Er höfuðið fullt af hugmyndum? Hefurðu í senn áhuga á glæpasögum og fantasíum? Langar þig að spreyta þig á að blanda ólíkum hugmyndum saman? Þá er yfirvofandi örsagnasmiðja á Bókasafni Hafnarfjarðar fyrir þig: 14. maí kl. 16:30-18:30.

Rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen leiðir smiðjuna en hann er einmitt þekktur fyrir að skeyta bókmenntagreinum saman. Eftir hann liggja tíu skáldsögur, þar á meðal verðlaunabókin Víghólar, sem er glæpafantasía, og hin geysivinsæla Dauðaleit, sem er glæpahrollvekja. Áður en umræður og skrif hefjast fer Emil stuttlega yfir söguuppbyggingu, hvað helst ber að hafa í huga við skriftir og hvetur þátttakendur til að láta gamminn geisa. Engin hugmynd er fjarstæðukennd, það er hægt að vinna með allt, það þarf bara að finna leiðina.

Smá-krimmar og furður er hluti af viðburðaröðinni Glæpafár á Íslandi í 25 ár sem fer fram í tilefni aldarfjórðungs afmælis Hins íslenska glæpafélags.

Þátttaka er ókeypis, 30 sæti eru í boði og skráning fer fram í gegnum tölvupóst. Sendist á: bokasafn@hafnarfjordur.is

Skriffæri og pappír verða á staðnum en þátttakendum er velkomið að taka með eigin glósubækur og/eða fartölvur.
Ábendingagátt