Sunnudaginn 29. september kl. 14 mun Elín Sigríður María Ólafsdóttir, myndlistarmaður, taka á móti gestum á sýningunni „Við sjáum það sem við viljum sjá“, sem stendur nú yfir í safninu í tengslum við List án landamæra en Elín var fyrr á árinu útnefnd listamanneskja hátíðarinnar í ár. Þá munu Elín og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, sýningarstjóri, ræða efnistök og áherslur í verkum Elínar.

Á sýningunni getur að líta úrval verka sem spanna feril listakonunnar, frá upphafi til dagsins í dag, en efnistökin eru jafnan ævintýraleg, auk þess sem hún vinnur gjarnan með sjálfið á mismunandi hátt er hún finnur sköpunarkrafti sínum farveg í máli og myndum. Þá hefur leiklist og skapandi tjáning á sviði jafnframt verið stór þáttur í lífi Elínar en hún hefur starfað með leikhópnum Tjarnarleikhúsinu um árabil, gefið út ljóðabækur og komið að öllum þáttum leiksýninga, svo sem búningahönnun og leikmyndagerð.

Elín Sigríður María Ólafsdóttir (f. 1983), myndlistarkona, leikkona og skáld, hefur stundað nám af ýmsu tagi, einkum þó listnám bæði hér heima og erlendis, og lauk diplómanámi í myndlist fyrir fatlaða frá Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 2017. Listaverk Elínar hafa birst víða bæði á einka- og samsýningum, þar á meðal í Listasal Mosfellsbæjar og í Safnasafninu, sem og í bókum og í tímaritum. Elín hefur jafnframt sýnt reglulega í samstarfi við List án landamæra, auk þess sem hún sinnir ráðgjöf um inngildingu sem meðlimur Listvinnzlunnar.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt