Byrjaði í litlu herbergi fyrir heilli öld – aldarafmæli

Fréttir

Bókasafn Hafnarfjarðar fagnar 100 ára afmæli í ár en bókasafnið byrjaði í litlu herbergi uppi á lofti Barnaskólans við Suðurgötu í Hafnarfirði fyrir heilli öld. Nú er safnið á þremur hæðum og með yfir 100.000 bækur og hefur starfsemi bókasafnsins orðið umfangsmeiri og fjölbreyttari með árunum og þá sérstaklega hin síðustu ár.

Bókasafn Hafnarfjarðar fagnar aldarafmæli – margt hefur breyst á 100 árum

Bókasafn Hafnarfjarðar fagnar 100 ára afmæli í ár en bókasafnið byrjaði í litlu herbergi uppi á lofti Barnaskólans við Suðurgötu í Hafnarfirði fyrir heilli öld. Nú er safnið á þremur hæðum og með yfir 100.000 bækur og hefur starfsemi bókasafnsins orðið umfangsmeiri og fjölbreyttari með árunum og þá sérstaklega hin síðustu ár. Auk bóka á fjölmörgum tungumálum lánar bókasafnið hljóðbækur, saumavélar, bökunarform, spil, púsl og DVD-myndir og reglulega er boðið upp á foreldramorgna, tónleika, vinnusmiðjur, upplestur, sögustundir, námskeið, listasýningar og klúbbastarf fyrir ólíka hópa. Fjölmenningarverkefnið Anna, sem miðað er sérstaklega að konum, er gott dæmi um þjónustunýjung sem komin er til vegna þróunar í íslensku samfélagi og aukinnar þarfar nýrra og núverandi samfélagshópa fyrir félagsleg tengsl, samveru og fræðslu. Lestrarfélagið Framför er aftur elsti starfandi hópur bókasafnsins. Árlega koma á bókasafnið um 125.000 gestir á öllum aldri.


Árlega heimsækja um 125.000 gestir á öllum aldri Bókasafn Hafnarfjarðar.

 

Aldarafmæli fagnað með fjölbreyttum hætti

Aldarafmæli Bóaksafns Hafnarfjarðar hefur verið fagnað með fjölbreyttum hætti frá upphafi árs í formi viðburða og hvers kyns skemmtana. Nýverið málaði Juan Pictures Art vegglistaverk á vesturgafl Bókasafns Hafnarfjarðar. Boðið var til 100 ára afmælisveislu síðastliðinn laugardag þar sem fjöldi gesta kom saman og fagnaði og á sjálfan afmælisdaginn. 18. október 2022, var gestum og gangandi boðið í teboð að breskum sið þar sem gestgjafinn var Grímuverðlaunahafinn og hugljúfa sjentilmennið Vilhjálmur B. Bragason. Afmælisárinu verður áfram fagnað með allskonar skemmtilegu.


Fjölmenni mætti í 100 ára afmælisboð laugardaginn 15. október 2022.

Í tilefni af aldarafmælinu var Juan Pictures Art fengið til að mála vegglistaverk á vesturgafl bókasafnsins.


Gestum og gangandi var boðið í teboð að breskum sið á sjálfan afmælisdaginn, 18. október, þar sem gestgjafinn var Grímuverðlaunahafinn og hugljúfa sjentilmennið Vilhjálmur B. Bragason.

Horft til framtíðar með áformum um nútímalegt bókasafn

Bókasafnið hefur verið til húsa að Strandgötu 1 í 20 ár en stefnt er að því að það flytji í nýtt húsnæði að Strandgötu 26 árið 2025 og verður þá allt safnið á einni hæð. Við flutning í hentugra og jafnvel stærra húsnæði er hægt að nýta það rými sem bókasafnið mun hafa til umráða á mjög fjölbreyttan hátt. Meðal hugmynda að þjónustu í nýju húsnæði eru hönnunarsmiðja, upptökuver, hljóðver, bókakaffi, útisvæði fyrir börn, stærri barnadeild, ungmennadeild, stærri fjölnotasalur, fundaraðstaða, sýnilegri tónlistardeild, staður fyrir alla og lengri opnunartími.


Gert er ráð fyrir að Bókasafn Hafnarfjarðar flytji í nýtt húsnæði árið 2025.

Hugmyndir tala vel saman við þróun og uppbyggingu safna erlendis

Í lok árs 2020 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrirliggjandi hugmyndir um nýtt og nútímalegt bókasafn á byggingarreit í eigu félagsins 220 Miðbær ehf. Nýbyggingin mun tengjast eldra húsnæði Fjarðar að Fjarðargötu 13-15 og eru framkvæmdir hafnar. Hugmyndir að nýju safni tala vel saman við þá þróun og uppbyggingu sem hefur átt sér stað á nýjum bókasöfnum sem byggð hafa verið á Norðurlöndum þ.m.t. í Helsinki, Árósum og Osló síðustu árin.

