Vill skapa tækifæri fyrir sem flesta

Fréttir

Tæknifræðisetur Háskóla Íslands hefur frá því í september 2018 haft aðsetur á 3. hæð í Menntasetrinu við Lækinn. Á þeim tíma voru sjö nýnemar en í ár hefur þeim fjölgað í 23. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og kemur alls staðar frá vegna hentugrar staðsetningar setursins. Meðalaldur nemenda er nú yfir 30 ár, margir með fjölskyldu og jafnvel að stunda vinnu með námi. 

Tæknifræðisetur Háskóla Íslands hefur frá því í september 2018 haft aðsetur á 3. hæð í Menntasetrinu við Lækinn. Á þeim tíma voru sjö nýnemar en í ár hefur þeim fjölgað í 23. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og kemur alls staðar frá vegna hentugrar staðsetningar setursins. Meðalaldur nemenda er nú yfir 30 ár, margir með fjölskyldu og jafnvel að stunda vinnu með námi. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við forstöðumanninn Karl Sölva Guðmundsson, dósent við rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ. Hann hefur tröllatrú á að Hafnarfjörður geti orðið blómlegur háskólabær og að það muni hafa t.d. góð áhrif á verslun og þjónustu í bænum. 

Mennta2Menntasetrið við Lækinn (fyrir miðri mynd), séðan ofan af Hamrinum. Mynd/OBÞ

Tæknifræðinám á vegum HÍ byrjaði upphaflega árið 2009 á vettvangi Keilis og árið 2022 mun 10. árgangurinn útskrifast. Tæknifræði er hagnýtt 210 eininga BS háskólanám sem veitir rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Í náminu öðlast nemendur öfluga tækniþekkingu samhliða færni við að beita henni á raunveruleg verkefni tengd atvinnulífi. Karl segir að nemendur hafi fjölbreyttan bakgrunn. Margir hafi til að mynda lokið iðnnámi en ekki menntaskólanámi.

3_1602666143479Nemandinn Áslaug vinnur að verkefni í Flétturásum. Mynd/Kristinn Ingvarsson
Mennta4Mynd/Kristinn Ingvarsson.

„Við reynum að móta námið þannig að nemendur sem lokið hafa framhaldsskólanámi geti hafið nám í tæknifræði. Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að grunnskólanemar viti upp á hár hvað þau vilja læra og starfa við næstu 60 árin þegar þau velja sér nám í framhaldsskóla. Með auknum þroska og lífsreynslu breytast viðhorf og áhugasvið fólks og þá þurfa að vera tækifæri í menntakerfinu til að fólk geti skipt um skoðun og tekið nýja stefnu í lífinu. Við reynum að skapa þetta tækifæri fyrir þá sem vilja fara í tæknifræðinám.“

Mennta5Nemandinn Einar vinnur að verkefni við að vinna lífræna dísilolíu. Mynd/Kristinn Ingvarsson.

Nemendur glæða miðbæinn lífi

Aðstaða fyrir tæknifræðinám í setrinu er lítil en nú er búið að koma námsbrautinni ágætlega fyrir og Karl segir umhverfið vera spennandi fyrir nemendur. „Hafnarfjörður er ákjósanleg staðsetning fyrir háskólanám, hér eru margir veitingastaðir í göngufæri og nemendur og starfsmenn glæða bæinn lífi. Í dag eru um 70 manns frá starfseminni sem sækja sér þjónustu og kaupa sér eitthvað að borða hér í miðbæ Hafnarfjarðar á hverjum degi. Það hlýtur að vera gott fyrir hafnfirskt samfélag.“

Mennta6
„Hafnarfjörður er ákjósanleg staðsetning fyrir háskólanám, hér eru margir veitingastaðir í göngufæri og nemendur og starfsmenn glæða bæinn lífi,“ segir Karl. Mynd/OBÞ

Á næsta ári fjölgi nemendum um 30 til 40 og þá verði 100 manns sem spásseri um miðbæinn, næri sig og styðji við aðra verslun og þjónustu. „Samstarfið við Hafnarfjarðarbæ hefur verið mjög gott. Við stóðum frammi fyrir því í haust með 27 skráða nýnema að þurfa að tvíkenna námskeiðin þeirra vegna fjarlægðarmarka en þá gaf bærinn gaf okkur afnot salnum hér á annari hæð sem rúmar allt að 50 nemendur. Við finnum fyrir mikilli velvild hjá bænum. Ef aðsóknin heldur áfram að aukast munum við annað hvort þurfa að taka upp fjöldatakmarkanir í námið eða fá hæðina hér fyrir neðan á næsta ári.“

Mennta7Rannsóknarstofa í efna og líftækni. Mynd/OBÞ

Mennta8Róbótastofa, lokaverkefni „táknmálshanski“. Mynd/OBÞ

Persónuleg þjónusta og mikil nálægð

Í Tæknifræðisetrinu eru tvær námslínur til BS náms. Þær eru mekatróník hátæknifræði sem er þverfaglegt nám með áherslu á vél- tölvu- og rafeindafræði. Hin námslínan er framleiðslutæknifræði þar sem áherslan er á framleiðsluferli í efna- og lífefnafræðum. Auk þess eru fimm stuttar 90 ECTS eininga diplómagráður sem metnar eru að fullu í viðkomandi BS gráðu. Góðar upplýsingar myndir og myndbönd frá náminu er að finna á heimasíðunni http://fag.hi.is  

