Hafnarfjarðarhlaupið verður haldið í fyrsta skipti fimmtudaginn 8. júní kl. 20:00 í samvinnu við Frjálsíþróttadeild FH, Hafnarfjarðarbæ og Fjarðarkaup.

Skráning fer fram hér

Umgjörð

Hafnarfjarðarhlaupið mun komast í fámennan hóp götuhlaupa á Íslandi, þar sem hlaupið mun í raun og veru fara fram á götum bæjarins, en lokað verður fyrir umferð á meðan hlaupið fer fram. Miðpunktur hlaupsins verður á Thorsplani, en þar mun hlaupið bæði byrja og enda. Fjölbreytt dagskrá verður fyrir og eftir hlaupið en áhorfendum og keppendum mun meðal annars bjóðast að spreyta sig í margs konar frjálsíþróttaþrautum. Á hlaupaleiðinni mun vera drykkjarstöð við 5 km markið og á Thorsplani í lok hlaups, en þar verður líka önnur næring í boði. Keppendur munu geta nýtt sér munageymslu á meðan hlaupið fer fram og eins mun vera komið fyrir salernisaðstöðu á Strandgötu. Að hlaupi loknu mun öllum þátttakendum bjóðast að fara í sund í Suðurbæjarlaug, sem verður opin til miðnættis.

Verðlaun

Allir þátttakendur munu eiga möguleika á að vinna glæsileg verðlaun sem verða veitt í samvinnu við samstarfsaðila mótsins. Hæst ber að nefna verðlaun fyrir þá hlaupara sem enda í efstu þremur sætunum, í karla- og kvennaflokkum, en það verða peningaverðlaun ásamt öðrum glæsilegum verðlaunum. Peningaupphæðirnar sem um ræðir verða:

 • 1. sæti – 100.000 kr.
 • 2. sæti – 50.000 kr.
 • 3. sæti – 25.000 kr.

Að auki verða veitt verðlaun fyrir sigurvegara í hverjum aldursflokki fyrir sig auk þess sem vegleg útdráttarverðlaun verða í boði.

Aldursflokkar

Eftirfarandi aldursflokkar verða í Hafnarfjarðarhlaupinu árið 2023:

 • 18 ára og yngri
 • 19-29 ára
 • 30-39 ára
 • 40-49 ára
 • 50-59 ára
 • 60 ára og eldri

Hlaupaleið

Hafnarfjarðarhlaupið er 10 km götuhlaup þar sem hlaupaleiðin er viðurkennd af Frjálsíþróttasambandi Íslands. Reynt var að takmarka beygjur og brekkur í hlaupinu og ætti brautin því að vera tilvalin fyrir bætingar. Hlaupið verður ræst á Strandgötu við Thorsplan og hlupið eftir henni í átt að Suðurbæjarlaug. Þaðan verður Suðurgatan hlaupin og farið verður yfir lækinn og upp Álfaskeið þar sem mjög flatur og hraður kafli tekur við. Þar verður farið um hraunin og inn í Norðurbæ Hafnarfjarðar þar sem meðal annars verður hlaupið á Hjallabraut, Breiðvangi og Norðurvangi. Næst taka hlauparar lítinn hring hjá grönnum okkar í Garðabæ umhverfis Garðaholt en koma síðan niður að Herjólfsgötu þar sem tekur við hraður lokakafli með ágætri lækkun sem endar aftur við Thorsplan.

Afhending gagna

Hlauparar munu sækja hlaupagögnin í Fjarðarkaupum en hægt verður að ná í gögnin á eftirfarandi tímum:

 • 7. júní: 09:00 – 18:00
 • 8. júní: 09:00 – 18:30

Þátttakendur munu fá hlaupanúmer með tímatökubúnaði sem ekki má beygla, en þá gæti tímatökubúnaðurinn eyðilagst. Til að fá frítt í sund um kvöldið þurfu hlauparar að sýna hlaupanúmerið sitt.

Skráning og þátttökugjöld

Hægt verður að skrá sig til miðnættis þann 7. júní en forsölu lýkur 1. maí og þá mun þátttökugjald hækka. Þátttökugjöld eru eftirfarandi:

 • 18 ára og yngri: Forsala 2.500 kr – Frá og með 25. maí: 4.000 kr.
 • Fullorðin: Forsala 4.500 kr – Frá og með 25. maí: 6.000 kr.

Nánari upplýsingar

Facebook síða hlaupsins: Hafnarfjarðarhlaupið

Upplýsingar á hlaup.is

Nánari upplýsingar má finna með því að hafa samband við skipuleggjendur með tölvupósti á netfanginu: valurelli@gmail.com

Ábendingagátt