Laugardaginn 25. janúar kl. 16 mun Pétur Thomsen, myndlistarmaður, taka á móti gestum og fjalla um sýninguna Landnám, þar sem getur að líta verk úr yfirstandandi seríu listamannsins, sem ber sama titil en þá er þetta í fyrsta sinn sem Pétur heldur sýningu á verkunum undir þeim titli. Vinsamlegast athugið að viðburðurinn, sem er hluti af dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands 2025, verður á íslensku og ensku.

Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur rannsakar nýtingu manna á landi og hvaða áhrif hún hefur á náttúruna. Listamaðurinn ljósmyndar námur, vegi, hraun, skóga, læki og ræktarlönd í skjóli myrkurs og notast við flass til að afmarka viðfangsefni sín. Myndirnar verða þannig vitnisburður um umhverfingu manna á náttúrunni sem hefur undanfarnar aldir verið svo umfangsmikil að margir telja athafnir mannsins hafa gangsett nýtt jarðsögulegt tímabil, mannöldina: tímabil sem stafar meðal annars af loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.

Pétur Thomsen (f. 1973) lauk MFA-prófi í ljósmyndun frá École nationale supérieure de la photographie í Arles, Frakklandi, árið 2004. Áður stundaði hann nám í frönsku, listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry í Montpellier og listljósmyndun við École supérieure des métiers artistiques í sömu borg. Pétur hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar en árið 2004 hlaut hann til að mynda verðlaun LVMH-samsteypunnar sem þá voru veitt ungum listamanni í 10. sinn. Hann var svo útnefndur af Musée de L’Élysée í Lausanne sem einn af 50 ljósmyndurum sem líklegir væru til að setja mark sitt á ljósmyndasögu framtíðarinnar í verkefninu reGeneration: 50 Photographers of Tomorrow.

Ókeypis aðgangur – verið öll velkomin.

Ábendingagátt