Sunnudaginn 31. ágúst kl. 13–15 bjóðum við gestum að taka þátt í rafhljóðasmiðjunni Électro-Bricolage Ensemble undir leiðsögn kanadísku listakonunnar Dörshu Hewitt, sem er ein af þátttakendunum í haustsýningu Hafnarborgar Algjörum skvísum.

Markmið smiðjunnar er að opna gátt inn í heim raftækni, þar sem þátttakendur kynnast grunnatriðum slíkrar tækni með einföldum tilraunum og smíði. Þá munum við skoða rásateikningar, læra að þekkja hvað er hvað og smíða einfalt tæki sem býr til hljóð – sem gerir til dæmis raftónlist mögulega. Í sameiningu prófum við okkur svo áfram með hljóð og vinnum með samsett rafhljóðfæri til að framkalla óvænt takt- og hljóðmynstur.

Smiðjan er sérstaklega ætluð byrjendum og engin fyrri reynsla af raftækni er nauðsynleg. Hún er opin öllum sem hafa áhuga á að læra hvernig hlutir virka eða finnst gaman að smíða með höndunum. Öll efni verða í boði og hver þátttakandi fær sitt eigið raftæknisett til að nota í smiðjunni. Smiðjan verður jafnt aðgengileg á ensku og íslensku og fellur þannig undir viðburðaröð safnsins Á mínu máli.

Smiðjan er opin öllum 15 ára og eldri en vinsamlegast athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður, svo að við mælum með því að mæta tímanlega. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið öll velkomin.

Ábendingagátt