Brot úr sögu Bókasafns Hafnarfjarðar

  • 1910 – stofnun bókasafns í Hafnarfirði komst fyrst á dagskrá þegar Jón Jónasson skólastjóri skoraði á bæjarstjórn að koma á fót bókasafni í bænum. Síðar sama ár skoruðu 25 bæjarbúar á bæjarstjórnina að stofna almenningsbókasafn. Skipuð var nefnd sem komst að þeirri niðurstöðu að bókasafn yrði of kostnaðarsamt fyrir bæjarsjóð og ekkert varð því úr málinu að sinni.
  • 1915 – kennarar Barnaskóla Hafnarfjarðar, undir forystu Gunnlaugs Kristmundssonar, skoruðu á bæjarstjórn að gangast fyrir stofnun almenningsbókasafns í bænum. Skipuð var nefnd til að skoða málið.
  • 1921 – bæjarstjórn Hafnarfjarðar varð við beiðni barnakennara í bænum og ákvað að setja á stofn almenningsbókasafn. Veittar voru 3.000 kr. úr bæjarsjóði til reksturs safnsins og var fjármagnið fengið með skemmtanaskatti á kvikmyndasýningar og dansleiki í bænum.

  • 1922 – Bókasafn Hafnarfjarðar tók til starfa í litlu herbergi uppi á lofti Barnaskólans við Suðurgötu sem bæjarstjórnin lét safninu í té endurgjaldslaust. Þeir styrkir sem safnið hlaut úr bæjar- og ríkissjóði dugðu einungis til bókakaupa og því var ekki fastráðinn bókavörður á þessum tíma.
  • 1927 – þegar Barnaskóli Hafnarfjarðar flutti starfsemi sína í nýtt húsnæði við lækinn fékk safnið til umráða allstóra kennslustofu í gamla skólahúsinu. Enn var þó þröngt um safnið og ekki hægt að hafa þar lessal, því var áfram aðeins um útlán að ræða.
  • 1938 – þegar nýtt húsnæði Flensborgarskólans á Hamrinum var tekið í notkun flutti Bókasafn Hafnarfjarðar starfsemi sína þangað. Safnið fékk góða aðstöðu og í fyrsta sinn lestrarsal. Þetta sama ár var Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) fastráðinn bókavörður við safnið.
  • 1948 – bókasafnsnefnd sótti um lóð undir bókasafnshús við Mjósund og fékk vilyrði fyrir henni tveimur árum síðar.
  • 1955 – byggingarframkvæmdir hófust við byggingu Bókasafnsins við Mjósund. Um svipað leyti voru samþykkt ný lög um bókasöfn og var nafni safnsins þá breytt í „Bæjar- og héraðsbókasafnið í Hafnarfirði“. Áttu þá Garða-, Bessastaða- og Vatnsleysustrandarhreppur aðild að safninu og eftir það var greitt framlag til safnsins úr sýslusjóði.
  • 1958 – daginn fyrir 50 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar, 31. maí, var nýja bókasafnið við Mjósund opnað almenningi. Þótti það sérstaklega nýtískulegt og smekklegt.

  • 1959 – sérstök tónlistardeild var opnuð í safninu og varð það fyrst íslenskra safna til að vera með hljómplötuútleigu. Undirstaða deildarinnar var vegleg gjöf frá hjónunum Friðriki Bjarnasyni og Guðlaugu Pétursdóttur.
  • 1972 – bókasafnið 50 ára. Iðnskóli Hafnarfjarðar sem hafði haft aðstöðu á efri hæð hússins flutti út og í kjölfarið fékk tónlistardeildin þann hluta húsnæðisins til afnota.
  • 1982 – lessalnum sem var á neðri hæð bókasafnsins var breytt í barnadeild og var þá opnaður nýr og vandaður lessalur á efri hæð hússins.

  • 1983 – á hátíðarfundi í tilefni af 75 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðarbæjar var samþykkt tillaga sem allir bæjarfulltrúar stóðu að um byggingu nýs húsnæðis fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar.
  • 1984 – Bókasafn Hafnarfjarðar tók upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á sögustundir einu sinni í viku fyrir börn á aldrinum 3-6 ára og nutu þær strax mikilla vinsælda.
  • 1985 – Bókasafn Hafnarfjarðar hóf útleigu á myndbandsspólum. Fyrst og fremst var lögð áhersla á klassískar myndir og vandaðar myndir um frægar persónur, fjölskyldumyndir og myndir um margvísleg félagsleg efni.
  • 2002 – eftir áralangar umræður og leit að hentugu húsnæði flutti Bókasafn Hafnarfjarðar í stórhýsi að Strandgötu 1 á 80 ára afmæli safnsins. Þótti húsnæðið henta starfseminni einstaklega vel, var hátt í þrisvar sinnum stærra en gamla húsnæðið og fékk það m.a. viðurkenningu vegna aðgengismála.
  • 2006 – undirritaður var samningur á milli Bókasafns Hafnarfjarðar og þýska bókasafnsins um að eftirleiðis yrði þýska bókasafnið til húsa í safninu auk þess sem þar yrði ýmis starfsemi tengd því.

