Útilífsmiðstöð – aukin útivera í námi og leik

Fréttir

Undirbúningur er langt kominn fyrir uppsetningu útilífsmiðstöðvar fyrir neðan skátaheimilið við Víðistaðatún, meðal annars fyrir náttúrufræðitengd verkefni í samstarfi grunnskólanna í Hafnarfirði. Í aðstöðu miðstöðvarinnar eru þegar komin ýmis tól og tæki sem hægt verður að nota bæði við leik og í kennslu

Undirbúningur er langt kominn fyrir uppsetningu útilífsmiðstöðvar fyrir neðan skátaheimilið við Víðistaðatún, meðal annars fyrir náttúrufræðitengd verkefni í samstarfi grunnskólanna í Hafnarfirði. Í aðstöðu miðstöðvarinnar eru þegar komin ýmis tól og tæki sem hægt verður að nota bæði við leik og í kennslu. Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti eina af umsjónaraðilum verkefnisins, Guðrúnu Snorradóttur, sérkennara í Hraunvallaskóla.

GudrunUti2Sýnabox til að setja í allskyns rannsóknarefni úr náttúrunni.
GudrunUti3Vogir.

Guðrún hefur kennt í Hafnarfirði síðan árið 2012 og flutti í bæinn fimm árum síðar. Fyrir tveimur árum fór hún í námsleyfi þar sem hún kynnti sér starfsemi Miðstöðvar útivistar og útináms í m.a. heilsueflandi fræðum í félagsmiðstöðinni Gufunesbæ í Reykjavík. „Þau eru með stóra útilífsstöð í skúr þar sem skíðabrekkan er í Árbænum. Þar er aðstaða með ýmsum gögnum og tækjum sem hægt er að nota m.a. í útikennslu,“ segir Guðrún og nefnir að einnig sé til Félag áhugafólks um útikennslu sem haldi stutt námskeið á vorin og haustin fyrir áhugasama á vegum Miðstöðvar útivistar og útináms. „Þau hafa gefið okkur verkefni og verið svakalega almennileg. Eina sem þarf til að gera þetta að veruleika er pláss fyrir tæki og tól og svo salerni með vask. Það sameinast hér í rúmgóðri aðstöðu sem skátarnir voru svo yndislegir að veita okkur. Þeir eru sérþjálfaðir í útsjónarsemi.“

GudrunUti4Stækkunargler/smásjá.

GudrunUti5Skordýragræja.

Búnar að lista upp fleiri svæði

Verkefnið sé hugsað mjög vítt og í raun fyrir öll skólastig og, þegar horft sé fram í tímann, á fleiri stöðum í bænum. „Það fer eftir aðstæðum og aðstöðu á hverjum stað. Við byrjum hér við Víðistaðatún því þetta er miðsvæðis og samgöngur auðveldar. Við erum samt búin að lista upp svæði sem okkur langar að tengja inn í þetta og hafa þau helst nálægt skólunum, s.s þar sem stutt er í fjöru, tjörn og aðra slíka staði. Það getur verið svo mikið mál fyrir hvern og einn kennara að finna til allt sjálfur og þetta auðveldar allan undirbúning og framkvæmd. Skógræktin er búin að bjóða okkur stað líka, sem er frábært, og næsta útilífskista verður staðsett þar og við erum að skoða með samgöngur til og frá þeim stað,“ segir Guðrún.

GudrunUti6Hér er dæmi um sitthvað sem hægt er grípa með sér í rannsóknarleiðangurinn.

Skordýratangir, sýnabox og smásjárglös

Með Guðrúnu í undirbúningi verkefnisins eru Birna Dís Bjarnadóttir umsjónarkennari í Víðistaðaskóla og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, umsjónarkennari í Hvaleyrarskóla. „Það æxlaðist bara þannig að við bara röðuðumst saman í þetta. Þær eru alveg frábærar og svo er Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi einnig mjög áhugasamur um verkefnið og hvetjandi. Við ætlum að prófa aðstöðuna í mars og apríl og svo verður þetta kynnt almennilega í vor. Stefnt er á að allt verði komið á gott skrið á næsta skólaári.“ Meðal tóla og tækja sem komin séu í aðstöðuna eru skordýratangir, smásjár og smásjárglös, stækkunargler, sýnabox og vasaljós og einnig frisbí-diskar, því að á Víðistaðatúni er alvöru frisbígolfvöllur. „Við erum komin með smá verkefnabanka og það verða m.a. plöstuð blöð með verkefnum og leikjum í aðstöðunni. Verkefnin eru árstíðabundin. Það er t.d. hægt að grafa ofan í moldina og sækja eitthvað til að skoða betur eða nota til útivistar í þessum heilsueflandi bæ. Við vonum að þetta kyndi enn frekar undir útiveru, í námi og leik,“ segir Guðrún.

GudrunUti7Áttavitar og ýmislegt fleira.

GudrunUti8Endurhlaðanleg vasaljós.

Verið er að hanna upplýsingasíðu á vef Hafnarfjarðarbæjar, þar sem skráning mun fara fram og allar upplýsingar gerðar aðgengilegar fyrir notendur. Síðan er lyklahús með aðgangi á staðnum og því verður hægt að halda vel utan um aðgengi og umgengni.

GudrunUti9Folfdiskar, enda er folfvöllur á Víðistaðatúni.

GudrunUti10Sippubönd.

GudrunUti11Boltar.
Viðtal við Guðrúnu birtist í Hafnfirðingi 3. apríl 2021. Myndir/OBÞ 

Ábendingagátt