Föstudaginn 6. febrúar kl. 18-22 bjóðum við gestum að fagna Safnanótt með okkur í Hafnarborg, þegar boðið verður upp á dagskrá sem tengist list, náttúru og vellíðan. Þá verða tveir viðburðir í safninu um kvöldið, þar sem gestum gefst kostur á að fylgjast með listsköpun og njóta slakandi hljóðupplifunar, auk þess að heimsækja yfirstandandi sýningar safnsins. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt:

18:00-19:00
Blóm verða til – fylgstu með blómagerð

Innan yfirstandandi sýningar Eggerts Péturssonar í safninu mun Doaa frá Palestínublómum vinna blóm úr kreppappír í rýminu. Þá byggir blómagerðin á næmi fyrir litum og formi, líkt og sjá má í verkum Eggerts, þar sem smæstu jurtir verða að stórbrotnu landslagi á myndfletinum. Gestum er boðið að fylgjast með ferlinu þegar handgerð pappírsblóm taka á sig mynd innan sýningarinnar og kallast á við verkin í kring.

19:00-20:00
Tónaflóð – tónheilun með Völu Gestsdóttur
Vala Gestsdóttir, tónskáld, víóluleikari og jógakennari, leiðir djúpslakandi stund í staðbundinni innsetningu Unu Bjargar Magnúsdóttur. Með róandi tónum er gestum boðið í ferðalag sem hreyfir við orkuflæði líkamans, styður við jafnvægi, nærveru og innri kyrrð út frá heilunarmætti tónlistarinnar. Mælt er með því að vera í þægilegum fatnaði og hafa meðferðis dýnu, púða og teppi og jafnvel augnhvílu.

Á Safnanótt opna allflest söfn á höfuðborgarsvæðinu dyr sínar fram á kvöld og bjóða gestum að upplifa sýningar og viðburði af ýmsu tagi. Þá taka menningarstofnanir Hafnarfjarðar – Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg – vel á móti gestum eins og vanalega með fjölbreyttri og líflegri dagskrá. Frítt er inn á öll söfnin og alla viðburði í tilefni kvöldsins.

Ábendingagátt