Viljum vinna með foreldrum

Fréttir

Hlutverk barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Barnavernd leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. 

Hlutverk barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Barnavernd leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Bæjarblaðið Hafnfirðingur hitti Helenu Unnarsdóttur, deildarstjóra barnaverndar hjá Hafnarfjarðarbæ , en þar starfa 11 manns við þessi mikilvægu og krefjandi verkefni.

„Það ber öllum skylda til að tilkynna til barnaverndar ef grunur leikur á vanrækslu, ofbeldi eða slæmum aðbúnaði barna. Fólk á að leyfa sér að vera svolítið forvitið um hag barna og þær aðstæður sem það býr við. Það styrkir málin ef fleiri tilkynna úr ólíkum áttum. Við störfum eftir lögum og við förum ekki í úrræði nema hafa kannað málin og reynum alltaf vægustu úrræðin fyrst. Þetta hefst allt á tilkynningum sem okkur ber að taka afstöðu til innan sjö daga,“ segir Helena og á þá við að þá sé ákveðið hvort kanna eigi málið nánar. Ef ekki, þá fái foreldrar sent bréf um að tilkynning hafi borist en ekki hafi verið ástæða til að aðhafast nokkuð frekar en nokkur hluti tilkynninga fer ekki í könnun.

Meðferðaráætlun og ráðgjöf

Könnun á ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði. „Við byrjum oftast á að tala við foreldra og fá afstöðu þeirra til tilkynningarinnar. Einnig ræða við börnin og skoða heimilisaðstæður. Ef könnun leiðir í ljós misbrest í aðbúnaði barna er gerð áætlun um meðferð máls, í ca. 3-6 mánuði, þar sem eru tilgreind þau úrræði sem ætlunin er að styðja foreldra og börn með. Sem dæmi um úrræði má nefna tilsjón inn á heimilið þar sem foreldrum er leiðbeint með t.d. með ákveðna rútínu, hvatningu, mörk og fjármál o.fl,“ segir Helena og bætir við að oft fást persónulegir ráðgjafar til að vera „stóra systkini“ og kynna börnin fyrir nýjum tómstundum eða áhugamálum. Stundum þarf stuðningsfjölskyldur til að víkka út sjóndeildarhring barnanna eða hvíla foreldrana, 1-2 helgar í mánuði. Helena og tekur fram að alltaf vanti góðar stuðningsfjölskyldur.

Einnig sé boðið upp á sálfræðiviðtöl, fjölskyldumeðferð, foreldranámskeið eins og PMTO, MST sem er fjölkerfameðferð fyrir börn með áhættuhegðun, meðferð og greiningu á Stuðlum og eftirmeðferð. „Ef vel tekst til er oft hægt að loka málum í kjölfarið. Ef allt er komið í þrot er barn sett í tímabundið fóstur og þá oftast með samþykki foreldra. Tilgangurinn er alltaf að barnið fari heim aftur nema þegar þau fara í varanlegt fóstur, en oft fara börnin í fóstur til náinna ættingja og er gerð úttekt á þeim áður.“

Oft miklar framfarir

Tilkynningar árið 2019 voru um 1100; oft sömu atvik og sömu börn. Um þessar mundir er barnavernd með 350-360 mál í vinnslu og hver starfsmaður er með 30-40 mál á sinni könnu. Helena segir starfið vera fjölbreytt og krefjandi en afar gefandi líka. „Oft sjáum við miklar framfarir og kraftaverk gerast. Fólk á að treysta á barnaverndina því við erum fyrst og fremst að styðja foreldra og börn. Það er algjört neyðarúrræði að stía fjölskyldur í sundur og þegar foreldrar eru sviptir forsjá,“ segir Helena að endingu.

Ábendingagátt