Velferðarþjónusta sem miðar að farsælli öldrun

Fréttir

Þjónusta við eldri borgara í Hafnarfirði miðar að farsælli öldrun. Sjöfn Guðmundsdóttir er deildarstjóri stuðnings- og stoðþjónustu á fjölskyldu- og barnamála­ sviði Hafnarfjarðarbæjar.

Þjónusta við eldri borgara í Hafnarfirði miðar að farsælli öldrun. Sjöfn Guðmundsdóttir er deildarstjóri stuðnings- og stoðþjónustu á fjölskyldu- og barnamála­ sviði Hafnarfjarðarbæjar.

Sjöfn nefnir að heilsuefling sé stór þáttur í þjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði. Má þar nefna hreyfingu, gönguhópa, bæði innanhúss og utan, sundleikfimi, Janusarverkefnið og alhliða þjálfun fyrir 65 ára og eldri. „Hafnarfjörður er heilsueflandi samfélag og í gegnum það verkefni er meðal annars boðið upp á áhugaverðar menningargöngur yfir sumarið. Öldungaráð, FEBH, Félag sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbær hleyptu af stokkunum verkefninu Brúkum bekki 2013. Í gegnum þetta verkefni eru komnir á fimmta tug bekkja víðs vegar í bænum á vel merktum göngustígum og fleiri að bætast við,“ segir hún. Tekjutengdir frístundastyrkir standa eldri borgum til boða og eru þeir vel nýttir í margs konar hreyfingu og frístundir.

SjofnGudmundsdottir_1646300602584Sjöfn Guðmundsdóttir hefur starfað lengi að málefnum eldri borgara í Hafnarfirði. FRÉTTABLAÐIÐ/ VALLI

Öldungaráð til ráðgjafar um málefni eldri borgara

Öldungaráð Hafnarfjarðar var með sinn fyrsta fund 2006 og var Hafnarfjörður fyrsta sveitarfélagið til að koma á slíkum samstarfsvettvangi. Öldungaráðið er bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni eldri borgara. Auk þess má nefna að samvinna Hafnarfjarðarbæjar og félags eldri borgara í Hafnarfirði hefur gefið af sér öflugt og fjölbreytt félagsstarf sem stendur öllum 60 ára og eldri til boða. Hafnarfjarðarbær hefur staðið fyrir námskeiðum í snjalltækjum og þann tíma sem ekki var hægt að halda félagsstarfinu opnu vegna heimsfaraldurs var byrjað að hafa spjaldtölvusamtöl fyrir eldri borgara. Lögð var áhersla á að vera í símasambandi við hóp eldri borgara með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun og einmanaleika.

Sólvangur er heildræn þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara

Það má segja að Sólvangur sé orðinn að miðstöð þjónustu við eldri borgara. Sólvangur hýsir nú almenna dagdvöl með 14 rýmum og sérhæfða dagþjálfun með 12 rýmum. Á annarri hæð gamla hússins eru nú 11 hjúkrunarrými til viðbótar við þau 60 rými sem eru í nýja Sólvangi og verið að leggja lokahönd á 39 rými fyrir hvíldarinnlagnir og endurhæfingu. Áður en langt um líður er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir starfsfólk bæði heimaþjónustu og heimahjúkrunar á staðnum sem kemur til með að auðvelda samstarf og samvinnu og efla grunninn að heildrænni þjónustu við eldri borgara. Í september 2020 var verkefnið Heilavinir kynnt fyrir stjórnendum og starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar. Fyrirhugað er að allt starfsfólk sitji námskeiðið og starfsfólk þeirra fyrirtækja í Hafnarfirði sem þess óska. Þannig verður Hafnarfjörður Heilavinabær. 

„Það er ekki nóg að hreyfa sig,“ segir Sjöfn. „Það verður einnig að huga að næringu og eru tvö mötuneyti fyrir eldri borgara í Hafnarfirði ásamt því að boðið er upp á heimsendan mat. Eldri borgarar geta sótt um aðstoð við þrif og að undangengnu mati er samþykkt þjónusta. Starfsfólk veitir fræðslu um þá velferðartækni sem hægt er að nýta þegar færni til heimilisverka minnkar. Þá stendur eldri borgum til boða að sækja um akstursþjónustu í heilsutengdar ferðir til dæmis til að sækja læknaþjónustu. Það er góður starfsandi í starfsmannahópnum og margir hafa starfað hjá okkur í áratugi. Þjónustan er sífellt að aukast og við leggjum okkur fram um að aðlaga okkur þörfum hvers og eins. Við leggjum áherslu á forvarnir og heilsueflingu með aukin lífsgæði í forgrunni,“ segir Sjöfn.

Viðtal við Sjöfn birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 3. mars 2022.

Ábendingagátt