Vetrarhátíð 2026

Vetrarhátíð 2026 verður haldin dagana 5.–8. febrúar. Hún fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þremur meginstoðum:

  • Safnanótt
  • Sundlauganótt
  • Ljósaslóð

Fjöldi listamanna tekur þátt í 150 viðburðum og skapa einstaka stemningu á höfuðborgarsvæðinu. Frítt er á alla viðburði.

Hér í Hafnarfirði njótum við Vetrarhátíðar. Söfnin okkar þrjú;

Bókasafn, Byggðasafn og Hafnarborg verða með dagskrá föstudaginn 6. febrúar frá kl. 18 – 22. Lengri opnun verður í Suðurbæjarlaug laugardaginn 7. febrúar og sunnudaginn 8. febrúar verður Hafnarfjarðarkirkja lýst upp með fallegum litum. Við hvetjum fjölskyldur til að fara í notalegan bíltúr og njóta litadýrðarinnar milli kl. 18 og 22.

Um helgina eru jafnframt síðustu forvöð að njóta ljósadýrðarinnar í Hellisgerði.

Safnanótt í söfnum Hafnarfjarðarbæjar

Söfn bæjarins standa okkur öllum opin á Safnanótt föstudaginn 6. febrúar milli kl. 18-22 og eins og alltaf þá er frítt inn.

Hafnarborg

18:00
Blóm verða til – fylgstu með blómagerð

Innan yfirstandandi sýningar Eggerts Péturssonar í safninu mun Doaa frá Palestínublómum vinna blóm úr kreppappír í rýminu. Þá byggir blómagerðin á næmi fyrir litum og formi, líkt og sjá má í verkum Eggerts, þar sem smæstu jurtir verða að stórbrotnu landslagi á myndfletinum. Gestum er boðið að fylgjast með ferlinu þegar handgerð pappírsblóm taka á sig mynd innan sýningarinnar og kallast á við verkin í kring.

19:00
Tónaflóð – tónheilun með Völu Gestsdóttur
Vala Gestsdóttir, tónskáld, víóluleikari og jógakennari, leiðir djúpslakandi stund í staðbundinni innsetningu Unu Bjargar Magnúsdóttur. Með róandi tónum er gestum boðið í ferðalag sem hreyfir við orkuflæði líkamans, styður við jafnvægi, nærveru og innri kyrrð út frá heilunarmætti tónlistarinnar. Mælt er með því að vera í þægilegum fatnaði og hafa meðferðis dýnu, púða og teppi og jafnvel augnhvílu.

Byggðasafnið

Opið verður í þremur húsum Byggðsafnsins á safnanótt. Pakkhúsinu, Sívertsen húsi og í Beggubúð.

Bókasafnið

Borðspil, saumasmiðja, tónlistaratriði og plötumarkaður

18:15 – 19:45
Saumasmiðja á 2.hæð með Heimateymisfólki ætluð yngri kynslóðinni, hentug fyrir litla putta sem vilja fá að potast í saumaskap. Efni á staðnum.

19:30
Hljómsveitin LEA, skipuð af vinunum Katrínu, Láru og Ella. Tónlist þeirra er innblásin af indípoppi og þjóðlagatónlist og leggur áherslu á persónulega og ljóðræna texta. Innblástur í lagasmíðina draga þau frá fólkinu í kringum sig og fagurri náttúru heimalandins. Tveir meðlimir sveitarinnar, Katrín og Lára, munu leika á gítarinn og syngja ný og eldri lög fyrir gesti og gangandi.

20:10
Saumasmiðja fyrir lengra komna. Hér gefst tækifæri á að prófa handavinnu úr heimi sögulegrar klæðagerðar undir leiðsögn Hugrúnar Óskar, klæðskerameistara.

Á Safnanótt býðst gestum Vetrarhátíðar að heimsækja um fimmtíu söfn og skoða fjölbreyttar sýningar á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt því sem söfnin bjóða upp á lifandi og skemmtilega dagskrá. Þá taka menningarstofnanir Hafnarfjarðar, Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg, þátt eins og vanalega. Frítt er inn á öll söfnin og alla viðburði í tilefni kvöldsins.

„Með sól í hjarta – ljósmyndasýning á LED skilti við Fjarðarkaup á Safnanótt. 

Fókus, félag áhugaljósmyndara, verður með myndasýningu á auglýsingaskilti Fjarðarkaupa á Safnanótt, 6. febrúar næstkomandi. Á skiltinu við bílaplan Fjarðarkaupa verða ljósmyndir frá Fókus félögum sem rúlla á klukkutímafresti, eins konar bílabíó, í byrjun hvers klukkutíma.

Sýningarnar hefjast klukkan: 18:00, 19:00, 20:00, 21:00, 22:00 og 23:00 og standa í 15 mínútur.

Sundlauganótt í Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug

Sundlaugar bæjarins standa öllum opnar á Sundlauganótt laugardaginn 7. febrúar og er frítt inn á hápunktum dagsins.

Ásvallalaug – frítt frá 15 – 17

  • Vatnaboltar í stóru lauginni
  • Blöðrudýr á bakkanum

Suðurbæjarlaug – kvöldopnun & frítt frá 18 – 22

  • Kl. 19 – Tónlistarbingó – bingó og tónlist í eina sæng!

Ljósalistaverk á Hafnarfjarðarkirkju

 

Ábendingagátt