Afgangur í rekstri og mikil uppbygging

Fréttir

Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 541 milljón króna á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 3,1% af heildartekjum eða 1.265 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um rúmlega 2,3 milljarða króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um 36 milljónir króna.

Afgangur í rekstri og mikil uppbygging

Tillaga að fjárhagsáætlun 2023 verður lögð fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar til fyrri umræðu í dag, miðvikudaginn 9. nóvember. Áætlaður rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitarfélagsins nemur 541 milljón króna á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 3,1% af heildartekjum eða 1.265 milljónir króna. Áætlun gerir ráð fyrir að rekstur A-hluta verði jákvæður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um rúmlega 2,3 milljarða króna og afkoma A-hluta verði jákvæð um 36 milljónir króna.

Uppbygging og fjölgun íbúa á næstu árum

Mikil uppbygging á sér nú stað í Hafnarfirði í nýjum hverfum, á þéttingarreitum og atvinnusvæðum. Fyrirséð er að íbúum og fyrirtækjum á eftir að fjölga umtalsvert á komandi árum sem skila mun vaxandi tekjum fyrir sveitarfélagið. Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta verði um 40,4 milljarðar króna árið 2023 og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði um 37,0 milljarðar króna. Af heildartekjum eru rúmlega 3,8 milljarðar króna vegna tekjufærslu á sölu lóða.

Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðar er góð og er skuldaviðmið áætlað um 98% í lok næsta árs. Útsvarsprósenta verður áfram 14,48% en heildarálagning fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,744% í 0,704% með lækkun á vatns- og fráveitugjöldum. Áætlað er að útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks aukist um 23% á næsta ári og nemi liðlega 5 milljörðum króna. Helstu óvissuþættir við áætlunargerð eru væntanlegir kjarasamningar, áhrif verðbólgu og alþjóðleg efnahagsþróun.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2023

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 541 milljón króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 36 milljónir króna
  • Skuldaviðmið áætlað um 98% í árslok 2023
  • Gerð verður hagræðingarkrafa í rekstri sveitarfélagsins á árinu 2023 sem nemur 500 milljónum króna
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 1.265 milljónir króna eða 3,1% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta óbreytt, eða 14,48%
  • Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði lækka með lægri vatns- og fráveitugjöldum sem nemur hækkun fasteignamats umfram verðlag
  • Heildarálagning fasteignagjalda fer úr 0,744% í 0,704% sem samsvarar 312 milljónum króna lækkun gjaldanna
  • Ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar fyrir árið 2023 verða teknar á milli umræðna en gert er ráð fyrir hækkunum um 7,5-9,5% til þess að mæta verðlagshækkunum umfram áætlanir þessa árs og væntanlegri verðbólgu næsta árs.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema liðlega 7 milljörðum króna
  • Útgjöld vegna málefna fatlaðra aukast um 23% og nema liðlega 5 milljörðum króna

„Hafnarfjarðarbær er rekinn með ábyrgum hætti. Því er gert ráð fyrir afgangi hjá bæjarsjóði á árinu 2023 og að skuldaviðmið haldist áfram undir 100%. Sem fyrr leggjum við megin áhersluna á aðhald í rekstri og við gætum þess að auka ekki álögur á íbúa,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri. „Rekstrarumhverfið er krefjandi þar sem sveitarfélög hafa á undanförnum árum tekið að sér aukna félagslega þjónustu án þess að fjármagn hafi fylgt frá ríkinu. Við gætum þess þó að það komi ekki niður á metnaðarfullri þjónustu í Hafnarfirði en brýnt er að þetta misræmi verði lagað sem fyrst. Framundan er bjart í Hafnarfirði og ég er þess fullviss að sú mikla uppbygging sem nú á sér stað í bænum, með hraðri fjölgun íbúa og fyrirtækja, muni skapa mikil tækifæri til framtíðar.“

Helstu framkvæmdir árið 2023

Fjárheimild til framkvæmda á árinu 2023 er rúmlega 7 milljarðar króna. Í fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í grunnþjónustu, svo sem umhverfismálum, samgöngum, íþróttaaðstöðu, húsnæðis- og fráveitumálum. Haldið verður áfram frágangi á nýbyggingarsvæðum víðs vegar um bæinn, svo sem malbikun, gerð stétta, stíga og leiksvæða og almennri grænkun svæða. Unnið verður að gatnagerð í nýju íbúðahverfi í Áslandi 4 og iðnaðarhverfi í Hellnahrauni 3. Unnið verður að endurgerð gatnamóta, gangstétta og gönguleiða í bænum og sérstakt fjármagn lagt í að efla hjólreiðaleiðir í sveitarfélaginu. Á næsta ári verður haldið áfram með stíginn við Kaldárselsveg og er áætlað að leggja hann alla leið í Kaldárbotna. Aldarafmæli Hellisgerðis er á næsta ári og er sérstöku fjármagni varið til þess að fegra garðinn. Fjármagn verður sett í að auka gróður í hverfum bæjarins, þar sem hugað verður að skjólmyndun og fegrun og átak verður í grænkun Valla.

Á þessu ári var boðið út nýtt knatthús á félagssvæði Knattspyrnufélagsins Hauka en áætlanir gera ráð fyrir að knattspyrnusalurinn verði tilbúinn í lok árs 2024. Þá var boðin út ný reiðhöll á félagssvæði Hestamannafélagsins Sörla og mun þeirri framkvæmd ljúka á næstu þremur árum. Fimleikafélag Hafnarfjarðar mun ljúka við gerð hybrid-knattspyrnuvallar á næsta ári og í Íþróttahúsinu við Strandgötu verður farið í lagfæringar á aðstöðu. Áætlað er að hefja endurgerð innanhúss í Sundhöllinni en sundlaugin verður 100 ára 2023. Þá verður farið í fjölmargar aðrar framkvæmdir á árinu 2023, m.a. í skólum, leikskólum, leiksvæðum og ferðamannastöðum, auk frekari uppbyggingar á Suðurhöfninni og framkvæmda Vatnsveitu og Fráveitu.

Afgreiðsla fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar er lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 9. nóvember 2022. Fjárhagsáætlun nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2024-2026. Gert er ráð fyrir að síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar í bæjarstjórn verði miðvikudaginn 7. desember 2022.

Hér má kynna sér Fjárhagsáætlun og og málaflokkayfirlit 2023-2026.

 

Ábendingagátt