23 fulltrúar á Grænfánafundi í Víðistaðaskóla

Fréttir

Fjörugar umræður sköpuðust meðal 23 fulltrúa allra bekkja Víðistaðaskóla á grænfánafundi í gær. Vortiltekt á skólalóð, matarsóun, útikennsla og fatamarkaður voru meðal umræðuefna. Vinna við umsókn 6. Grænfánans er framundan og stefnt að viðtöku nýs fána nú í júní.

Grænfánafundur í Víðistaðaskóla

Fjörugar umræður sköpuðust meðal 23 fulltrúa allra bekkja Víðistaðaskóla á grænfánafundi í gær. Vinna við umsókn 6. Grænfánans er framundan og stefnt að viðtöku nýs fána nú í júní. Sólveig Baldursdóttir teymisstjóri Grænfánans í Víðistaðaskóla stýrði för þegar nemendurnir ræddu vortiltekt á skólalóðinni í mars-maí, þar sem allir bekkir taka þátt. Þeir ræddu einnig umgengni úti sem inni og hversu mikilvægt sé að við öll pössum upp á að henda ekki rusli hvar sem er. Mikil umræða skapaðist um tyggjóklessur sem eru víða.

Matarsóun, fatamarkaður og útinám

Matarsóun var einnig til umræðu. Bekkjarfulltrúarnir telja minna þurfi krakka á að taka ekki of mikið á diskinn í matsalnum, fara frekar aftur til að fá sér meira. Fjörugar umræður sköpuðust útikennslu og hvað það væri gagnlegt að vera í útinámi. Þau töldu að gera mætti meira af því í skólanum. „Maður þarf ekki alltaf að vera að læra í bókum,“ sagði einn nemandi.Fatamarkaður hefur verið starfræktur og eru krakkarnir mjög ánægðir með hann. Margir úr hópnum hafa nýtt sér það að næla sér í flík eða koma með. Fimm nemendur taka að sér eftirlit með fatamarkaðnum eftir Páska.

Stefnt að nýjum grænfána í júní

Eitt af stóru umræðuefnum fundarins var vinna við umsókn um 6. Grænfánann sem er famundan. Nemendur í Umhverfisráði verða með í undirbúningi varðandi umsókn og viðtöku nýs fána til næstu tveggja ára. Stefnt er að því að taka á móti 6. fánanum í júní. Fundir sem þessir eru bestir þegar næla má í munnbita í lokin. Öll fengu veitingar og tekin var hópmynd af okkar glæsilegu fulltrúum í lokin. Já, unga fólkið í Víðistaðaskóla sýndi í gær að það hefur áhuga á umhverfismálum og lætur til sín taka.

Um Grænfánann

  • Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum.
  • Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
  • Grænfáninn er viðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
  • Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans.
  • Reynslan sýnir að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri. Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.

Um Barnvæn sveitarfélög

Hafnarfjarðarbær vinnur að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins, undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög. Ákvörðun sveitarfélagsins um að innleiða barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna og ungmenna sé verðmæt fyrir sveitarfélagið. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta, aðlaga og auka þjónustu sína. Börn og ungmenni eru hvött til að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri og foreldrar/forsjáraðilar hvattir til að vekja máls á verkefninu og verðmætinu sem felst í þátttöku sem flestra fyrir samfélagið og þjónustu sveitarfélagsins.

Barnvænt sveitarfélag og vegferð Hafnarfjarðarbæjar 

Ábendingagátt