Við kynnum til sögunnar….

Fréttir

Við kynnum til sögunnar liðið sem tekur þátt fyrir hönd Hafnarfjarðar í spurningaþættinum Útsvari nú í vetur. Lið ársins þykir spanna ansi vítt áhugasvið, búa að dýrmætri reynslu og ríkri þekkingu á fjölbreyttu sviði.

 

Við kynnum til sögunnar liðið sem tekur þátt fyrir hönd Hafnarfjarðar í spurningaþættinum Útsvari nú í vetur.  Í ár var ákveðið að leita til íbúa eftir tilnefningum og skilaði sú leit tveimur nýjum og spennandi einstaklingum í liðið. Ákveðið var að halda eftir einum reynslubolta frá fyrra ári.  Lið ársins þykir spanna ansi vítt áhugasvið, búa að dýrmætri reynslu og ríkri þekkingu á fjölbreyttu sviði.  Síðustu tvö árin voru það þau Karl Guðmundsson, Guðlaug Kristjánsdóttir og Kristbjörn Gunnarsson sem tóku þátt fyrir hönd bæjarins og skiluðu Hafnarfirði  í átta liða úrslit í bæði skiptin.  Við þökkum þeim fyrir mikinn metnað og frábæra frammistöðu í keppninni!

Kynning á persónum og leikendum í Útsvarinu 2016-2017

 

Tómas Geir Howser Harðarson

Tómas Geir Howser Harðarson er 22 ára, borinn og barnfæddur Hafnfirðingur. Tómas býr með mömmu sinni, Deliu Howser í Hafnarfirði ásamt 6 Labrador hundum og tveimur köttum. Kærastan, Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir, er líka Hafnfirðingur. Tómas er með stúdentspróf af Leiklistarbraut í Fjölbraut í Garðabæ og stundar nú námi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Með skóla vinnur Tómas á Klausturbar í miðbæ Reykjavíkur en hefur áður unnið í Smárabíói, Hvalstöðinni og sem öryggisvörður. Tómas er nýkominn úr sex mánaða heimsreisu sem var það magnaðasta sem hann hefur nokkurn tímann gert og mun sú þekking sem hann aflaði sér þar án efa koma sér vel í Útsvari. Helstu áhugamál eru kvikmyndir, leiklist og gríðarlegur áhugi á þekkingu yfir höfuð. Tómas Geir hefur búið í Hafnarfirði alla sína ævi, þykir gríðarlega vænt um bæinn sinn og einstaka smábæjarstemninguna sem þar ríkir.

Sólveig Ólafsdóttir

Sólveig Ólafsdóttir sá ljósið og flutti í Hafnarfjörð fyrir þremur árum.  Hún býr efst í Setberginu með eiginmanni, syni og stundum dóttur og tengdasyni – og fær gæsahúð í hvert sinn sem sól sest í sæ og Snæfellsjökullinn logar í stofuglugganum.  Sólveig er með BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands, og fór í framhaldsnám í Bostonháskóla þar sem hún nam blaðamennsku og alþjóðastjórnmál. Hún hóf feril sinn í fréttamennsku á Alþýðublaðinu, vann bæði á Sjónvarpinu og Stöð 2 með viðkomu á Tímanum og DV, og stýrði síðast þætti um alþjóðleg málefni þegar sjónvarpsstöðin Hringbraut hóf göngu sína.  Hún starfaði við upplýsingadeild EFTA í Brussel, og  sem upplýsingafulltrúi fyrir Alþjóða Rauða krossinn í höfuðstöðvum samtakanna í Genf og víða um Asíu og Afríku um átta ára skeið.  Eftir störf í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Sri Lanka og jarðskjálfta í Pakistan árið 2005 venti hún sínu kvæði í kross og sneri aftur heim þar sem hún tók við starfi samskiptastjóra hjá Rauða krossinum á Íslandi.  Eftir átta ár hjá RKÍ í Efstaleitinu færði hún sig yfir í Ráðhúsið þar sem hún vinnur við viðburðastjórn og ræðuskrif á skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík.  Sólveig er formaður Arnfirðingafélagsins, og er að byggja gamlan sumarbústað á æskuslóðum í Selárdal með systur sinni og fjölskyldu.  Hún er sveitastelpa í grunninn og nýtur þess að slappa af í sumarhúsi tengdafjölskyldunnar í Þjórsárdal.  Hún hóf feril sinn í magadansi í Harare í Zimbabwe þar sem hún kom fram á ýmsum næturklúbbum og viðburðum, en hefur látið sér nægja að dansa í Kramhúsinu síðustu ár með góðra kvenna hópi.

Guðlaug Kristjánsdóttir

Guðlaug Kristjánsdóttir er Hafnfirðingur í húð og hár og býr í miðbænum með þremur sonum, einni kisu og tveimur hænum. Hún lærði sjúkraþjálfun við HÍ og starfaði sem slíkur í um 10 ár. Þar áður lærði hún spænsku við sama skóla og tók jafnframt próf frá Leiðsöguskóla Íslands á spænsku og sænsku. Hún æfði ballett, var lengi í tónlistarskóla og lék á klarinett en syngur nú í kór. Hún var virk í Stéttarfélagi sjúkraþjálfara og var formaður BHM, heildarsamtaka háskólamenntaðra á vinnumarkaði frá 2008-14. Hún tók þátt í stofnun Bjartrar framtíðar, bæði á landsvísu og í Hafnarfirði og er í dag forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og formaður fjölskylduráðs bæjarins. Hún er jafnframt í hálfu starfi sem verkefnisstjóri klínískrar kennslu við Námsbraut í sjúkraþjálfun í HÍ.  Meðal áhugamála er garðrækt, útivist og allskonar hreyfing sem hún nennir samt sjaldnast að stunda. Guðlaug er lestrarhestur og handavinnukona og er undantekningarlaust með mörg verkefni af hvorri sort í gangi í einu, jafnt bækur sem prjón, les og hekl.

Spurningaþátturinn Útsvarið hefst á RÚV nú í september. Verum dugleg að fylgjast með og hvetja okkar fólk áfram!

Ábendingagátt