Til hamingju með daginn Hafnfirðingar

Fréttir

Almenn gleði, kosningar og afmæli Hafnarfjarðarbæjar lita þennan laugardag. Já, það er hátíðarbragur á þessum kosningadegi sem lendir á 116. afmælisdegi Hafnarfjarðar. Öll söfn Byggðasafns Hafnarfjarðar verða opin frá 11-17, Hafnarborg býður gestum upp á nýja sýningu auk þess sem gleðina verður að finna á Bókasafni Hafnarfjarðar. Til hamingju!

Bærinn á afmæli í dag! Frá 1.400 í um 32.000 manna bæjarfélag

Hafnarfjarðarbær fagnar í dag, laugardaginn 1. júní 2024, 116 ára afmæli. Sveitarfélagið fékk kaupstaðaréttindi þann 1. júní 1908. Hafnarfjörður hefur þroskast og dafnað á sínum 116 árum. Ári frá kaupstaðaréttindunum, þann 1. júní 1909, bjuggu 1.469 manns í bænum og voru 109 börn skráð í barnaskóla bæjarins.

Nú í ársbyrjun búa hér rétt tæplega 32.000 og nemendur í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins eru rúmlega 6000. Það er hátíð í bæ og Hafnfirðingar hvattir til að fagna afmælinu. Þau fullorðnu eru þó minnt á að að gleyma sér ekki í afmælisgleðinni og nýta kosningarétt sinn. Þau yngri munu finna gleðina á Bókasafni Hafnarfjarðar. Þau geta hitað upp fyrir sumarlesturinn, prinsessur leiða föndursmiðju á mörgum tungumálum og Dr. Bæk mætir og fer yfir reiðhjólin fyrir ævintýraleiðangra sumarsins.

Þau sem vilja njóta listar og menningar þennan kosninga- og afmælisdag geta litið við á Byggðasafni Hafnarfjarðar og í Hafnarborg. Þann 1. júní ár hvert opna öll sýningarhús Byggðasafnsins og í gær opnaði enn ein nýja sýningin í Hafnarborg sem vert er að skoða. Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug eru opnar og svo – rétt eins og þið vitið – þá býr afmælisbæinn okkar að fallegum útivistarperlum. Hér má sjá nokkrar hugmyndir að skemmtun á 116 ára afmælisdaginn og aðra daga:

Forsetakosningar á afmælisdeginum. Hvar kýst þú?

Kjörfundur í Hafnarfirði vegna forsetakosninganna hefst kl. 9 og lýkur kl. 22. Kjörstaðir í Hafnarfirði eru Lækjarskóli, Sólvangsvegi 4 og Ásvellir, íþróttamiðstöð.

Það er frábær dagur í vændum. Njótið, því hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann Hafnarfjarðarbær.

Ábendingagátt