Sunnudaginn 1. september kl. 13 bjóðum við ykkur velkomin á spjall með þeim Þórhildi Tinnu Sigurðardóttur, sýningarstjóra, og listakonunni Hildi Hákonardóttur, sem munu segja gestum frá Óþekktri alúð, haustsýningu Hafnarborgar 2024. Þá er Hildur í hópi þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni en í tengslum við verk Hildar hefur listakonan ritað grein í sýningarskrá sem gefin er út samhliða sýningunni. Að þessu tilefni munu Þórhildur Tinna og Hildur fjalla um verkið og hugmyndirnar sem liggja til grundvallar sýningunni, auk þess að kynna texta sína í sýningarskránni.

Sýningin Óþekkt alúð sprettur út frá þörfinni fyrir að finna töfra í heimi sem virðist að mörgu leyti vera göldrum firrtur, á tímum án bjartrar vonar. Þá eru fólgnir vissir töfrar í því að leyfa hlutum að vera það sem þeir eru án þess að þurfa að ná utan um þá, með tilheyrandi skilgreiningarþráhyggju. Listaverk geta til að mynda verið væmin og skörp á sama tíma, rétt eins og þau geta fangað þversagnir, sem við fyrstu sýn virðast þurfa að útiloka hver aðra en eru þegar öllu er á botninn hvolft óneitanlega tengdar hver annarri, svo sem sársauki og tilfinningalegur þroski, áföll og heilun, gleði og sorg.

Þá er titill sýningarinnar tilkominn út frá hugsun um töfra sem fela í sér sameiginlega heilun og hugmynd um betri heim – en þessi óþekkta alúð skilgreinir veruleikann sem við lifum í á ýmsa vegu sem við getum ekki beinlínis komið orðum að. Þessi alúð er þó alltaf til staðar, þrátt fyrir að hún sé missterk þegar á móti blæs, og horfast þátttakendur sýningarinnar í augu við þessa alúð hver á sinn hátt.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Björg Þorsteinsdóttir, Sigríður Björnsdóttir, Suzanne Treister, Tabita Rezaire, Kate McMillan, Hildur Hákonardóttir, Ra Tack, Kristín Morthens, Tinna Guðmundsdóttir, Elsa Jónsdóttir, Juliana Irene Smith, Kata Jóhanness, Patty Spyrakos og Edda Karólína. Sýningarstjóri er Þórhildur Tinna Sigurðardóttir. Samhliða sýningunni er gefin út vegleg sýningarskrá með textum eftir sýningarstjóra og myndlýsingum eftir Eddu Karólínu, auk þess sem birt er ný grein eftir Hildi Hákonardóttur, líkt og áður er getið.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt