Vel heppnaður stjórnendadagur

Fréttir

Mannauðsteymi Hafnarfjarðarbæjar stóð nýlega fyrir stjórnendadegi fyrir alla stjórnendur á þeim 73 starfsstöðvum sem heyra undir hatt sveitarfélagsins. Til fundar á Ásvöllum mættu rétt um 120 stjórnendur frá ólíkum starfsstöðvum sveitarfélagsins, hlýddu á fjölbreytt erindi og tóku þátt í vinnu tengda daglegum verkefnum og áskorunum í lífi og starfi stjórnandans.

Mannauðurinn er mikilvægasta auðlindin

Mannauðsteymi Hafnarfjarðarbæjar stóð nýlega fyrir stjórnendadegi fyrir alla stjórnendur á þeim 73 starfsstöðvum sem heyra undir hatt sveitarfélagsins. Til fundar á Ásvöllum mættu rétt um 120 stjórnendur frá ólíkum starfsstöðvum sveitarfélagsins, hlýddu á fjölbreytt erindi og tóku þátt í vinnu tengda daglegum verkefnum og áskorunum í lífi og starfi stjórnandans. Fundarstýring var í höndum Andra Ómarssonar verkefnastjóra menningar- og markaðsmála hjá Hafnarfjarðarbæ.

Heildarstefna, starfsþróun, stjórnendahvatning og heilsuefling

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar setti fundinn með hvetjandi orðum um mikilvægi heildarinnar og framlags hvers og eins ásamt því að ræða sérstaklega heildarstefnu Hafnarfjarðar til ársins 2035 og þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að gerast heilsueflandi vinnustaður. Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri mætti til fundar með stjórnendahvatningu og viðraði m.a. þá hugmynd að taka jákvætt í allar hugmyndir og verkefni án þess að hugsa of mikið út í praktísk atriði strax í upphafi. Slík grunnhugsun geti skilað ótrúlega óvæntum og góðum árangri. Kristín Sigrún Guðmundsdóttir mannauðsstjóri ræddi við hópinn um mikilvægi starfsþróunar og þess að hver og einn starfsmaður efli og styrki sína eiginleika. Hulda Sólveig Jóhannsdóttir verkefnastjóri heilsueflandi vinnustaðar hjá Hafnarfjarðarbæ kynnti framkvæmd og fyrirkomulag verkefnis og ástæður þess að ákveðið var að fara f stað í þetta stóra verkefni. Hver og einn starfsstaður er í eðli sínu ólíkur og mun verkefnastjóri vinna náið með hverjum og einum stað við mótun heilsueflandi lausna og leiða.

Streitustiginn, EKKÓ málin, ráðningar og húmor sem flugbeitt verkfæri

Líney Árnadóttir og Sara Lind Brynjólfsdóttir frá Virk kynntu Streitustigann sem verkfæri til að greina hvort streita og álag sé til staðar á vinnustaðnum. Hrefna Hugosdóttir hjúkrunarfræðingur og starfsmaður Auðnast fræddi hópinn um EKKÓ málin sem taka til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis. Sveinn Waage gerði tilraun til að sannfæra hópinn um að húmor í stjórnun virki í alvöru og sé eitt öflugasta heilsumeðal sem til er og flugbeitt verkfæri til að láta hlutina gerast og virka betur á vinnustaðnum og í lífinu almennt. Lind Einarsdóttir og Sigurður Óli Jónsson mannauðsráðgjafar lögðu svo raunverkefni fyrir hópinn tengd rýni á ferilskrám og ferli ráðningar sem leiðir vonandi til réttrar ákvörðunar um einstakling fyrir starf.

Það var svo enginn annar en bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2021, Friðrik Dór, sem sló botninn í innihaldsríkan stjórnendadag með nokkrum vel völdum lögum. Til stendur að halda árlega stjórnendadag Hafnarfjarðarbæjar ásamt styttri stjórnendafundum þess á milli þar sem málefni og áskoranir líðandi stundar eru rædd og hópurinn hvattur áfram.

Ábendingagátt