Föstudaginn 7. febrúar kl. 18-22 verður haldið upp á Safnanótt í Hafnarborg og því munu dyr safnsins verða opnar fram á kvöld, auk þess sem boðið verður upp á listasmiðju og vasaljósaleiðsögn. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt:

18:00
Listasmiðja – mynd:bygging

Boðið verður upp á listasmiðju í tengslum við yfirstandandi ljósmyndasýningar safnsins. Þar gefst gestum tækifæri til að gera tilraunir með myndbyggingu og þjálfa þannig sjónræna hæfileika sína með uppstillingu fundinna hluta. Markmiðið er að sjá fegurðina í því hversdagslega og kanna hvernig mismunandi sjónarhorn hafa áhrif á myndbyggingu, bæði hvað varðar nálgun á abstrakt eða hið sígílda kyrralíf. Allt efni verður á staðnum og hlutunum má raða saman á ýmsa vegu, taka ljósmyndir af uppstillingunum eða útfæra þær í teikningu. Leiðbeinandi er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, myndlistarmaður og verkefnastjóri fræðslu og miðlunar.

20:00
Landnám – vasaljósaleiðsögn
Búi Bjarmar Aðalsteinsson leiðir gesti um ljósmyndasýningu Péturs Thomsen, Landnám, þar sem gengið verður um myrkvaðan sal með vasaljós. Á sýningunni má sjá landslagsverk sem ljósmyndarinn tekur að næturlægi en hann lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Þá hangir svartur himininn yfir landslaginu í mörgum verkanna og ljáir myndunum annarlegan blæ. Meðal þeirra viðfangsefna sem Pétur rannsakar í samnefndri ljósmyndaröð eru námur, vegir, hraun, skógar, lækir og ræktarlönd, þar sem hann gefur sérstakan gaum að landnýtingu og þeim áhrifum sem hún hefur á náttúruna.

Á Safnanótt býðst gestum Vetrarhátíðar að heimsækja um fimmtíu söfn og skoða fjölbreyttar sýningar á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt því sem söfnin bjóða upp á lifandi og skemmtilega dagskrá. Þá taka menningarstofnanir Hafnarfjarðar, Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg, þátt eins og vanalega. Frítt er inn á öll söfnin og alla viðburði í tilefni kvöldsins.

Ábendingagátt