Þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun – mál og læsi

Fréttir

Frá árinu 2014 hefur Hafnarfjarðarbær markvisst unnið að innleiðingu á þróunarverkefni sem snýr að snemmtækri íhlutun hvað varðar mál og læsi í leikskólum Hafnarfjarðar. Í dag hafa sjö leikskólar og einn grunnskóli innleitt þróunarverkefnið í skólastarfið og gefið út sína eigin handbók auk þess sem þrír leikskólar til viðbótar eru í innleiðingarferli. Skarðshlíðarskóli er fyrsti grunnskóli Hafnarfjarðar til að innleiða þróunarverkefnið.

Frá árinu 2014 hefur Hafnarfjarðarbær markvisst unnið að innleiðingu á þróunarverkefni sem snýr að snemmtækri íhlutun hvað varðar mál og læsi í leikskólum Hafnarfjarðar. Leikskólinn Norðurberg var fyrstur leikskóla í Hafnarfirði til að innleiða verkefnið skólaárin 2014-2016 og gaf sumarið 2017 út handbók um snemmtæka íhlutun í málörvun leikskólabarna og undirbúning fyrir lestur. Í dag hafa sjö leikskólar og einn grunnskóli innleitt þróunarverkefnið í skólastarfið og gefið út sína eigin handbók auk þess sem þrír leikskólar til viðbótar eru í innleiðingarferli. 

IMG_5556Skarðshlíðarskóli er fyrsti grunnskóli Hafnarfjarðar til að innleiða þróunarverkefnið. Hér má sjá Ingibjörgu Magnúsdóttur skólastjóra með handbók skólans um snemmtæka íhlutun í málörvun og lestrarnámi grunnskólabarna.  

Samstarf í anda lærdómssamfélagsins

Þróunarverkefnið er unnið í nánu samstarfi við skólastjórnendur og tengiliði innan hvers skóla en fyrir verkefninu og innleiðingu þess fer Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur hjá Hafnarfjarðarbæ. Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingur hefur verið Ásthildi til halds og trausts hvað innleiðingu til grunnskóla varðar. Í anda lærdómssamfélagsins hefur áhersla verið lögð á það frá upphafi að virkja starfsfólk skólanna til virkrar þátttöku í mótun og innleiðingu enda kallar verkefnið á innri greiningu, rýni og mat á tækifærum og möguleikum út frá sérstöðu og eiginleikum hvers skóla. Markmið með þróunarverkefninu er margþætt; allt frá beinni fræðslu til starfsfólks um læsi, málörvun og snemmtæka íhlutun til verkferla og framkvæmda á hverjum stað sem saman tryggja framgang og árangur. Hver leikskóli útbýr sína handbók sem er leiðbeinandi og lifandi uppflettirit fyrir starfsfólk og hefur þann tilgang að samhæfa fagvinnu og festa ákveðin vinnubrögð í sessi. Á sama tíma eru handbækurnar góður grunnur og fyrirmynd í snemmtækri íhlutun varðandi málörvun og lestrarnám barna fyrir aðra skóla.

IMG_5568

Hver leikskóli útbýr sína handbók sem er leiðbeinandi og lifandi uppflettirit fyrir starfsfólk og hefur þann tilgang að samhæfa fagvinnu og festa ákveðin vinnubrögð í sessi. Hér má sjá handbók Hörðuvalla: Okkar hjartans mál.  

Þeir leikskólar sem hafa lokið innleiðingunni í Hafnarfirði og útbúið handbækur um verkefnið, til viðbótar við Norðurberg og Bjarkalund sem innleiddu verkefnið skólaárin 2016-2018 eru: Álfaberg, Álfasteinn, Hlíðarberg, Hörðuvellir og Smáralundur (2017-2020). Hlíðarendi, Hraunvallaleikskóli og Vesturkot eru í innleiðingarferli. Stefnt er að kynningu á handbókum og verklagi innan hvers skóla, fyrir foreldra og annað fagfólk um leið og aðstæður leyfa.

Árangurinn er ávöxtur öflugs samstarfs

Starfsfólk leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar hefur unnið frábært starf við innleiðingu á þróunarverkefni er varðar mál og læsi og vonir standa til þess að verkefnið muni til framtíðar litið minnka þörf fyrir greiningar á seinni stigum enda barn gripið og því veitt viðeigandi aðstoð og þjónusta um leið og minnsti grunur vaknar. Ákveðið hefur verið að þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun hvað varðar mál og læsi verði hluti af verklagi Brúarinnar sem hefur þann tilgang að samþætta og efla þjónustu og stuðning bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Í Brúarteymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá mennta- og lýðheilsusviði og fjölskyldu- og skólaþjónustu Brúarinnar. Hlutverk brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Snemmtæk íhlutun hvað varðar mál og læsi verður hluti af þessari kortlagningu.

Við óskum þeim leikskólum og grunnskóla sem lokið hafa við innleiðingu þróunarverkefnis innilega til hamingju með vel unnið og mikilvægt starf í þágu málþroska og læsis. 

Ábendingagátt