Við erum þorpið: Allir skipta máli!

Fréttir

Vel var mætt á þriðja viðburðinn í fundaröðinni, „Við erum þorpið“, í Bæjarbíó í liðinni viku þar sem Pálmar Ragnarsson, kraftmikill fyrirlesari og körfuboltaþjálfari, fræddi þátttakendur um mátt jákvæðninnar og hvernig við öll getum haft áhrif á menninguna og andann í þorpinu okkar.

Þorpsandinn – jákvæð samskipti eru val

Pálmar Ragnarsson, kraftmikill fyrirlesari og körfuboltaþjálfari, fræddi þátttakendur í liðinni viku um mátt jákvæðninnar og hvernig við öll getum haft áhrif á menninguna og andann í þorpinu okkar. „Jákvæðni er val og ákvörðun og til þess fallin að hafa smitandi áhrif á allt og alla.“

Við erum öll jafn mikilvæg og þess verðug að líða vel

„Það er mikilvægt að barnið finni að það skipti máli, hvort sem það er heima fyrir, í skólanum eða í tómstundum. Þannig stuðlum við að því að börnin okkar fái jöfn tækifæri til að blómstra og líða vel.“ Pálmar hefur sjálfur séð miklar framfarir hjá þeim börnum og ungmennum sem hann hefur þjálfað, hvað það skiptir miklu máli að barninu líði eins og það sem það hefur fram á að færa sé gagnlegt.

Pálmi telur mikilvægt að heilsa alltaf öllum og taka vel á móti fólki. Hann leggur fram áskorun til íbúa; „Þegar þú gengur inn í aðstæður með hóp af fólki, til dæmis á vinnustaðnum, ekki aðeins heilsa þessum sömu fjórum. Athugaðu hvort þú getir hafið samtal við einhvern sem þú hefur ekki spjallað við áður, þannig skapast ný tengsl og jákvæðara andrúmsloft. Þetta getur einnig átt vel við í foreldrahópum barna, þegar foreldrarnir þekkjast er auðveldara að vera samstíga í uppeldinu og byggja sterkt öryggisnet fyrir börnin.“

„Tökum vel á móti fólki, leyfum þeim að finna að við séum að hlusta og að það sem þau hafa að segja sé mikilvægt. Þeir aðilar sem er ekki hlustað nægilega vel á, geta átt það til að velja frekar að draga sig til hlés í samræðum. Þar sem þau missa trúnna á því að það sem þau hafa að leggja til máls sé einhvers virði að miðla áfram. Pössum uppá þessa aðila í samræðum við aðra, með því að vera vakandi fyrir þessum aðstæðum og leyfa þeim sem heyrist minna í að láta rödd sína og skoðun berast til hópsins. Með góðum samskiptum getum við náð því besta út úr fólkinu í kringum okkur – fjölskyldu, vinum og vinnufélögum.“

Einlæg hrós gefa hvatingu og aukið sjálfstraust

„Það skiptir sköpum að gefa og fá hrós. Sérstaklega þegar þau eru einlæg og við réttar aðstæður. Það snýst aðeins um breytt hugarfar og þora að hrósa fyrir það sem vel er gert. Það fær börnum til að líða eins og þau séu að gera gagn og gefur þeim hvatningu og aukið sjálfstraust til að halda áfram og standa sig betur í hverju sem þau taka sér fyrir hendur.“  Pálmar leggur sjálfur mikla áherslu á að hrósa fólki og vill með framkomu sinni og fyrirlestrum kveikja neista og smita áhuga á jákvæðum samskiptum.

„Sem dæmi, ef það eru 50 börn komin saman og fjögur þeirra eru með truflandi hegðun að einhverju tagi, þá er gott að hrósa frekar þeim 46 sem eru ekki að trufla, fyrir að vera dugleg að hlusta. Þá finnur meirihlutinn fyrir stolti og á sama tíma þá nær það athygli þeirra fjögurra sem voru að trufla, þau snúa sér við, og hlusta.“ Þetta er spurning um jákvæðan aga, án reiði eða án þess að þurfa að hækka róminn.“

Hver er besta afleiðingin?

„Börn sem eiga erfitt með hegðun, líður oft betur með skýran ramma, þó alltaf með smá sveigjanleika, að þau viti hvað er ætlast til af þeim. Sérstaklega að foreldrar og forráðamenn fylgi því eftir og standi við það sem er sagt, þar sem afleiðing fylgir hegðun.“ Þar koma samskiptin sterk inn, að við séum að spjalla saman og útskýra fyrir börnunum, af hverju það er afleiðing við hegðuninni og hver hún er.“

„Hver er besta afleiðingin? Það er það minnsta sem virkar. Ef barnið heldur áfram að trufla aðra leikmenn, láta það þá setjast á bekkinn í tvær mínútur, oft þarf ekki meira en það til að barnið sjái hvað það gerði og það kemur aftur inn á völlinn tilbúið að spila með hópnum.“

„Það er sniðugt ráð að gefa börnum alltaf tvo valmöguleika, sem dæmi; viltu gera heimavinnuna þína fyrst og svo spila tölvuleik, eða viltu sleppa báðu? Þá er gott að stíga til hliðar og gefa þeim smá umhugsunartíma, koma svo aftur í samtalið og spyrja barnið hvorn valkostinn það velur. Í þessum aðstæðum er einnig mikilvægt fyrir foreldrana að vera samstíga, vera með sömu svörin og vera ákveðin. Sem dæmi um ákveðin svör; nei, það er ekki hægt eða já, það er hægt. Ef við segjum; leyfðu mér að hugsa málið eða kannski, taka börn því oft sem já.“

„Það skiptir einnig máli að vera með umbunarkerfi. Þar sem barnið sér það sem jákvæðan hlut að hlusta og hegða sér vel. Það er einnig á foreldrum að sýna barninu hvernig það á að taka vel á móti öðru fólki og kveikja áhuga barnsins á þeim verkefnum sem það stendur frammi fyrir. Fyrst er það að kveikja áhuga, svo hvetja þau áfram og eftir það tæklum við verkefnið saman.“

Hvetur foreldra til að spila tölvuleiki

„Þegar það kemur að tölvunotkun barna, er sterkur leikur foreldra að sýna tölvuleiknum áhuga, skilja leikinn og hvað hann gengur út á, jafnvel prufa að spila hann. Af hverju finnst barninu skemmtilegt að spila leikinn? Þannig geta foreldrar átt auðveldara með að setja mörk, ef þau vita hvernig leikurinn virkar, hvað hann tekur langan tíma o.s.frv.“

Við höfum öll áhrif!

Þátttakendur gengu út með bros á vör, hagnýt ráð og ný tól í farteskinu um mikilvægi góðra og heilbrigðra samskipta og áhrif þeirra á vellíðan og sjálfsöryggi hjá hverjum og einum. „Við höfum öll áhrif á fólkið í kringum okkur – jákvæð eða neikvæð. Virkjum og veljum jákvæðu samskiptin.“

Þessi fundur var hluti af fundaröð Hafnarfjarðarbæjar og heilsubæjarins Hafnarfjarðar um málefni barna og ungmenna, líðan þeirra og öryggi. Fundaröðin er hluti af vegferð Hafnarfjarðarbæjar að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi.

Saman erum við þorpið – vertu með!

Ábendingagátt