  • 2008 – í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar var efnt til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands á viðbyggingu við bókasafn bæjarins en tillaga þessi varð aldrei að veruleika.
  • 2020 – hlaðvarp Bókasafnsins hóf göngu sína og Rabbrýmið – hlaðvarpsstúdíó var opnað. Hafin var útleiga á saumavélum, bökunarformum, spilum, púsluspilum og verkfærum. Afgreiðslutími safnsins var lengdur.
  • 2022 – safnið varð fyrst almenningsbókasafna til að gefa út stafræn bókasafnsskírteini, nýjar sjálfsafgreiðsluvélar sem nota RFID tækni voru teknar í notkun, opið var á laugardögum á sumrin og lánþegar fengu aðgang að þrívíddarprenturum.

Anna á Bókasafninu – drifkraftur og virk baráttukona

Anna Guðmundsdóttir fæddist 19. maí árið 1915 á Patreksfirði. Hún flutti þriggja ára gömul í Borgarnes þar sem hún bjó til fullorðinsára. Árið 1955 var Anna ráðin bókavörður við Bókasafn Hafnarfjarðar, líklega fyrst kvenna á Íslandi til að veita bókasafni forstöðu. Hún hafði verið viðloðandi safnið í lengri tíma þar sem seinni eiginmaður hennar, Magnús Ásgeirsson, var ráðinn bókavörður við safnið árið 1941. Vegna veikinda Magnúsar gekk Anna mikið í hans störf og sá þá um daglegan rekstur og uppbyggingu bókasafnsins. Magnús féll frá árið 1955 og eftir það var Anna ráðin bókavörður við safnið. Þegar bókasafnið fluttist í nýtt húsnæði að Mjósundi 12 árið 1958 jukust umsvif þess til muna. Þá var ráðinn aðstoðarbókavörður í fullt starf og í kjölfarið var Anna gerð að yfirbókaverði safnsins. Anna var aðaldrifkraftur í stofnun Bókavarðafélags Íslands og boðaði hún stofnfund félagsins í Bæjar- og héraðsbókasafninu í Hafnarfirði 4. desember árið 1960, stofnfélagar voru 38 talsins. Anna var um tíma formaður félagsins og var hún fyrsti heiðursfélagi þess. Hún var virk baráttukona í félaginu og viðurkenning og kjör stéttarinnar voru henni afar hugleikin.


Árið 1955 var Anna ráðin bókavörður við Bókasafn Hafnarfjarðar, líklega fyrst kvenna á Íslandi til að veita bókasafni forstöðu.

Listræn kona sem hannaði meðal annars tákn safnsins

Anna var listræn kona og teiknaði auglýsingar og bókakápur fyrir bókaútgáfuna Helgafell. Hún hannaði bréfhaus með vitanum fyrir bókasafnið sem varð svo tákn safnsins. Anna átti hugmyndir að ýmsum nýjungum við bókasafnið. Hún gerði safnið hlýlegt og heimilislegt með blómum og kom upp fyrstu barnadeildinni á landinu. Hún útbjó bókakistur sem settar voru um borð í hafnfirsk skip sem voru lengi á sjó. Innihald kistnanna var svo endurnýjað þegar skipin komu aftur í höfn. Á Sólvangi útbjó hún svipaðar kistur sem urðu með tímanum vísir að bókasafni. Eftir flutning Bókasafns Hafnarfjarðar í Mjósund stóð Anna fyrir kvöldvökum tvisvar til þrisvar á vetri í lestrarsal safnsins. Boðsgestir voru bókasafnsnefnd, bæjarstjórn og fleiri. Anna sótti þing norrænna bókavarða í Danmörku og Noregi og stóð fyrir því að Hafnarfjörður og vinabæir hans Frederiksberg í Danmörku og Uppsalir í Svíþjóð skiptust á bókum. Á þeim árum sem Anna starfaði á safninu varð Bókasafn Hafnarfjarðar fyrirmynd annarra bókasafna hér á landi. Hún starfaði á Bókasafni Hafnarfjarðar til ársins 1971 þegar hún gerðist forstöðumaður Héraðsbókasafns Árnessýslu. Anna Guðmundsdóttir lést 29. júní árið 2006, 91 árs að aldri.

Ábendingagátt