Verðum sterkara og samræmdara samfélag

Fréttir

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni var sett á samkomubann sem hefur víðtæk áhrif á samfélagið. Í stórum verkefnum sem slíkum reynir á neyðarstjórnir sveitarfélaganna sem starfa út frá áætlun sem unnin er í samræmi við stigskiptingu og tilmæli almannavarna. Neyðarstjórn Hafnarfjarðar fundar um þessar mundir daglega og er skipuð sviðsstjórum og lykilstjórnendum bæjarfélagsins.

Í fyrsta sinn í Íslandssögunni var sett á samkomubann á miðnætti sl. sunnudag, í 4 vikur, sem hefur víðtæk áhrif á samfélagið. Í stórum verkefnum sem slíkum reynir á neyðarstjórnir sveitarfélaganna sem starfa út frá áætlun sem unnin er í samræmi við stigskiptingu og tilmæli almannavarna. Neyðarstjórn Hafnarfjarðar fundar um þessar mundir daglega og er skipuð sviðsstjórum og lykilstjórnendum bæjarfélagsins. Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.

„Neyðarstjórn er ætlað að samræma upplýsingar og boðleiðir innan sveitarfélagsins þegar neyðarástand skapast, virkja viðbragðsáætlanir, forgangsraða verkefnum, tryggja almannaheill og lágmarka mögulegt tjón,“ segir Rósa. Farið sé yfir stöðuna, hvernig hlutirnir eru að ganga, hvar þarf að bæta og laga og teknar eru ákvarðanir með heill og hag einstaklinganna og samfélagsins í huga. „Mest reynir þó á það frábæra starfsfólk sem starfar hjá bæjarfélaginu. Mér er efst í huga mikið þakklæti til þeirra allra, ekki síst þeirra sem að undanförnu hafa lagt nótt við dag við að tryggja velferð viðkvæmustu einstaklinganna í samfélaginu, sem og í skólakerfinu, enda er mikil áskorun þar að láta hlutina ganga upp hjá þúsundum skólabarna í takti við þau fyrirmæli sem heilbrigðisyfirvöld og almannavarnir hafa gefið.“

Allir að gera sitt besta

Spurð um hvernig sé að vera bæjarstjóri á svona tímum segir Rósa þá sannarlega vera óvenjulega og tekist sé á við mörg krefjandi verkefni. „Vissulega er í mörg horn að líta hjá bæjarstjóra eins og flestum öðrum. Viðfangsefnið er að gæta að lífi, heilsu og velferð okkar allra á sama tíma og reynt er að tryggja lögbundna þjónustu sveitarfélagsins eins og hægt er í þessum aðstæðum. Mikilvægt er að við höldum ró okkar, snúum bökum saman, verum jákvæð og vongóð og höfum skynsemina að leiðarljósi. Sýnum umhyggju, nærgætni og umburðarlyndi gagnvart því sem sagt er eða ósagt er. Það eru allir að gera sitt besta og miklu meira en það. Mér finnst það skína sterkt í gegn í öllum viðbrögðum fólks í okkar öfluga samfélagi hér í Hafnarfirði.“

Frelsið ekki sjálfgefið og undirstaða lífsgæða

Víða hafa komið fram skoðanir fólks á því að tímar eins og þessir komi til með að breyta hugarfari og venjum fólks. Aðspurð tekur Rósa undir það og segist strax sjá það í sínu nánasta umhverfi. „Þetta minnir okkur meira en nokkru sinni á hve heilsan er dýrmæt og hvað við höfum það gott á Íslandi. Frelsið sem við búum við hér er ekki sjálfgefið, en það er undirstaða þeirra lífsgæða sem við höfum sem þjóð. Þetta á unga fólkið okkar, sem þekkir ekkert annað en að geta gengið að hlutunum sem sjálfsögðum, eftir að finna beint á eigin skinni. Finna hve mikilvægt er að allir þættir samfélagsins virki, enda eru þeir undirstaða þeirra velferðar og nútímalífs sem við þekkjum og viljum.“ Jafnframt upplifi þjóðin mikla samkennd og hjálpsemi sem komi fram í ýmsum myndum. „Mér er ofarlega í huga eldra fólk sem erfitt er að geta ekki heimsótt og að vita af því kannski einmana í þessum aðstæðum. Innan Hafnarfjarðarbæjar er verið að reyna að finna leiðir til að koma til móts við þá einstaklinga. Einnig er ljóst að heilmikil reynsla mun koma út úr notkun tækninnar, til dæmis hvað fjarfundi og fjarkennslu varðar. Við munum nota slíkt í mun meira mæli eftir þetta tímabil. Það hefur mikil umhverfisleg og hagræn áhrif í þjóðfélaginu.“

Vill sjá umtalsverða lækkun tryggingargjalds

Spurð hvernig hún sjái fyrir sér samfélagið í Hafnarfirði rísa á ný eftir þetta tímabil, trúir Rósa að því muni fylgja mikið lærdómsferli. „Nú er verkefnið að hlíta fyrirmælum yfirvalda og ber hver og einn ábyrgð í þeim efnum. Efnahagsleg áhrif verða mikil en greining á mögulegum fjárhagslegum áhrifum er hafin á vettvangi sveitarfélaga og ríkisins. Ég hef talað fyrir því og nú sem aldrei fyrr að umtalsverð lækkun tryggingargjalds er eitthvað sem myndi nýtast sveitarfélögunum vel eins og öllum öðrum vinnuveitendum.“ Þótt tekjur dragist saman sé gríðarlega mikilvægt að opinberir aðilar geri allt hvað hægt er til að halda framkvæmdum og slíku áfram. „Við verðum að leggja okkar af mörkum til að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Það er mikil óvissa ríkjandi en þótt við séum að ganga í gegnum dal þá vonum við að hann verði ekki ýkja djúpur né langvinnur. En óttumst ekki – og vorið er handan við hornið. Njótum samskipta við okkar nánustu, gerum skemmtilega hluti saman, lesum, eldum hollan mat, spilum, prjónum, ræktum, hugleiðum, njótum útiveru og hreyfum okkur. Saman komumst við út úr þessu sterkari og samrýmdari en nokkru sinni.“

Viðtal við Rósu birtist í Hafnfirðingi 19. mars 2020

Ábendingagátt