Vettvangur sérsniðinn fyrir börn og ungmenni

Fréttir

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan 2024 er að hefjast. Foreldrar, forsjáraðilar, systkini og önnur áhugasöm eru hvött til að kynna sér starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í Hafnarfirði og hvetja börn sín og ungmenni til virkrar þátttöku. Vikan stendur yfir dagana 14. – 18. október og munu fjölmargar félagsmiðstöðvar standa fyrir opnu húsi, vöfflukaffi og bjóða í heimsókn.

Komdu í heimsókn í félagsmiðstöðina í þínu hverfi

Félagsmiðstöðva- og ungmennahúsavikan 2024 er að hefjast. Foreldrar, forsjáraðilar, systkini og önnur áhugasöm eru hvött til að kynna sér starfsemi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa í Hafnarfirði og hvetja börn sín og ungmenni til virkrar þátttöku. Vikan stendur yfir dagana 14. – 18. október og munu fjölmargar félagsmiðstöðvar standa fyrir opnu húsi, vöfflukaffi og bjóða í heimsókn.

Þátttaka í skipulögðu frístundastarfi er mikilvæg forvörn

Vikan hefur það að markmiði að kynna og varpa ljósi á það mikilvæga starf sem fram fer í félagsmiðstöðvunum og ungmennahúsum fyrir börn og ungmenni. Það er sýnt og sannað að þátttaka í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi skiptir miklu máli fyrir framtíð barna og ungmenna og hefur verið talin ein af stærri verndandi þáttum í þeirra lífi. Þau börn og ungmenni sem taka þátt í skipulögðu starfi eru ólíklegri en önnur börn til að nota áfengi, tóbak og vímuefni. Það skiptir ekki máli hvort um ræðir íþróttir, dans, tónlist, skátastarf eða félagsmiðstöðvastarf. Bara virk þátttaka í skipulögðu frístundastarfi. Hafnarfjarðarbær er stoltur af því öfluga starfi sem á sér stað í félagsmiðstöðvum og ungmennahúsum bæjarins.

Félagsmiðstöðvar í öllum hverfum við alla grunnskóla

Félagsmiðstöð er starfrækt í öllum hverfum við alla níu grunnskóla sveitarfélagsins. HHH – Hinsegin hittingar í Hafnarfirði er nýjasta viðbótin og eru opnanir alla fimmtudaga í félagsmiðstöðinni við Víðistaðaskóla. Frístundaklúbbarnir Kletturinn og Vinaskjól í Húsinu Suðurgötu 14 bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn og ungmenni með fötlun. Hlutverk félagsmiðstöðvanna er að bjóða börnum og ungmennum á aldrinum 10-16 ára upp á frístundastarf með jafnöldrum í öruggu umhverfi sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Áhersla er lögð á virkra þátttöku og framkvæmdir í starfinu. Félagsmiðstöðvastarfið er fjölbreytt og er dagskrá unnin með ungmennum sjálfum. Félagsmiðstöðvarnar standa einnig fyrir stærri viðburðum eins og grunnskólahátíð, söngvakeppni, skólaskate, Hafnarfjarðarstíl og spurningarkeppninni Veistu svarið svo eitthvað sé nefnt. Einnig taka þær þátt í stærri viðburðum á landsvísu eins og Söngvakeppni Samfés, Samfestingnum og Rímnaflæði.

Hvatning til að finna ástund og áhugamál við hæfi

Starfsfólk félagsmiðstöðvanna reynir að hvetja börn og ungmenni að hlusta eftir, finna og efla styrkleika sína og áhugasvið enda meiri líkur á því að einstaklingurinn blómstri þegar hann finnur ástund og áhugamál við hæfi. Eitt af því sem félagsmiðstöðvar leggja mikinn metnað í er þátttaka unga fólksins og eru þau höfð, eftir fremsta megni, með í ráðum og hvött til lýðræðislegrar þátttöku. Vikan er árleg og haldin á öllu landinu fyrir tilstilli Samfés, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, á Íslandi.

Kynnið ykkur starf félagsmiðstöðvanna

Ábendingagátt