Mennta9

Mekatróníkstofa, lokaverkefni, „skúringaþrællinn“ Þerrari. Mynd/OBÞ

„Við reynum að skapa náms- og starfsumhverfi þar sem öllum líður vel. Þjónusta við nemendur er persónuleg og nálægðin mikil. Námskeiðin eru fámenn miðað við mörg önnur námskeið hjá Háskóla Íslands. Margir nemendur þrífast alls ekki í fjölmennum kúrsum. Nemendur eru hvattir í hópastarf og til að læra saman, eins og hægt er. Það skapar sterkt háskólasamfélag og vináttu sem endist jafnvel ævilangt. Þegar nemendur hjálpast að með verkefni leysa þau fljótt og auðveldlega flókin verkefni sem annars hefði tekið þau langan tíma að leysa. Nemendur okkar kunna vel að meta hópastarfið og þess vegna vilja þeir t.a.m. ekki fjarnám eins og við þurftum að kenna á vormánuðum. Fjartæknin kemur aldrei í staðinn fyrir samtalið og samstarfið í hefðbundnu skólastarfi. Sem kennari heyrir þú ekki andvarpið eða svipbrigði í andliti þegar nemandi skilur ekki eitthvað,“ segir Karl. 

Mennta10Braut sem notuð verður til að búa nemendur undir þátttöku í hinni landsþekktu Hönnunarkeppni verkfræðinema. Mynd/OBÞ

Vildu koma aftur og klára námið

Gjarnan er haft samband við eldri nemendur af fyrra bragði, þá sem hófu tæknifræðinám einhvern tímann en hafa einhverra hluta vegna ekki lokið námi. „Ég hafði t.d. í haust samband við 12 nemendur, bauð þeim upp á kók og prins og sýndi þeim aðstöðuna hérna. Af þeim komu 10 að skoða og fjórir þeirra eru aftur komnir til að klára námið. Það er mjög góð svörun,“ segir Karl og bætir við að nauðsynlegt sé að gera þetta reglulega því bæði er ríkið búið að fjárfesta í menntun þessara einstaklinga og einstaklingarnir sjálfir í menntun sinni. Hún sé einskis virði launalega fyrr en námið hefur verið klárað.

Mennta11Kennarinn Þórir kennir forritun í einni kennslustofunni. Mynd/OBÞ

Fullt nám á atvinnuleysisbótum myndi bjarga miklu

Karl segist sýna því fullan skilning að nemendur hafi stundum flosnað úr námi á liðnum árum vegna margra ferða suður með sjó til að tala við leiðbeinendur og vera kannski í vinnu með. Vinnan hafi svo farið að vefja upp á sig, verða meira og meira krefjandi og þá hafi lokaverkefni mætt afgangi. „Við erum síðan með 2-3 nemendur í haust sem eru styttra komnir í námi en hafa misst vinnuna undanfarna mánuði. Þeir mega samt bara klára 10 einingar á ári á atvinnuleysisbótum en við erum að kenna 60 einingar. Úrræði stjórnvalda eru svo takmörkuð. Það væri miklu nær að þeir gætu farið í fullt nám á bótum í einhvern tíma á meðan verið er að leysa úr þessu Covid ástandi og þá vonandi klára námið.“

Mennta12Mörg handtök eru að baki við að útbúa útihús við Menntasetrið sem notað er við kennslu. Mynd/OBÞ

Vildi verða „lagaramaður“ eins og pabbi

Karl segist kunna vel við sig í menntasetrinu, sérstaklega vegna akademíska frelsisins sem hann segir afar mikilvægt ef það á að búa fólk undir lífið. „Ef úrræði eins og Tæknifræðisetrið er ekki til staðar, þá er fullt af fólki í samfélaginu sem hefur ekki tækifæri til að bæta við sig námi og skipta um starfsvettvang. Þetta snýst um að skapa tækifæri fyrir sem flesta. Ég er sjálfur 3. kynslóð af vélstjórum og vissi alltaf hvað mig langaði að læra. Ég vildi verða „lagaramaður“ eins og pabbi minn! Ég fór í Vélskólann og kláraði sveinspróf í rennismíði og starfaði sem vélfræðingur á sjó í mörg ár. En svo með auknum þroska og lífsreynslu langaði mig í háskólanám. Þá voru allar leiðir lokaðar þar sem ég hafði ekki stúdentspróf af náttúrufræðibraut. Þess vegna fluttum við til Bandaríkjanna þar sem ég stundaði grunn og meistaranám í tölvuverkfræði og síðar doktorsnám í rafmagnsverkfræði.“

Mennta13Karl sinnir starfi sínu af mikilli ástríðu og hefur fulla trú á að hægt sé að gera Hafnarfjarðarbæ að háskólabæ. Mynd/OBÞ

Vill að Hafnarfjörður verði háskólabær

Karl býr í Hafnarfirði og langar afskaplega að sjá bæinn verða að háskólabæ. Í Menntasetrinu við Lækinn hefur verið starfrækt háskólanám á vegum Háskóla Akureyrar frá árinu 2002. „Það þarf að rækta meira þessi tengsl við háskóla úti á landi og fjarnámsþjónustu við þá. Að jafnaði hafa 300-400 nemendur sótt símats og lokapróf á Menntasetrinu undanfarin ár og mest 600. Einnig hafa kennarar HA fengið aðstöðu til fjarkennslu og fjarnemar þeirra námsaðstöðu. Það er heilmikið háskólastarf í Hafnarfirði sem hefur ekki verið sýnilegt. Þetta skapar ákveðið líf og tækifæri fyrir bæinn okkar. Við erum hérna til að miðla okkar reynslu til þeirra sem yngri eru og þeirra sem vilja breyta stefnu sinni í lífinu. Það er okkar hlutverk að láta gott af okkur leiða öðrum til heilla,“ segir Karl að lokum.

Viðtal við Karl var birt í Hafnfirðingi 11. október 2020.  

Ábendingagátt