Vellíðan, hollusta og hreyfing

Fréttir

Á heilsuleikskólanum Hamravöllum í Vallahverfi eru fjórar deildir og nemendur allt að 84. Skólinn var stofnaður 2008 en 1. júlí í sumar tók Hafnarfjarðarbær við rekstri hans af Skólum ehf. 

Á heilsuleikskólanum Hamravöllum í Vallahverfi eru fjórar deildir og nemendur allt að 84. Skólinn var stofnaður 2008 en 1. júlí í sumar tók Hafnarfjarðarbær við rekstri hans af Skólum ehf. Við þær breytingar varð laus staða leikskólastjóra og Hildur Arnar Kristjánsdóttir var ráðin 1. ágúst. Hún var þegar öllum hnútum kunnug í skólanum, því til ársins 2018 sinnti hún starfi aðstoðarleikskólastjóra þar. 

Hildur segir í bæjarblaðinu Hafnfirðingi frá metnaðarfullu starfi skólans, þar sem unnið hefur verið út frá Heilsustefnunni sem mótuð var fyrir 15 árum og 23 leikskólar víða um land hafa tekið inn í sína stefnu.

Áhersla á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik

„Markmið með Heilsustefnunni er að auka gleði og vellíðan nemenda með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik til að auka þroska. Ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa,“ segir Hildur þegar hún vitnar í stefnuna sem hún greinilega þekkir vel. Unnur Stefánsdóttir, leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, hafði frumkvæði að mótun heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið með henni var að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik.

HamravellirHFJ1

Kennarinn Heiðar Örn Kristjánsson byrjar allar samverustundir á samsöng. 

Matseðill byggður á tilmælum frá Landlækni

Hildur segir að þau sem ráku Hamravelli áður hafi fengið næringarfræðing til að útbúa matseðil sem endaði svo á að verða matseðilinn sem Hafnarfjarðarbær notar í öllum leikskólum í bænum í dag. „Hann er byggður á tilmælum frá embætti Landlæknis um næringu og mataræði. Við höldum þó í hefðir eins og að bjóða upp á slátur. Við bjóðum hins vegar ekki upp á unnar kjötvörur og matráðurinn hér bakar brauðið og eldar allt frá grunni. Svo erum við með ávaxtastundir og alltaf grænmeti með hádegismatnum.“

HamravellirHFJ2

Skemmtilegar þrautir sem reyna á styrk og jafnvægi. Mynd/aðsend

Íþróttasalur og listaskálar

Á deildum Hamravalla eru m.a. leikrými, leikfangasafn en að auki eru í húsinu tveir listaskálar og íþróttasalur sem búinn er fjölbreyttum tækjum til íþróttaiðkunar með köðlum í loftinu, rimlum á veggjum og mjúku gólfi til að draga úr slysahættu. „Í leikskólanum starfa fagstjórar, annars vegar yfir íþróttum og hins vegar listum. Undir venjulegum kringumstæðum fara börnin í hópum á hverri deild í sérstaka hreyfi- og listatíma í hverri viku. Það hefur ekki alltaf mátt þetta ár vegna Covid, en við erum líka með mjög virka útiverustefnu. Börnin fara út daglega, svo fremur sem veður leyfir. Ef foreldrar óska eftir að barn þeirra sé inni við, þá er oft betra að það sé heima. Við viljum gjarnan geta fylgt eftir þeirri áætlun sem er í gangi hér. Hún hefst við 2ja ára aldur hjá öllum börnunum.“

HamravellirHFj3

Nemandinn Sylvía Rós í skapandi stund. Mynd/aðsend.

Hildur segir aðspurð að börnin elski að fara í listaskála og íþróttir. „Við finnum mun á þeim núna, eftir að þau máttu það eftir nokkurra vikna bann. Við náðum að leyfa eitt hólf í einu. Heiðar Örn Kristjánsson Pollapönkari er kennari hjá okkur og fagstjóri í íþróttum og hann tekur alltaf lagið með krökkunum í upphafi hvers tíma. Svo eru einnig tekin fyrir slökun og ró í lokin. Þau upplifa mjög fjölbreytta íþróttatíma og þeir eru mjög kærkomnir og þá sérstaklega fyrir börn sem eiga erfitt með að sitja kyrr við borð. Þarna blómstra þau og fá útrás fyrir sína hreyfi- og tjáningarþörf.“ Því hafi sannarlega verið töluvert heftandi að hafa takmarkanir á þessum hluta starfsins. „Við tökum eftir því að það er meiri ró inni á deildum þegar börnin hafa fengið að hreyfa sig og fá útrás,“ segir Hildur að lokum.

Mynd af Hildi/OBÞ. Aðrar myndir aðsendar.

Viðtal við Hildi Arnar birtist í Hafnfirðingi 21. desember 2020.  

Ábendingagátt