Sameiginleg bakvarðasveit velferðarþjónustu

Fréttir

Í ljósi atburða síðustu daga og vikna er varðar heimsfaraldur Covid-19 og með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum frá landlækni gæti útbreiðsla veirunnar orðið til þess að valda erfiðleikum í veitingu þjónustu og skapað skyndilegt álag á vissum svæðum. Mikilvægt er að allir aðilar sem hafi með höndum þjónustu og ráðgjöf við einstaklinga séu með áætlun um aðgerðir til að lágmarka smit á milli fólks en einnig til þess að lágmarka rof í þjónustu og þá sérstaklega þjónustu við viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Verkefni til að draga úr þjónusturofi við viðkvæma hópa vegna Covid-19

Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn málefna margra viðkvæmustu hópa samfélagsins og má þar helst nefna málefni fatlaðs fólks og málefni aldraðra en einnig mál er varða barnavernd. Félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir félagsmálaráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu. Verkefni félagsþjónustunnar eru meðal annars almenn félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, húsnæðismál, málefni aldraðra, félagsleg heimaþjónusta, málefni fatlaðs fólks og málefni barna og ungmenna, þar með talin vinnsla samkvæmt barnaverndarlögum. Einnig eru félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem hafa með höndum þjónustu og ráðgjöf við einstaklinga sem tilheyra ofangreindum hópum.

Í ljósi atburða síðustu daga og vikna er varðar heimsfaraldur Covid-19 og með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum frá landlækni gæti útbreiðsla veirunnar orðið til þess að valda erfiðleikum í veitingu þjónustu og skapað skyndilegt álag á vissum svæðum. Mikilvægt er að allir aðilar sem hafi með höndum þjónustu og ráðgjöf við einstaklinga séu með áætlun um aðgerðir til að lágmarka smit á milli fólks en einnig til þess að lágmarka rof í þjónustu og þá sérstaklega þjónustu við viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Sameiginlegt viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa

Í ljósi ofangreinds hafa félags- og barnamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, stofnað viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa í samvinnu við Almannavarnir. Viðbragðsteymið er skipað fulltrúum fyrrgreindra aðila ásamt fulltrúum sveitarfélaga og gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar og mun teymið starfa í náinni samvinnu við aðila sem sinna hagsmunagæslu og/eða þjónustu við viðkvæma hópa. Teymið hefur það hlutverk að safna og miðla upplýsingum, meta stöðu sem upp getur komið og eftir atvikum bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu, m.a. ef upp kemur sú staða að ekki sé hægt að veita lágmarksþjónustu til tiltekinna hópa eða einstaklinga til skemmri eða lengri tíma. Markmiðið er að tryggja eins og frekast er unnt nauðsynlega þjónustu fyrir þá sem mest þurfa á henni að halda.

Ríki og sveitarfélög hafa þá samhliða þessum aðgerðum ákveðið að settur verði upp viðbragðssjóður sem muni, ef þörf sé á, veita svigrúm til nauðsynlegra aðgerða vegna áhrifa Covid-19 faraldursins í félagsþjónustu sem og í sértækari þjónustu við viðkvæma hópa.

Bakvarðasveit velferðarþjónustu

Fyrirsjáanlegt er að þjónustuaðilar er sinna mikilvægri þjónustu við viðkvæma hópa muni á næstunni þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna COVID–19 veirunnar. Sökum þess hafa aðilar að þessari yfirlýsingu ákveðið að farið verði að fordæmi heilbrigðisyfirvalda sem nýlega komu á fót bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu og setja upp svokallaða bakvarðasveit í velferðarþjónustu þar sem einstaklingar geta skráð sig á lista hafi þeir tök á að ráða sig tímabundið, hvort sem er í fullt starf eða tímavinnu. Óskað er eftir fólki sem getur starfað í þjónustu við fatlað fólk, aldraða, heimilislausa, börn með sértækar stuðningsþarfir, barnavernd og fjárhagsaðstoð. Reynsla af störfum í velferðarþjónustu er kostur en ekki skilyrði. Hæfniskröfur taka mið af viðkomandi starfi.

Um skráningu í bakvarðasveit velferðarþjónustu

Félagsmálaráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Fólki gefst kostur á að skrá sig í tímavinnu, hlutastarf eða fullt starf allt eftir því hvað hentar viðkomandi. Laun taka mið af kjarasamningi/stofnanasamningi viðkomandi stéttarfélags á þeirri starfstöð sem um ræðir hverju sinni.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag ráðninga

  • Tímabil: Leitað er að fólki sem getur skuldbundið sig í allt að tvo mánuði.
  • Laun: Laun taka mið af kjarasamningum viðeigandi stéttarfélags og þess sveitarfélags eða stofnunar sem um ræðir hverju sinni.
  • Hver eru réttindi þeirra sem ráða sig til starfa: Orlofsréttindi verða greidd jafnóðum. Veikindaréttur starfsfólks sem ráðið er í tímavinnu eða skemur en tvo mánuði er í samræmi við ákvæði viðeigandi kjarasamninga.
  • Hvar skráir fólk sig í bakvarðasveitina: Skráning í bakvarðasveit
  • Hvernig verður staðið að ráðningum: Þau sveitarfélög sem óska eftir að ráða starfsfólk úr bakvarðarsveit velferðarþjónustunnar nálgast upplýsingar um liðsauka hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Stofnanir félagsmálaráðuneytisins geta nálgast sömu upplýsingar hjá ráðuneytinu. Stofnanir munu sjálfar hafa samband við bakverði og ráðningarsambandið verður á milli einstaklingsins og viðeigandi stofnunar eða sveitarfélags eftir því sem við á hverju sinni.
Ábendingagátt