Við eigum að ná til allra barna

Fréttir

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, hefur fjölbreytt og gefandi verkefni á sinni könnu. Hann hefur starfað að æskulýðsmálum í bænum síðan 1988 og þekkir þau ekki bara manna best, heldur skín einlægur áhugi hans á velferð barna og unglinga í öllu sem hann sinnir í starfinu.

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, hefur fjölbreytt og gefandi verkefni á sinni könnu. Hann hefur starfað að æskulýðsmálum í bænum síðan 1988 og þekkir þau ekki bara manna best, heldur skín einlægur áhugi hans á velferð barna og unglinga í öllu sem hann sinnir í starfinu. Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Geir.

Starfssvið Geirs spannar heildarforvarnir bæjarins, Heilsubæinn Hafnarfjörð, íþrótta-, æskulýðs og tómstundamálin. Hann segir að núverandi fyrirkomulag markist og ráðist af samlegðaráhrifum s.s. að gott íþróttastarf sé um leið gott forvarnastarf. „Stjórnkerfislega liggja þessi verkefni hjá mér en svo er ég með nefndir og ráð sem eru mitt pólitíska bakland. Íþrótta- og tómstundanefnd tekur ákvarðanir tengdar því, svo er stýrihópur varðandi heilsuverkefnið og bæjarráð varðandi uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja. Markmiðið í sjálfu sér er alltaf að búa til góða umgjörð og leiðarljós fyrir krakkana okkar, til að þau hafi gott aðgengi að tómstundastarfi, sama hvort það heitir tónlistarskóli, skátar eða íþróttir,“ segir Geir.

Erlend börn upplifi íslenskan veruleika

Undanfarin ár hefur Hafnarfjarðarbær breikkað afslátta-/tómstundastyrkjakerfið og hækkað aldur þátttakenda í átján ár. Geir segir það hafa gefið góða raun og eina sem óskað hefur verið eftir og ekki verið hægt að bæta við enn sem komið er, er tungumálakennsla fyrir nýbúa. „Það er ekki tómstund og því ekki í okkar umsjá. Hins vegar er margt annað í boði og hreyfing er ekki lykilatriði.“ Verið sé að reyna að ná til barna af erlendu bergi brotnu. Þau komi mörg frá löndum þar sem misjöfn áhersla er lögð á íþróttir og tómstundir samhliða skóla. „Það geta verið fjárhagslegar ástæður, tengslanet eða erfitt að komast milli staða. Við viljum finna leiðir til að leyfa þeim að prófa námskeið án endurgjalds í kannski hálft ár. Til þess að þau snerti íslenskan raunveruleika og læri betur á samfélagið. Þetta má ekki vera dýrt og óaðgengilegt og eins og staðan er í dag þá er fernt sem hægt er að iðka án kostnaðar, því 4500 króna styrkurinn nægir. Það eru skátar, golf, borðtennis og badminton.“

Rafíþróttir mikilvægar
Geir tekur fram að framlag Hafnarfjarðarbær sé jákvætt og hvetjandi, reynt sé að samræma aðgerðir og ýta undir einstaklingsframtakið á sem víðtækustu sviði til að auka fjölbreytni og virkja samfélagið til aðgerða. Þannig stýrist framboð verkefna af áhuga og krafti. „Það er mikið og öflugt starf í gangi innan Hafnarfjarðar. Við erum t.a.m. með Ungmennahúsið Hamarinn og viljum hafa þar rafíþróttasvæði fyrir þá sem eru finna sig ekki í öðrum tómstundum. Við eigum að ná til allra, ekki bara afreksfólksins. Tölvuleikir sem stundaðir voru heima í einrúmi voru þannig dregnir upp á yfirborðið og viðurkenndir sem rafíþróttir og eru orðnar hluti af íþróttasamfélaginu. Það er svo mikilvægt að koma þessum félagslegu áhrifum í starfið. Rafíþróttafélögin sinna mjög góðu starfi og búa til íþróttaliðsheild sem þessir krakkar verða hluti af.“

Rafithrottir2

Frábær kynslóð af ungu fólki

Eftir að hafa lifað og hrærst í félagsmálum síðan 1988 og haft þannig ágætan samanburð segir Geir að ungmenni í dag lifi heilsusamlegra lífi en t.d. fyrir 20 árum. „Það hafa alltaf verið vandamál tengd kvíða og geðheilsu en bara ekki eins mikið á yfirborðinu og nú. Í dag taka börn þátt í svo mörgu og nota síður fíkniefni. Það er að vaxa upp frábær kynslóð af ungu fólki. Þótt PISA könnun segi sitthvað um lestur og lesskilning, þá er svo margt annað sem skiptir líka máli og við höfum helst áhyggjur af félagslega þættinum. Við viljum ná til þessara 4-5% sem virðast hafa það alls ekki nógu gott og virkja þau í æskulýðs- og tómstundastarf. Það hafa allir gott af samskiptum og hreyfingu.“

Ungmennahus3

Forvarnir byrja hjá fjölskyldunni

Geir vill að lokum taka sérstaklega fram að ástand miðbæjarhópa hafi verið mjög gott í vetur. „Það er einn mælikvarði á að æskulýðsstarfið sé að skila raunverulegum árangri. Hópamyndun var mest við Fjörð og svo bólur hér og þar um bæinn. Einn af hápunktunum í mínu starfi er að sjá þennan árangur. Foreldrarölt út frá hverjum skóla styrkja líka böndin og skila mikilvægu hlutverki. Þegar foreldrar hugsa vel um nærumhverfið og börnin sín og næra þau af athygli og alúð með virkum samskiptum, þá er grunnurinn góður. Það er svo sveitarfélagsins að tryggja fjölskylduvænt umhverfi sem hefur einnig jákvæð áhrif á lífsstíl barna og unglinga,“ segir Geir að lokum. 

Ábendingagátt