Sýningin AKADEMIA er fyrri sýning Sveinssafns af tveimur fyrirhuguðum í tilefni af því að Sveinn Björnsson hefði orðið 100 ára á næsta ári. Þessi 11. sýning safnsins í Sveinshúsi í Krýsuvík er um upphaf Sveins Björnssonar sem listamanns, sjómanninn sem „varð fyrir vitrun“ á vetrarvertíðinni á Halamiðum árið 1948 með þeim afleiðingum að hann breyttist smám saman úr sjómanni í listamann. Hún er einnig um margslungið samband Sveins og listakonunnar frænku hans Júlíönu Sveinsdóttur sem var ígildi AKADEMÍU hans eins og sjórinn. Í þriðja lagi er AKADEMIA um námsdvöl Sveins á sjálfri AKADEMÍUNNI í Kaupmannahöfn veturinn 1956 – 57, sem lauk með mánaðar skólaferðalagi til Ítalíu um vorið og „sumarskóla“ í framhaldinu sem Sveinn sameinaði sumardvöl fjölskyldu sinnar í húsi Júlíönu í Horneby á Norður-Sjálandi. Þannig var AKADEMIA Sveins Björnssonar þrískipt á leið hans inn á listabrautina: SJÓRINN • JÚLÍANA SVEINSDÓTTIR • LISTAHÁSKÓLINN Í KAUPMANNAHÖFN.
Hin sýningin í tilefni af 100 ára afmælinu verður sett upp á næsta ári og mun fjalla um endalokin á listferlinum þegar afstraktið hafði tekið yfir í formi listafantasíu, sem listamaðurinn nefndi svo.
Þáttur Júlíönu er stór í AKADEMÍU sýningunni. Sveinssafn varðaveitir mikinn fjölda verka hennar og drjúgan part af húsbúnaði hennar úr sumarhúsi hennar í Horneby sem Sveinn kom fyrir í Sveinshúsi. Þegar í ljós kom við nánari skráningu og greiningu safnkosts Sveinssafns að undanförnu að það varðveitti myndir eftir vinkonur Júlíönu sem börðust á sínum tíma fyrir framgangi kvenna á listasviðinu í Kaupamannahöfn á fyrri hluta síðustu aldar og voru allar með tengingu við Horneby, enda kallaðar af listfræðingum Horneby málararnir, þá þótti einsýnt að gera þessum þætti skil á sýningunni og dýpka þannig hlut Júlíönu. Það hefur síðan leitt upp að þeirri athugun eða hugmynd sýningarinnar að líta megi á Svein Björnsson sem síðasta Horneby málarann.
Samkvæmt þessu sker sýningin AKADEMIA sig frá öllum öðrum sýningum safnsins fram að þessu með því að nú eru sýnd verk eftir 9 listamenn, 5 karla og 4 konur. Listamennirnir sem eiga myndir á sýningunni eru: Sveinn Björnsson 117 myndir, Júlíana Sveinsdóttir 16 myndir, Carl Andreasen 9, Ebba Carstensen 4, Gunnlaugur Scheving 3, Vera Nilsson 2, Elof Risiby 2, Astrid Holm 1 og Henrik Vagn Jensen 1. Allir þessi listamenn tengjast viðfangsefni sýningarinnar með ýmsum hætti.
Alls voru valdar 155 myndir til sýningar, ýmist til upphengingar á veggi sýningarherbergjanna (67) eða á sýningarspjöld sem miða að því að koma viðfangsefni sýningarinnar til skila (88). Stuðst var við gagnasafn safnsins við hönnun sýningarinnar en sendibréf og ljósmyndir hafa verið í skráningu undanfarin misseri. Hönnuður sýningar, sýningarspjalda og sýningarskrár sem gefin er út af þessu tilefni er Erlendur Sveinsson.

Aðra daga er opnunartíminn í Sveinshúsi fyrsti sunnudagur í mánuði á sumrin kl. 13:00 – 17:30. Hefðbundið er að boðið er upp á leiðsögn og kaffiveitingar.

Að auki geta hópar komið á öðrum tíma skv. samkomulagi við aðstandendur safnsins.

Hægt er að fylgjast með Sveinssafni og frekari upplýsingum á facebook. 

Ábendingagátt