Þriðjudaginn 3. september kl. 12 hefja hádegistónleikar í Hafnarborg göngu sína að nýju en á þessum fyrstu tónleikum vetrarins verður Fanný Lísa Hevesi gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þær mæðgur flytja óperuleg söngleikjalög og ýmiss konar óperuskotið eða óperutengt efni. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er „Mitt á milli – á gráu svæði“.

Fanný Lísa Hevesi er nýútskrifuð úr Performance Preparation Academy (PPA) með BA-gráðu í söngleik en skólinn er staðsettur í Guildford og er einn af fremstu skólum Bretlands í slíku námi og hefur verið starfandi í um tuttugu ár. Í skólanum lék Fanný marga mismunandi karaktera, líkt og Jesus í Jesus Christ Superstar og Dominu í A Funny Thing Happened on the Way to the Forum. Áður en hún var í PPA var hún nemandi í Full Time Foundation Course í ArtsEd, einum virtasta listaháskóla Englands, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2021.

Á Íslandi lærði Fanný söng í Söngskóla Sigurðar Demetz og lék hlutverk eins og Fjólu í 9 to 5 og Heiði Chandler í Heathers. Hún útskrifaðist með framhaldspróf í klassískum söng með Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sem kennara en fyrir það lærði hún söngleikjasöng hjá Valgerði Guðnadóttur og Þór Breiðfjörð. Aðrar uppfærslur sem Fanný hefur tekið þátt í eru Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu (sýningar féllu þó niður vegna Covid), Kabarett og Krúnk krúnk og dirrindí á vegum Leikfélags Akureyrar, Phantom of the Opera á vegum Sinfonia Nord í Hörpu, Töfraflautan fyrir börn og Ævintýraóperan Baldursbrá, auk þess sem hún var meðlimur í barnakór Íslensku óperunnar í uppsetningu hennar á Carmen og La bohéme í Hörpu.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.

Ábendingagátt