Töfrar félagsmiðstöðva og ungmennahúsa

Fréttir

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan er haldin hátíðleg dagana 15.-19. nóvember. Vikan hefur það að markmiði að varpa ljósi á mikilvægi og virði þessa vettvangs fyrir börn og ungmenni með hvatningu um að sem flestir (foreldrar, forráðamenn, systkini, vinir og aðrir aðstandendur) kynni sér starfsemi stöðvanna í sínu hverfi. Í dag eru skráðar 126 félagsmiðstöðvar og 11 ungmennahús sem aðildarfélög Samfés á landsvísu. Þar af eru 9 félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði og 2 ungmennahús. 

Vissir þú að í Hafnarfirði eru
starfræktar 9 félagsmiðstöðvar og 2 ungmennahús?

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan er haldin hátíðleg
dagana 15.-19. nóvember. Vikan hefur það að markmiði að varpa ljósi á mikilvægi og virði þessa vettvangs fyrir börn og ungmenni með hvatningu um að sem flestir (foreldrar, forráðamenn, systkini, vinir og aðrir aðstandendur) kynni sér starfsemi stöðvanna í sínu hverfi. Starf félagsmiðstöðva og ungmennahúsa er í eðli sínu forvarnastarf og hefur starfsfólk félagsmiðstöðvanna lagt ríka áherslu á að skapa einstaka menningu og umhverfi með sínum börnum og ungmennum.  

Félagsmiðstöðvar í öllum hverfum við alla grunnskóla 

Fyrirkomulagið er mjög gott  í Hafnarfirði og greiður aðgangur barna og ungmenna að þjónustunni. Félagsmiðstöð er starfrækt í öllum hverfum við alla níu grunnskóla sveitarfélagsins. Félagsmiðstöðin Dalurinn við Engidalsskóla er nýjasta viðbótin og þjónustar hún börn á miðstigi. Frístundaklúbbarnir Kletturinn og Vinaskjól í Húsinu Suðurgötu 14 bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun.  Í Hafnarfirði eru einnig starfrækt tvö ungmennahús eða ungmennahús og sérhæfð félagsmiðstöð. Annarsvegar Hamarinn á Suðurgötu með starfsemi fyrir 16 – 25 ára og hinsvegar Músík og Mótor á Dalshrauni með starfsemi fyrir 13 – 25 ára. 

Upplýsingar um félagsmiðstöðvar grunnskólanna

Upplýsingar um frístundaklúbbana í Húsinu

Sjá yfirlit yfir félagsmiðstöðvarnar í grunnskólunum 

Allt um ungmennahúsin 

Þátttaka í skipulögðu frístundastarfi er mikilvæg forvörn 

Sýnt hefur verið fram á að þátttaka í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi skiptir miklu máli fyrir framtíð barna og ungmenna, það hefur verið talin einn af stærri verndandi þáttum í þeirra lífi. Þau ungmenni sem taka þátt í skipulögðu starfi eru ólíklegri en önnur börn, til að nota áfengi, tóbak og vímuefni. Það skiptir ekki máli hvort um ræðir íþróttir, dans, tónlist, skátastarf eða félagsmiðstöðvastarf. Þau ungmenni sem taka þátt í skipulögðu starfi eru líklegri til að standa sig betur í skóla, líða betur, hafa jákvæðari líkamsvitund og meiri sjálfsvirðingu. Skilgreining Samfés á félagsmiðstöð: Félagsmiðstöð, eins og við þekkjum hana í dag, er afdrep þar sem unglingar á aldrinum 13-16 ára geta varið frítíma sínum án áfengis og vímuefna. Hlutverk félagsmiðstöðva er að stuðla að jákvæðum þroska unglinga og gera þau sjálfstæðari, bæði í verki og félagslegum samskiptum og gera þau hæfari til að takast á við lífið. 

