Námskeið fyrir forvitna krakka á aldrinum 10-14 ára sem hafa áhuga á bæði myndlist og vísindum. Á námskeiðinu gerum við tilraunir, lærum smá efnafræði, eðlisfræði, líffræði og stjörnufræði og vinnum svo myndlistarverk unnin upp úr tilraununum. Námskeiðið nær yfir 4 daga, 10.-13.júní. Það hefst kl. 10 og lýkur kl. 14. Gert er ráð fyrir stuttri nestispásu. Allt efni er á staðnum er þátttakendum er velkomið að koma með eigin skissubækur og slíkt.

Takmörkuð pláss, skráning í síma 585-5690, á netfangið bokasafn@hafnarfjordur.is eða í persónu.

Kennarinn er Jóa (Jóhanna Ásgeirsdóttir), en hún er listrænn stjórnandi hátíðarinnar List án landamæra. Hún lauk grunnnámi í myndlist frá New York University og meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Jóhanna hefur tekið þátt í og sýningarstýrt myndlistarsýningum á Íslandi, í Berlín og New York. Hún er stofnmeðlimur listhópanna Isle of Games, samstarfi leikjahönnuða, sem og Endurhugsa, listhóps sem fjallar um umhverfismál. Sjálfstæð listsköpun hennar tvinnast oft saman við fræðslu um vísindi og umhverfismál. Hún hefur haldið ótal listasmiðjur í skólum, á sýningum, söfnum og hátíðum innan sem utan höfuðborgarsvæðisins. Hún kennir bæði í listkennsludeild Listaháskóla Íslands og á barnanámskeiðum í myndlistaskóla Reykjavíkur.

 

Lokaverkefni hennar frá LHÍ hét Óravíddir og er stærðfræðinámsefni miðlað með aðferðum lista. Af því verkefni hefur sprottið samstarf við Hönnunarsafn Íslands, þar sem hún hefur rannsakað og hannað fræðsluefni um verk Einars Þorsteins Ásgeirssonar.
Ábendingagátt