Föstudaginn 13. október kl. 18 verða aðrir tónleikar Síðdegistóna í Hafnarborg á þessu misseri. Á tónleikunum kemur fram söngkonan Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir ásamt Agnari Má Magnússyni á píanó og Andrési Þór á gítar.

Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir er 26 ára gömul tónlistarkona úr Laugardalnum. Tónlistarferill hennar hófst með hljómsveitinni White Signal sem spilaði víða í Reykjavík en fór einnig til Berlínar og spilaði með tónlistarmönnum þaðan í tengslum við verkefni sem var styrkt af EU Youth. Þegar Hrafnhildur var í MH stofnaði hún tríóið Náttsól ásamt Elínu Hall og Guðrúnu Ólafsdóttur. Þær báru sigur úr býtum í Söngkeppni framhaldsskólanna og fóru í framhaldi til Istanbúl þar sem þær kepptu í alþjóðlegri tónlistarkeppni. Árið 2019 gáfu þær svo út plötuna Náttsól.

Síðan 2017 hefur Hrafnhildur gefið út popptónlist undir listmannsnafninu RAVEN. Þá gaf hún út EP-plötuna 229 árið 2021 en platan inniheldur fimm lög. Einnig hefur hún gefið út smáskífur og lög í samstarfi við annað tónlistarfólk, t.d. Birgi, RÚN og September. Lagið „Handan við hafið“ sem var gefið út með RÚN kom út í maí á þessu ári og komst inn á vinsældalista Bylgjunnar og Rásar 2. Hrafnhildur fór í FÍH til að læra söng en þar kynntist hún djassi og ákvað í kjölfarið að halda út í frekara nám eftir útskrift frá FÍH árið 2019. Hún er nú nýflutt heim eftir að hafa útskrifast úr námi við Konservatoríið í Amsterdam, þar sem hún lagði stund á djasssöng í fjögur ár.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Menningarsjóði Hafnarfjarðar og Tónlistarsjóði Rannís. 

Ábendingagátt