Tólf tillögur frá Ungmennaráði Hafnarfjarðar

Fréttir

Ungmennaráð Hafnarfjarðar lagði tólf tillögur fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi bæjarstjórnar þann 24. maí sl. Tillögurnar taka meðal annars til málefna á sviði skólastarfs, tómstundastarfs og skipulags í nánasta umhverfi. Bæjarstjórn tók jákvætt í allar tillögur Ungmennaráðs og samþykkti samhljóða að vísa þeim til umræða og afgreiðslu í viðeigandi ráðum.

Öllum tillögum vísað áfram til umræðu innan viðeigandi ráða

Ungmennaráð Hafnarfjarðar lagði tólf tillögur fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar á fundi bæjarstjórnar þann 24. maí síðastliðinn. Tillögurnar taka meðal annars til málefna á sviði skólastarfs, tómstundastarfs og skipulags í nánasta umhverfi. Bæjarstjórn tók jákvætt í allar tillögur Ungmennaráðs og samþykkti samhljóða að vísa þeim til umræða og afgreiðslu í viðeigandi ráðum. Tillögurnar eru þegar komnar til umræðu innan ráða og nefnda.

 

Tillögurnar eru eftirfarandi:

  1. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ungmennaráðið fái að koma að ráða- og nefndarstarfi í auknum mæli. Lagt er til að Ungmennaráðið fái ýmist áheyrnarfulltrúa eða almennan fulltrúa í ráð og nefndir. Vísað til umræðu bæjarráðs.
  2. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að bæjarstjórn auki fræðslu um stjórnmál og kosningar í grunnskólum og beiti sér í kjölfarið fyrir lækkun kosningaaldurs í 16 ár. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  3. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að sveitarfélagið geri enn betur í að tryggja aðgengi fatlaðs fólks til jafns við aðra, sérstaklega aðgengi að íþróttum. Vísað til umræðu fjölskylduráðs.
  4. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að því verði tryggð viðunandi aðstaða til að funda þar sem lítill vinnufriður er í Hamrinum, ungmennahúsi. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  5. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að sveitarfélagið meti starf ungmennaráðs að verðleikum og greiði fulltrúum laun fyrir fundarsetu. Vísað til umræðu bæjarráðs.
  6. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að Hafnarfjarðarbær ráðist í róttækari aðgerðir í loftslagsmálum og setji á fót nefnd um loftslagsmál. Vísað til umræðu umhverfis- og framkvæmdaráðs.
  7. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að félagsmiðstöðvar bæjarins skipuleggi sameiginlega hittinga að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  8. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ráðist verði í frekari aðgerðir til að sporna gegn vaxandi fordómum í garð hinsegin fólks í samfélaginu og að brugðist verði við fordómum innan veggja grunnskólanna. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  9. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að Hafnarfjarðarbær skipti Mentor út fyrir Innu. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  10. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ungmennahús Hafnarfjarðar verði sameinuð í eitt stórt ungmennahús sem gæti til dæmis verið staðsett í núverandi húsnæði bókasafns Hafnarfjarðar að Strandgötu 1. Tryggja þarf mótor-hluta Músík og mótor hentugt framtíðarhúsnæði. Vísað til umræðu fræðsluráðs.
  11. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að ókeypis verði í strætó fyrir börn yngri en 18 ára og að ferðir leiðar 19 verði tíðari. Vísað til umræðu umhverfis- og framkvæmdaráðs.
  12. Ungmennaráð Hafnarfjarðar leggur til að Hafnarfjarðarbær bjóði upp á íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Vísað til umræðu fræðsluráðs.

 

Um Ungmennaráð Hafnarfjarðar

Ungmennaráð Hafnarfjarðar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára. Áhersla er lögð á þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum ásamt því að koma skoðunum ungs fólks til réttra aðila innan stjórnkerfisins. Í Ungmennaráði sitja tveir fulltrúar úr hverjum grunnskóla í Hafnarfirði, þrír úr hverjum framhaldsskóla í Hafnarfirði og þrír fulltrúar sem eru valdir í gegnum Hamarinn að Suðurgötu 14. Starfsmenn ráðsins eru tveir og starfa þeir fyrst og fremst sem ráðgjafar og hafa því ekki áhrif á starfsemi þess. Markmið ráðsins að skapa vettvang og leiðir fyrir þá sem eru yngri en 18 ára til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Þátttaka ungs fólks er mikilvæg til þess að bæta þjónustu og aðstæður þeirra. Á það fyrst og fremst við um málefni sem viðkemur ungu fólki á einn eða annan hátt og þau þekkja af eigin raun. Þar má nefna skólastarf, tómstundastarf og skipulag nánasta umhverfis.

Nánar um Ungmennaráð | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Ábendingagátt