Vefir leikskóla bæjarins einfaldaðir og samræmdir

Verkefnasögur

Leikskólarnir hafa nú fengið hver sína eigin vefsíðu og öll lógó verið teiknuð upp á nýtt. Allt sem tengist hverju vörumerki er nú aðgengilegt í Hönnunarkerfi Hafnafjarðar.

Leikskólar

Samræmt útlit en sjálfstæðinu fagnað

Næsta skref í hönnun vefja leikskóla Hafnarfjarðar hefur verið stigið. Hver skóli á núna sína eigin lendingarsíðu á vef bæjarins, hafnarfjordur.is. Leikskólarnir í Hafnarfirði eru átján.

„Eftir stafræna byltingu leikskólamála, þar sem við tókum upp Völu, voru allir vefir leikskólanna lagðir niður. En eftir ítarlega þarfagreiningu var ákveðið að stafvæða innra starf leikskólanna og einfalda samskipti leikskóla við íbúa,“ segir Ingvar Högni Ragnarsson, verkefnastjóri stafrænna verkefna hjá Hafnarfjarðarbæ.

Hver skóli með sitt einkenni

Fyrsta skrefið í skýrri upplýsingamiðlun við íbúa var að búa til einfalda og skýra upplýsingasíðu fyrir hvern og einn leikskóla. „Við fórum í allsherjarvinnu við að endurskrifa alla texta fyrir leikskólana. Hver og einn leikskóli leggur þar áherslu á einkenni sitt. Leikskólarnir eru ólíkir og þeir halda sérkennum sínum og kynna þar stefnu sína,“ segir hann.

„Hagnýtar upplýsingar voru svo samræmdar fyrir alla leikskólana. Það auðeldar okkur utanumhald. Með því að fara þessa leið þurfa leikskólarnir ekki sjálfir að halda úti vefjunum sínum heldur geta sinnt sínu faglega starfi. Við aðstoðum svo leikskólana með vefmálin. Þetta hefur reynst mjög vel,“ segir hann.

Á sama tíma og vefirnir voru sameinaðir undir hatti vefjar Hafnarfjarðarbæjar voru öll lógó leikskólanna endurteiknuð og gerð aðgengileg í hönnunarkerfi bæjarins. „Það skiptir máli því í stafrænum heimi helst lógó, texti og myndir aðgengileg í ólíkum tækjum. Þetta er tilbúið og allir leikskólar hafa fengið bréfsefni og annað í hönnunarkerfi,“ segir Ingvar.

Góð samvinna einfaldaði verkið

„Það er mikil ánægja með þetta fyrirkomulag; þá sérstaklega einfaldleikann. Í þessari vinnu var líka farið í að stafvæða samskipti leikskólanna við stofnanir bæjarins. Sú vinna er í gangi og verður svo uppistaðan í kafla þrjú í þessari stafvæðingarvegferð leikskólanna.“

Ingvar segir að öll þessi vinna hafi verið unnin í nánu samstarfi við leikskólana og allur texti með Berglindi Ósk Bergsdóttur, sérfræðingi í textagerð. Lógóin hafi svo verið hönnuð í nánu samstarfi við hvern leikskóla. „Til að svona vinna gangi vel þarf gott samtal að vera til staðar og ég þakka öllu því góða fólki á  leikskólunum sem tók þátt fyrir frábæra samvinnu.“

Ábendingagátt