Bandalag kvenna í Hafnarfirði færir bænum bleikan bekk

Fréttir

Bandalag kvenna í Hafnarfirði fagnaði 50 ára afmæli í október 2022. Í lok apríl færði hópurinn Hafnarfjarðarbæ fallegan bleikan bekk með áletrun sem staðsettur hefur verið við Bókasafn Hafnarfjarðar, rétt við fyrsta hjartað sem sett var upp í bænum. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri vígði bekkinn og bauð í léttar veitingar í Bæjarbíó að vígslu lokinni.

Tilefnið er 50 ára afmæli bandalagsins í október 2022

Bandalag kvenna í Hafnarfirði fagnaði 50 ára afmæli í október 2022 og hafa síðan þá fagnað tímamótunum og árunum fimmtíu með margvíslegum hætti síðustu vikur og mánuði. Í lok apríl 2023 færði hópurinn Hafnarfjarðarbæ fallegan bleikan bekk með áletrun sem staðsettur hefur verið við Bókasafn Hafnarfjarðar, rétt við fyrsta hjartað sem sett var upp í bænum. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri vígði bekkinn og bauð í léttar veitingar í Bæjarbíó að vígslu lokinni.

Félög innan Bandalags kvenna í Hafnarfirði í dag eru Kvenfélag Hafnarfjarðarkirkju og Fríkirkju, Systrafélag Víðistaðasóknar, Vorboðinn-Sjálfstæðiskonur, Harpa-Framsóknarkonur og Hrund-konur Iðnaðarmanna. Bandalagskonur eru með hjartað á réttum stað og hefur samtakamáttur þeirra verið þeim til mikils heiðurs og sóma.

Efni úr 50 ára ágripi Bandalags kvenna í Hafnarfirði

Bandalag kvenna í Hafnarfirði hélt stofnfund þann 11. október 1972 og lauk honum með framhaldsstofnfundi 7. nóvember sama ár. Á þessum tíma voru konur orðnar meðvitaðri en áður um stöðu sína inn á heimilinu, á vinnumarkaði og í félagsstörfum. Þau tíu félög sem sendu fulltrúa á stofnfundinn áttu öll sinn bakgrunn og sum hver starfandi í bænum um áratugaskeið. Konurnar sem störfuðu innan félaganna voru vanar félagsstörfum og þekktu vel til fjáröflunar og líknarmála. Hafnfirskar konur bundust þarna öflugum samtökum sem áttu framtíðina og verkefnin fyrir höndum, fólkinu og bæjarfélaginu til styrktar og ánægju. Markmið bandalagsins taka mið af öflugu kvennastarfi til hjálpar einstaklingnum og hljóða m.a. svo: Efla skal samvinnu félaga og sameina á þann hátt krafta kvenfélaganna til þess að vinna að velferð heimila, stuðla að hollustuháttum, hagsýni, félagslegum þroska, alhliða menningu, jafnrétti kynjanna og öllum góðum málefnum.

Heilög Barbara er merki Bandalags kvenna í Hafnarfirði

Áður en Sigurveig Guðmundsdóttir hvarf frá formennsku árið 1977 kynnti hún hálsmen með merki heilagrar Barböru fyrir bandalagskonum og sagði frá því að Gunnar Hjaltason, gullsmiður og listmálari í bænum, væri búinn að hanna og smíða hálsmen með merki sem bæri mynd af dýrlingnum. Þarna var komin elsta konumynd sem fundist hefur í landi Hafnarfjarðar. Mynd af heilagri Barböru fannst meðal annarra hluta við rannsókn í Kapelluhrauni gengt álverinu í Straumsvík 21. maí 1950 og studdi fund­urinn hin gömlu munn­mæli að rúst­in væri aldagam­alt bæna­hús. Heilög Barbara er verndari elds og málmbræðslumanna.

Nefndir innan Bandalags kvenna í Hafnarfirði

  • Orlofsnefnd hefur alltaf starfað innan BKH. Með störfum sínum hefur nefndin létt á þreytu og byrði margra kvenna. Á síðustu árum hefur orlofsnefnd átt í vök að verjast þá sérstaklega vegna breyttra aðstæðna konunnar í lífi og starfi.
  • Mæðrastyrksnefnd hefur unnið mikið og gott starf fyrir hafnfirsk heimili. Stuðningur við störf nefndarinnar berst víða að þó sérstaklega frá fyrirtækjum og félagasamtökum í bænum. Á öllum tímum BKH hefur nefndin veitt þeim sem minna mega sín fyrirgreiðslu eftir getu.
  • Skógræktarnefnd og gróðursetningar félagskvenna hafa um langt árabil fegrað Sléttuhlíð í upplandi Hafnarfjarðar svo eftir er tekið. Skógræktarnefnd BKH hefur eftirlit með skógarlundi Bandalagsins og skipuleggur gróðursetningu í reitnum.

Samtakamáttur og bætt mannlíf heima í héraði og víðar

Heilbrigðismál Hafnfirðinga og annarra landsmanna hafa notið góðs af samtakamætti og vilja Bandalags kvenna í Hafnarfirði fyrir bættu mannlífi. Þannig hefur bandalagið safnað fyrir: Taugagreini fyrir Grensásdeild Borgarspítalans, sjúkrarúmum fyrir hjúkrunarheimilið Sólvangi, röntgentæki fyrir St. Jósefsspítala og sýnatökutæki vegna brjóstakrabbameins fyrir Landspítalann. Bandalag kvenna í Hafnarfirði safnaði fyrir tækjum á St. Jósefsspítala allt fram að þeim tíma er sá fyrir lokun spítalans. Það vakti athygli víða þegar bandalag kvenna í Hafnarfirði stóð fyrir undirskriftarsöfnun gegn lokun St. Jósefsspítala og til stuðnings óbreyttum rekstri spítalans haustið 1991. Konur gengu í öll hús í bænum og söfnuðu undirskriftum 10.322 Hafnfirðinga á einni helgi. Það má geta þess að árið 1990 voru íbúar í Hafnarfirði 15.151. Velferð og stuðningur við hjúkrunarheimilið á Sólvangi er eitt af verkefnum kvenfélagskvenna og er árlegur vöfflubakstur í byrjun nóvember meðal annars til vitnis um þá umhyggju. Bandalagið hefur staðið eitt og sér í fjáröflun fyrir heilsustofnanir innan bæjarins en átt í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands með verkefni á landsvísu.

Formenn Bandalags kvenna í Hafnarfirði hafa verið 19 frá stofnun

  1. Helga Ragnheiður Stefánsdóttir (núverandi formaður)
  2. Sigurveig Guðmundsdóttir
  3. Soffía Stefánsdóttir
  4. Þórunn Jóhannsdóttir,
  5. Helga Guðmundsdóttir
  6. Sjöfn Magnúsdóttir
  7. Anna Daníelsdóttir,
  8. Hjördís Þorsteinsdóttir
  9. Hulda Sigurðardóttir
  10. Erna Fríða Berg,
  11. Jónína Steingrímsdóttir
  12. Erna Ingibjörg S. Mathiesen
  13. Kolbrún Jónsdóttir,
  14. Guðrún Hjörleifsdóttir
  15. Katrín Gústafsdóttir
  16. Kristín Gunnbjörnsdóttir,
  17. Dýrleif Ólafsdóttir
  18. Unnur Birna Magnúsdóttir
  19. Magnea Vilborg Þórsdóttir

 

Ábendingagátt