Hlutverk félagsmiðstöðva – frístundastarf sem tekur mið af aldri og þroska 

Hlutverk félagsmiðstöðva er að bjóða
börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára upp á frístundastarf sem hefur
forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska.
Það er mikilvægt að bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með
jafnöldrum í öruggu umhverfi. Áhersla er lögð á að virkja börn og unglinga til
virkrar þátttöku og framkvæmda í starfinu. Félagsmiðstöðvarstarfið er
fjölbreytt og er dagskrá unnin með ungmennum. Þær standa einnig að stærri
viðburðum eins og grunnskólahátíð, söngvakeppni, skólaskate, Hafnarfjarðarstíl og spurningarkeppninni Veistu svarið svo eitthvað sé nefnt. Einnig taka þau þátt í stærri viðburðum á
landsvísu eins og Söngvakeppni Samfés, Samfestingnum og Rímnaflæði. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna reyna að hvetja börn og ungmenni að fylgja sínum
styrkleikum enda meiri líkur á því að einstaklingurinn blómstri þegar
hann finnur ástund og áhugamál við hæfi. Eitt af því sem félagsmiðstöðvar leggja mikinn
metnað í er þátttaka unga fólksins og eru þau höfð eftir fremsta megni með í
ráðum og hvött til lýðræðislegrar þátttöku.

Félagsmiðstöðvarnar sinna einnig leitarstarfi 

Félagsmiðstöðvar sinna einnig
leitarstarfi en það sá þáttur starfseminnar sem miðar að því að finna og vinna
með börn og ungmenni sem teljast til áhættuhóps af einhverjum ástæðum eða þurfa
á aðstoð að halda. Þannig vinnur starfsfólk markvisst hópastarf með einstaklingum sem það þurfa
en rannsóknir sýna að vel skipulagt og faglega unnið hópastarf skilar miklum
árangri í líðan barna og ungmenna.

Hamarinn og Músik & mótor sinna félagsstarfi fyrir eldri ungmenni 

Þegar hafnfirsk ungmenni komast á
framhaldsskólaaldur þá tekur við Ungmennahúsið Hamarinn sem er staðsett að Suðurgötu
14 og er opið frá kl. 9-23 alla virka daga. Þar eiga
ungmenni í Hafnarfirði öruggt rými þar sem þau stýra verkefnum og dagskrá í samráði við
starfsfólk. Í Hamrinum er aðstaða til að læra, njóta, fara í pool eða fá
ráðgjöf frá Berginu Headspace og Samtökunum 78. Þar er skipulagt starf í
kringum spunaspil, handavinnu, útivist og fleira. Annan hvern þriðjudag er
Hinsegin Hamarinn en þá hittast ungmenni sem skilgreina sig hinsegin og eiga
notalega kvöldstund saman. Hægt er að finna Hamarinn á Facebook og Instagram til að fylgjast með starfinu þar og öllu því sem í boði er á þeirra vegum. 

Músik og mótor er sérhæfð félagsmiðstöð sem staðsett er í gömlu lakkrísgerðinni að Dalshrauni 10. Þar er hægt að fá herbergi
til afnota til að sinna allskonar listsköpun eins og fyrir hljómsveitir að æfa,
myndlistarfólk að skapa eða hvað sem er sem krefst pláss. Einnig er þar stór bílskúr þar sem hægt er að finna tól og tæki til að taka í sundur mótorhjól, bíla, og í raun hvað sem er, og setja aftur saman. Músik og mótor er opið alla virka
daga frá kl. 15 – 22. Músik og mótor er líka á Facebook og Instagram.

Kynnið ykkur starf félagsmiðstöðvanna

Hafnarfjarðarbær hvetur aðstandendur til að kynna sér starf félagsmiðstöðvanna, börn og ungmenni til að nýta sér þjónustuna og þakkar á sama tíma starfsfólki, börnum og ungmennum fyrir þeirra framlag í mótun á félagsstarfi og umgjörð sem einkennist af einstöku andrúmslofti, áhuga, metnaði og umfram allt gleði! 

Takk fyrir ykkur! 

Ábendingagátt