Vinnustofa um heilsueflandi leikskólastarf

Fréttir

Vinnustofa um heilsueflandi leikskólastarf var haldin í Hafnarborg nýverið og komu þar saman fulltrúar frá embætti landslæknis og fulltrúar leikskóla Hafnarfjarðarbæjar auk annarra sem láta sig heilsueflingu varða innan sveitarfélagsins. Mikilvægasti lærdómur vinnustofunnar var að heilsueflandi verkefni þurfa ekki að vera flókin eða umfangsmikil til að veita gleði og uppskera árangur.

Verkefni þurfa ekki að vera flókin til að veita gleði og uppskera árangur

Vinnustofa um heilsueflandi leikskólastarf var haldin í Hafnarborg nýverið og komu þar saman fulltrúar frá embætti landslæknis og fulltrúar leikskóla Hafnarfjarðarbæjar auk annarra sem láta sig heilsueflingu varða innan sveitarfélagsins. Hópurinn skiptist á reynslusögum og upplýsingum um árangursrík og gefandi heilsueflandi verkefni í skólastarfinu. Mikilvægasti lærdómur vinnustofunnar var að heilsueflandi verkefni þurfa ekki að vera flókin eða umfangsmikil til að veita gleði og uppskera árangur. Óhætt er að segja að allir leikskólar Hafnarfjarðarbæjar séu heilsueflandi á einn eða annan hátt en eiga margir hverjir eftir að kortleggja vinnuna og skrá framtakið formlega til embættis landslæknis til að hljóta þann titil að vera heilsueflandi leikskólar. Það verður næsta skref.

Vettvangur fyrir heilsueflandi hugmyndir og reynslusögur

Þrír af sautján leikskólum Hafnarfjarðarbæjar hafa stigið það skref að fá viðurkenningu sem heilsueflandi leikskólar. Í því felst viðurkenning embættis landslæknis á því að skólunum hafi tekist að skapa umhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Á vinnustofuna mætti sérfræðingur frá embætti landlæknis með erindi um heilsueflandi leikskólastarf og gildi þess og ávinning fyrir allt skólasamfélagið að taka þátt í verkefninu heilsueflandi leikskóli auk þess að kynna fyrir þátttakendum hve auðvelt er að hefja ferlið að verða heilsueflandi leikskóli. Auk þess stigu fulltrúar frá nokkrum leikskólum bæjarins á stokk með kynningar og myndir úr eigin starfi. Markmiðið með vinnustofunni var að búa til hvetjandi samtal og heilsueflandi vettvang fyrir áhugasamt starfsfólk innan leikskóla bæjarins. Átta af tíu grunnskólum Hafnarfjarðar eru orðnir heilsueflandi grunnskólar.

Skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan

Heilsueflandi leikskólum er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild. Innleiðing felur einnig í sér aðgang að vefsvæði á www.heilsueflandi.is, sem er rafrænt kerfi þar sem hver grunnskóli heldur utan um heilsueflingarstarf skólans. Heilsueflandi leikskóli er ekki verkefni með upphaf og endi heldur nálgun sem nýtist í starfinu til framtíðar. Hver skóli vinnur á þeim hraða sem hentar og reiknað er með að skólinn taki sér allt að ár í undirbúning. Undirbúningsvinnan felst í því að mynda stýrihóp, skoða stöðu skólans, gera grunn að heilsustefnu, fylla út í gátlista á lokuðu vefsvæði sem þátttökuskólar hafa aðgang að. Þar getur hver og einn skóli metið eigin stöðu og í framhaldinu haldið utan um markvisst heilsueflingarstarf. Þátttaka er leikskólum að kostnaðarlausu og ekki er þörf á undirbúningsvinnu áður en sótt er um. Heilsueflandi leikskóli er afurð þróunarstarfs sem var unnið í samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila. Með því að taka þátt í heilsueflandi leikskóla er leikskólum landsins boðin verkfæri og stuðningur til þess að vinna markvisst að heilsueflingarstarfi í sínum leikskóla.

Ábendingagátt