Tilraun með kolefnishlutlaust bindiefni í malbik í Hafnarfirði

Fréttir

Colas Ísland hf í samstarfi við móðurfélag sitt tekur þátt í rannsóknarverkefni sem framkvæmt er víða um heim um þessar mundir. Verkefnið felst í að blanda lífrænu efni, PTO, sem er hliðarafurð úr pappírsvinnslu út í hefðbundið stungubik sem notað er til blöndunar á malbiki meðal annars á Íslandi. Hafnarfjarðarbær tekur þátt í þessu tímamótaverkefni á Íslandi með Colas og hefur malbik með umræddu bindiefni verið framleitt og lagt út á nýjan göngustíg við Ásvallabraut í Hafnarfirði.

Tímamótaverkefni á Íslandi og mikilvægt skref í baráttunni við losun kolefnis í umhverfið

Colas Ísland hf í samstarfi við móðurfélag sitt tekur þátt í rannsóknarverkefni sem framkvæmt er víða um heim um þessar mundir. Verkefnið felst í að blanda lífrænu efni, PTO, sem er hliðarafurð úr pappírsvinnslu út í hefðbundið stungubik sem notað er til blöndunar á malbiki meðal annars á Íslandi. Hafnarfjarðarbær tekur þátt í þessu tímamótaverkefni á Íslandi með Colas og hefur malbik með umræddu bindiefni verið framleitt og lagt út á nýjan göngustíg við Ásvallabraut í Hafnarfirði.

Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og Colas við umræddan göngustíg

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri með fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar og Colas við umræddan göngustíg.

Kolefnishlutleysi og jafnvel neikvætt kolefnisspor

Við þessa nýju blöndun mýkist hið hefðbundna stungubik og mikilvægir eiginleikar þess breytast. Stungudýpt, sem er mælikvarði fyrir stífni, hækkar en mýkingarmarkið lækkar. Á Íslandi eru tvær gerðir stungubiks notaðar til malbiksframleiðslu, í daglegu tali nefnt hart bik og mjúkt bik. Þegar PTO er blandað út í „hart bik“ mýkist stungubikið og verða eiginleikar þess svipaðir og í „mjúku biki“ sem er notað hlutfallslega mest hér á landi. Það mikilvægasta við þetta verkefni er að vegna uppruna PTO er það með neikvætt kolefnisspor, svo neikvætt reyndar að við 12% íblöndun verður blandan, það er bindiefnið sem notað er í malbikið, kolefnishlutlaus og jafnvel neikvæð.

„Græn sýn Hafnarfjarðar endurspeglast í skipulagi, stefnum og aðgerðaáætlunum og mótar grunninn í heildstæða stefnumótun fyrir sveitarfélagið til ársins 2035. Þátttaka í þessu tilraunaverkefni með Colas er eitt af fjölmörgum grænum skrefum sem sveitarfélagið er að taka þessa dagana. Við erum þriðja stærsta sveitarfélag landsins og að fullu meðvituð um ábyrgð okkar í stóra samhenginu. Við ætlum okkur að vera í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum og leggja okkar 100% að mörkum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndunar úrgangs. Hér er um að ræða framsækið frumkvæði hjá Colas í samstarfi við sveitarfélagið,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Mikilvægt skref í baráttunni við losun kolefnis í umhverfið

Vonir standa til að í framtíðinni aukist notkun bindiefnis sem inniheldur PTO í  malbiksframleiðslu og er það mikilvægur þáttur í baráttunni við losun kolefnis út í umhverfið. Samhliða því að auka notkun á endurunnu malbiki í nýtt malbik, stígur malbiksiðnaðurinn stórt skref í átt að markmiði sínu um 30% minnkun losunar á CO2 fyrir árið 2030.

Ábendingagátt