Tvö ungmennahús verða opnuð

Fréttir

16-24 ára Hafnfirðingar eru boðaðir á Ungmennaþing í Flensborg til að hafa áhrif á þjónustu tveggja nýrra ungmennahúsa. Stefnt er að því að bæta þjónustuna í stærra húsnæði.

Ungu fólki boðið að hafa áhrif í Hafnarfirði

„Ungt fólk þarf að hafa tilgang, eiga vini og vera partur af samfélagi,“ segir Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, í Hafnfirskri æsku Fjarðarfrétta sem kom út í gær 12. september.

Tvö ný ungmennahús bíða í startholunum fyrir unga Hafnfirðinga. Annað þeirra er í gamla Lækjar­skóla, Nýsköpunarsetrinu. Þar verður áhersla lögð á listir og sköpun. Dagvistun fyrir fötluð ungmenni, sem hafa lokið framhaldsskóla, verður svo sett upp á Selhellu 7, þar sem Brettafélag Hafnarfjarðar er einnig til húsa. Þar verður einnig hópa- og félagsstarf fyrir ólíka hópa á kvöldin.

„Þessi tvö hús taka við af Hamrinum,“ segir Geir og að blásið verði til sóknar. „Meira en helmingi meira pláss. Þjónustan verður fjölbreyttari og opnunartíminn samtals lengri,“ segir hann. „Já, það á að breyta þjónustunni, efla og gefa fleirum tækifæri á að taka þátt. Það tekur tíma að setja upp starfsemina í nýjum húsum og við viljum gera það rétt,“ segir Geir. Því verður blásið til Ungmennaþings þriðju­daginn 24. september í Flensborg kl. 17.

Unga fólkið skiptir öllu máli

„Við ætlum að bjóða öllum ungmennum 16-24 ára á þingið. Við viljum heyra hvernig þau telja að þjónustan verði sem best.“ Starfshópur leggi nú línurnar, hitti forsvarsmenn Hins hússins og Mosans í Mosfellsbæ svo starfið verði sniðið að hópunum og nái einnig til jaðarhópa.

„Þetta unga fólk skiptir okkur máli,“ segir Geir og að einnig verði leitað til fatlaðra ungmenna og þeirra sem eru af erlendu bergi brotin og taki hugsanlega síður þátt á svona þingi. Verið sé að ráða starfsfólk og búist við að starfsemin hefjist í október.

„Já, við réðumst í breytingar og vinnum nú að því skýra markmiði að félagsstarf unga fólksins verði öflugra. Við ætlum að gera betur fyrir hafnfirsk ungmenni. Þessi þjónusta skiptir miklu máli, því ungt fólk þarf að hittast. Það þarf að berjast gegn einangrun og gefa þeim tækifæri á að læra og eflast saman,“ segir hann.

Ekki eigi að óttast breytingar

„Það skiptir svo miklu máli að vera ekki hrædd við breytingar. Við verðum að fylgja tíðarandanum. Þess vegna verða ungmennahúsin að vera á tánum og fylgja því sem er efst á baugi hverju sinni. Núna eiga þau til að mynda að ræða um ofbeldismenningu rétt eins og í skólunum og í félagsmiðstöðvunum,“ segir hann.

„Þegar ungt fólk hefur ekki aðstöðu til að skapa tónlist, þá er það okkar að hlaupa undir bagga, þegar þröngt er um atvinnulífið eigum við að bjóða störf. Þetta er markmiðið og afar mikilvægt að við höfum unga fólkið með okkur til að finna réttu lausnina hverju sinni,“ segir Geir.

„Ungmennahúsin eru aðstaða þar sem ungt fólk er þjálfað í samskiptum og félagsleg tengslum sem hjálpar þeim að fóta sig í lífinu. Það skiptir okkur því miklu máli að vinna hratt að því að opna húsin og það ætlum við að gera,“ segir Geir.

Greinin birtist í Hafnfirskri æsku Fjarðarfrétta.
Ábendingagátt