfti. Þroskafjör Hafnarfjarðarbæjar var eitt þeirra verkefna sem fékk tilnefningu sem fyrirmyndarverkefni UNICEF á Íslandi.

Mikilvægt að börn finni fyrir öryggi og umhyggju

Á fyrstu árum í lífi barna er mikilvægt að leggja grundvöll að góðri heilsu, líðan og þroska þeirra. Til að styðja við heilbrigt uppeldi þarf að koma til móts við félags- og tilfinningalegar þarfir barnanna og bjóða upp á menntun sem er í samræmi við það.

Að halda heimili þar sem börn finna fyrir ást, öryggi og eyða gæða tíma með fjölskyldunni sinni, eru einnig mikilvægir þættir fyrir heilbrigða byrjun á lífinu. Umhverfi barna á flótta frá heimalandi sínu, dvalir í flóttamannabúðum og ófyrirsjáanlegar aðstæður, skerða oft möguleika þeirra til eðlilegs þroska. Rannsóknir hafa sýnt fram á auknar líkur á hegðunar, athyglis- og félagslegum vandamálum hjá flóttabörnum. Þegar fjölskyldur hafa varið löngum tíma á flótta og/eða aðgengi að heilbrigðisþjónustu í upprunnalandi hefur verið af skornum skammti, verða greiningar og inngrip vegna þroska barna oft út-undan.

Einnig skortir foreldrum oft þekkingu á kerfunum og aðstoðinni sem er í boði, ásamt ólíkum menningarlegum viðhorfum á fötlun og frávikum í þroska. Það getur leitt til þess að börn fá ekki nægilegan stuðning á því sviði. Auk þess getur áfallasaga foreldra og geðheilsa þeirra haft mikil áhrif á þeirra getu til að veita börnum þau tengsl, athygli og umhyggju sem þau þurfa.

Það er því forgangsmál að rjúfa félagslega einangrun og veita börnum og foreldrum þeirra stuðning við eðlilegan þroska og fyrirbyggja þannig frávik. Það er mikilvægt að bjóða upp á vettvang eins og Þroskafjör, þar sem börn, sem eru nú þegar eftir á í þroska eða með fötlun að einhverju tagi, fá aðgang að sérfræðingum. Þar með hefja greiningaferli sem býður upp á möguleikann á að börnin þrói með sér þá grundvallar færni sem þarf, í samræmi við jafnaldra.

Skipt í hópa eftir aldri og þörfum

Yngri hópurinn í Þroskafjöri var fyrir börn á aldrinum núll til tveggja ára. Þar mættu foreldrar með börnin sín, áttu góða stund saman og efldu tengslamyndun. Með söng, nuddi og skynjunarleikjum. Iðjuþjálfarar voru einnig innan taks fyrir foreldrana, til að veita þeim upplýsingar um þroskaferli hvers barns og hvernig hægt væri að ýta undir örvun og þroska þeirra í daglegu lífi.

Eldri hópurinn var fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára, þeim var skipt í hópa með fimm til sex börnum, eftir þörfum og getu. Í fyrstu mættu foreldrarnir með börnunum sínum, en svo fengu þau meira sjálfstæði með hverju skipti. Tímunum var skipt í gróf- fínhreyfingar, slökun og rökhugsun í skipulögðu umhverfi sem hvatti alla til þátttöku. Þar var prófað nýjar hreyfingar og upplifanir fyrir skynjunarkerfið.

Tvisvar í viku í tíu vikur

Þroskafjör stóð yfir í 10 vikur og mikil framför náðist í að auka skólafærni barnanna sem tóku þátt. Þó að mörg börn voru ekki með sömu færni og jafnaldrar sínir í byrjun verkefnisins, mátti fljótlega sjá jákvæðan mun og nýja færni blómstra hjá flestum börnunum. Sem benti til þess að þau börn sem hafa áður búið við iðjuskort og skort á almennum tækifærum til þroska í sínu nánasta umhverfi, hefur gert það að verkum að þau fengu ekki möguleikan á að þróa sömu færni og jafnaldrar sínir.

Foreldrum var boðið að mæta með börnin sín í tímana og styðja þannig við þátttöku þeirra. Að auki gegndu túlkar lykilhlutverki í verkefninu til þess að auðvelda samskipti, reynt var að hafa alltaf sama túlkinn.

Það var lagt mikla áherslu á samskipti og samvinnu barnanna. Það var því jákvæður munur í lok verkefnisins á því hvernig börnin tóku þátt í hópaverkefnum. þau eiga nú auðveldara með að fylgja leiðbeiningum fullorðna og taka betur tillit til þarfa sinna og annara. Mörg þeirra geta nú beðið stillt í röð, skipst á í leik, vandað sig við að lita og jafnvel skrifað nöfnin sín sjálf.  Sjálfstraust barnanna hefur einnig aukist. Með auknu úthaldi finna þau fyrir framför og stolti yfir þeim áföngum sem náðust.

Hjálpar þeim að aðlagast skólakerfinu

Að fá upplýsingar um hvar börnin eru stödd í þroska ferlinu, minnkar verulega þann þröskuld sem getur myndast á leið þeirra inn í skólakerfið. Það hjálpar þeim þannig að aðlagast betur þegar þau fara í leik- og grunnskóla. Að auki gerir það skólastarfsfólki auðveldara fyrir, að koma til móts við þarfir barnanna. Verkefnið gagnaðist foreldrum einnig vel. Þau lærðu nýjar aðferðir til að skilja barnið betur, mynda sterkari tengsl, styðja við það og í leiðinni mynduðu þau nýjan félagsskap og sterkt stuðningsnet með öðrum foreldrum. Upplýsingar um frávik í þroska barnanna voru send á heilsugæslu til að fylgjast með þróun þeirra og hefja greiningarferlið ef þörf taldist á því. Þessi börn fá því þjónustu talsvert fyrr en myndi háttast án þjónustu Þroskafjörs. Árangur náðist í góðri aðsókn og þátttöku barna og foreldra þeirra í verkefninu. Börnin fengu tækifæri til að vera börn eins og jafnaldrar sínir án þess að bakgrunnur þeirra væri í fyrirrúmi.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Þroskafjör styður við lög um farsæld barna og fer eftir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fyrst og fremst er verið að horfa á börn og þarfir þeirra í gegnum ferlið (1. Gr – Hugtakið barn, 31. Gr – hvíld, leikur, menning og listir) og að þjónusta þau eins og önnur börn (2. Gr – öll börn eru jöfn) með það að markmið að finna hvað er fyrir bestu fyrir hvert barn (3. Gr). Þá er einnig horft til foreldra barnanna, efla þau í hlutverki sínu og í tengslum þeirra við börnin sín (5. Gr – leiðsögn fjölskyldu, 18. Gr ábyrgð foreldra). Síðast en ekki síst er tekið tillit til sérstæðu þessa hóps (22. Gr – Börn á flótta) og þeirra í hópnum sem þurfa aukin stuðning (23. Gr – fötluð börn) og aðstoð þau við að ná bata og betri aðlögun í skólakerfið (39. Gr).

Ábendingagátt