Bæjarstjóri heimsækir ný og breytt fyrirtæki í bænum 

Fréttir

Sydhavn, Dýralæknastofa Hafnarfjarðar og RB Rúm eiga það sameiginlegt að hafa fengið bæjarstjórann Valdimar Víðisson í heimsókn nú í aðdraganda sumars. Sydhavn og Dýralæknastofan eiga það einnig sameiginlegt að vera glæný fyrirtæki hér í Hafnarfirði. RB rúm, eitt elsta hafnfirska fyrirtækið, fékk hins vegar nýja eigendur á árinu. 

Bæjarstjórinn heimsækir fyrirtækin 

Þrír ólíkir morgnar þegar þrjú ólík fyrirtæki tóku á móti Valdimar Víðissyni bæjarstjóra er hann heimsótti fyrstu fyrirtækin í embætti í Hafnarfirði. Markmiðið er að hitta sem flest og fjölbreyttust fyrirtæki í öllum geirum atvinnulífsins í Hafnarfirði. 

Rótgróið fyrirtæki í mótun

Fyrst heimsótti hann RB rúm við Dalshraun 8 þar sem eigendaskipti urðu fyrr á árinu. Þetta rótgróna fjölskyldufyrirtæki var stofnað 1943. Nýir eigendur Áslaug Auður Guðmundsdóttir, Nökkvi Sveinsson og Óskar Bragi Sigþórsson ásamt fleirum tóku á móti bæjarstjóranum, sýndu framleiðsluna, ræddu framleiðslugetuna og hvernig fyrirtækið hefur framleitt sínar dýnur hér á landi í áratugi. Þar sé reynsla sem finnist ekki víða hér á landi. 

„Fyrirtækið hefur komið mér skemmtilega á óvart,“ segir Nökkvi og sýndi bæjarstjóranum hvernig ólík dýnuframleiðslan fer fram hér í Hafnarfirði. Nökkvi sagði einnig frá því hvernig eigendahópurinn stefni að því að setja upp annað fyrirtæki, eina fullkomnustu bílaþvottastöð landsins. Saman ræki hópurinn því RB-rúm dags daglega og stendi einnig að því að opna annað fyrirtæki hér í Hafnarfirði. Hann hlakki til að þjóna Hafnfirðingum, bæði í bíla- og dýnubransanum. 

Bjarni, Nökkvi, Valdimar, Óskar og Áslaug.

Vinsæll frá fyrsta degi

Syndhavn við Strandgötu 75 var næsta stopp bæjarstjórans. Hjónin Stella Þórðardóttir og Sigurður Ólafsson hafa þar ásamt börnum sínum komið upp þessum gullfallega veitingastað sem hefur slegið í gegn.  

Stella segir þau hjónin hafa valið Hafnarfjörð enda hún Hafnfirðingur. „Þetta er minn bær,“ segir Stella og hún  sjái mikil tækifæri í uppbyggingu á hafnarsvæðinu. „Við eigum þrjú fullorðin börn. Þau eru hér. Við hjálpumst öll að. Þetta fer vel af stað hjá okkur,“ segir Stella.  

Já, Sydhavn er glæsilegur veitingastaður enda þau Stella og Sigurður með mikla reynslu og gott fólk með sér, meðal annars Hafnfirðinginn Knút Hreiðarsson, sem margir þekkja frá Deig og  Le Kock á Tryggvagötu. 

Knútur yfirkokkur, sonurinn Helgi og hjónin Siggi og Stella hér með Valdimar.

Dýrin fá þjónustu í Hafnarfirði

Þriðji og síðast stoppistaðurinn var svo glænýtt fyrirtæki þeirra Berglindar Guðbrandsdóttir, hundanuddara og hundaatferlisráðgjafa og dýralæknanna Silju Edvardsdóttir og Sólrúnar Dísar Kolbeinsdóttur – báðar menntaðar í Danmörku.  

Dýralæknastofa Hafnarfjaðrar opnaði 15. maí. Bæjarstjórinn mætti tæplega viku síðar og starfsemin að komast á skrið. Ljóst er að þær stöllur hafa lagt mikið í húsnæðið og starfsemina. 

„Við fáum síðustu tækin í júní,“  segir Silja frá og þær lýsa miklum framkvæmdum og hvernig fólk sæki þjónustuna allt frá Suðurnesjum og víðar, þær séu í raun nokkuð miðsvæðis í Stakkahrauni 1.  

Sér læknastofa fyrir ketti og hunda. Sérhönnuð til að áreita dýrin ekki að óþörfu. Frábær viðbót við öflugt atvinnulíf í Hafnarfirði. Já, draumur um eigin rekstur hefur ræst og þær bjartsýnar á framhaldið. 

Valdimar, Silja, Sólrún og Berglind.

Hvetjandi og gefandi

Valdimar Víðisson segir að það sé bæði hvetjandi og gefandi að hitta fólk sem drífi atvinnulífið hér í Hafnarfirði. Gaman að sjá fólk láta drauma sína rætast.  

„Það skiptir okkur máli að hér sé blómlegt atvinnulíf og því mikilvægt að heyra sjónarmið fyrirtækjarekenda. Heyra hvernig við getum ýtt undir nýja starfsemi og aukið möguleika Hafnfirðinga þegar kemur að starfsvali, rekstri og umgjörð atvinnulífsins. Það skiptir mig miklu máli að kynnast atvinnulífinu hér í okkar frábæra bæjarfélagi,“ segir hann. 

Fáðu bæjarstjórann í heimsókn 

  • Fyrirtæki í Hafnarfirði geta haft samband og lýst yfir áhuga á að fá bæjarstjóra í heimsókn með pósti á netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is og í síma: 585-5500. 
Ábendingagátt