Upplestrarhátíð sem gefur og gleður

Fréttir

Um 250 gestir, listafólk og 18 þátttakendur tóku þátt í lokahátíð nýrrar hafnfirskrar upplestrarkeppni sem ber heitið Upplestrarkeppni 7. bekkinga í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hátíðin var haldin sl. þriðjudag í Víðistaðakirkju og tekur við af Stóru upplestrarkeppninni sem notið hefur mikilla vinsælda um árabil. Tveir nemendur frá hverjum grunnskóla stigu á stokk með faglegan og fallegan upplestur fyrir hönd síns skóla og fluttu texta og ljóð eftir skáld keppninnar. 

Lokahátíð nýrrar upplestrarkeppni byggir á góðum grunni

Um 250 gestir, listafólk og 18 þátttakendur tóku þátt í lokahátíð nýrrar hafnfirskrar upplestrarkeppni sem ber heitið Upplestrarkeppni 7. bekkinga í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hátíðin var haldin sl. þriðjudag í Víðistaðakirkju og tekur við af Stóru upplestrarkeppninni sem notið hefur mikilla vinsælda um árabil. Tveir nemendur frá hverjum grunnskóla stigu á stokk með faglegan og fallegan upplestur fyrir hönd síns skóla og fluttu texta og ljóð eftir skáld keppninnar. Skáld keppninnar að þessu sinni voru Gunnar Helgason og Vilborg Dagbjartsdóttir og ávarpaði Gunnar gestina á hátíðinni. 

IMG_2417

Hér má sjá alla þátttakendur með Forseta Íslands, ráðherra, bæjarstjóra, skáldi keppninnar og guðmóður.  

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heiðraði upplesara og gesti með nærveru sinni, afhenti bókagjafir og flutti stutt ávarp. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar voru einnig meðal gesta og fluttu stutt ávarp, þakkir og hrós til hópsins og hátíðarinnar. Stýring hátíðar var í höndum Ingibjargar Einarsdóttur góðmóður hátíðarinnar. 

IMG_2426Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Ingibjörg Einarsdóttir og Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson. 

Emil Arthúr, Vilhjálmur og Kristín Vala unnu keppnina í ár

Markmiðið með hátíðinni hefur frá upphafi verið að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og skapa tækifæri fyrir kennara og foreldra að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð. Í ár tóku 18 nemendur þátt og er fjölgun um tvo nemendur milli ára þar sem 7. bekkur í Engidalsskóla bættist við í keppnina í ár. Skólaárið 2021-2022 er það fyrsta frá því að Engidalsskóli varð aftur að sjálfstæðum grunnskóla að nemendur skólans eru upp í 7. bekk. Keppnisandinn var mikill og valið erfitt. Í dómnefndinni 2022 sátu þau Björk Einisdóttir, Hafrún Dóra Júlíusdóttir, Símon Jón Jóhannsson og Þórður Helgason. Hlutskörpust þetta árið þóttu þau Emil Arthúr Júlíusson í Víðistaðaskóla sem endaði í 1. sæti, Vilhjálmur Hauksson í Setbergsskóla í 2. sæti og Kristín Vala Björgvinsdóttir í Engidalsskóla í 3. sæti. Hafnarfjarðarbær sendir sigurvegurunum og þátttakendum öllum innilegar hamingjuóskir með þakklæti fyrir þátttöku og skemmtun.

IMG_2422Þessi skipuðu þrjú efstu sætin. Emil Arthúr Júlíusson í Víðistaðaskóla sem endaði í 1. sæti, Vilhjálmur Hauksson í Setbergsskóla í 2. sæti og Kristín Vala Björgvinsdóttir í Engidalsskóla í 3. sæti. Hé með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.

Verðlaun fyrir slagorð, teikningu og smásögur

Sú hefð hefur skapast á hátíðum fyrri ára að veita fjölbreytt verðlaun og í ár fyrir slagorð, teikningu á boðskorti og smásögur. Höfundur að slagorði fyrir nýju keppnina er Stefán Hrafn Egilsson nemandi í 7. bekk í Víðistaðaskóla en eingöngu 7. bekkingar voru gjaldgengir í samkeppni um slagorð. Nýtt slagorð keppninnar þykir afar lýsandi fyrir andann í keppninni: LESUM SAMAN – ÞAÐ ER GAMAN. Hlaut Stefán Hrafn viðurkenningu fyrir slagorð sitt og Isabella Hrönn Arnardóttir í 6. bekk Áslandsskóla verðlaun fyrir teikningu á boðskort keppninnar. Þá voru veitt verðlaun í smásagnasamkeppni sem ætluð eru nemendum í 8.-10. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar. Fyrsta sætið kom í hlut Inga Árnasonar í 9. bekk í Víðistaðaskóla og annað sætið til Christu Hrannar Davíðsdóttur í 10. bekk í Öldutúnsskóla. Þriðja sætinu deildu með sér tveir nemendur, þær Heiðrún Vala Hilmarsdóttir í 8. bekk í Hraunvallaskóla og Laufey Pálsdóttir nemandi í 10. bekk í Víðistaðaskóla.

Frá Röddum til sveitarfélaga

Stóra upplestrarkeppnin fagnaði 25 ára afmæli árið 2021. Fyrsta upplestrarhátíðin var haldin í Hafnarfirði þann 4. mars 1997 og fljótt bættust fleiri bæjarfélög í hópinn. Síðustu 20 árin hafa allir nemendur í 7. bekk á landsvísu tekið þátt í keppninni og hún orðin ómissandi og mikilvægur hluti af skólastarfinu. Eftir 25 ára farsæla framkvæmd ákváðu Raddir að hætta að halda kppnina á eigin vegum og lögðu til að sveitarfélögin sæju sjálf um hátíðina.

Hafnarfjarðarbær hélt fyrst nú í ár keppnina á eigin vegum en framkvæmdin er um margt lík því sem var hjá Röddum. Ingibjörg Einarsdóttir, guðmóðir keppninnar, fyrrum skrifstofustjóri á skrifstofu mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðarbæjar og formaður Radda var sérstaklega ráðin til að halda utan um keppnina í Hafnarfirði í ár líkt og 25 árin þar á undan. 

Hafnarfjarðarbær þakkar Ingibjörgu, dómnefnd og öllum þeim sem gerðu hátíðina að veruleika þetta árið innilega fyrir þeirra faglega og mikilvæga framlag! 

Ábendingagátt