Einföld og snjöll ábendingagátt

Verkefnasögur

Nú er hægt að senda inn ábendingu með einföldum og skjótum hætti sem fer strax í skýran farveg.

Komdu ábendingum þínum á framfæri með einföldum hætti

Við úttekt á stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar 2019 kom skýrt fram að þörf væri á aðgengilegri ábendingagátt þar sem íbúar gætu komið á framfæri ábendingum til bæjarins sem færu í skýran farveg. Núna er slík ábendingagátt komin í loftið þar sem íbúar geta komið hvers konar ábendingum á framfæri með einföldum hætti. Gáttin er afrakstur góðrar samvinnu starfsfólks á öllum sviðum bæjarins en fyrirmyndin að gáttinni er sótt til Reykjavíkurborgar.

Bentu okkur á það sem betur má fara á ferðum þínum um bæinn

Einfalt er að senda mynd með ábendingunni og möguleiki er á því að senda staðsetningu á korti ef það á við. Ábendingagáttin virkar mjög vel í snjalltækjum og eru íbúar hvattir til að grípa símann verði þeir varir við eitthvað sem má fara betur í okkar umhverfi, þjónustu eða öðru sem ástæða er til að koma á framfæri við starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar.

Hér má sjá eitt gott dæmi um það sem betur má fara

Við fögnum öllum ábendingum!

Hver og ein ábending mun aðstoða okkur við að gera þjónustuna enn betri. Mótað hefur verið skýrt ábyrgðarferli. Starfsfólk þjónustuvers fer yfir ábendingarnar,  svarar eða kemur þeim í réttan farveg innan 24 klst alla virka daga. Sendandi fær tölvupóst um leið og svar liggur fyrir. Hægt er að tengjast ábendingagáttinni frá forsíðu vefsins eða með því að slá inn slóðina: Ábendingagátt Hafnarfjarðarbæjar | Senda ábendingu (hafnarfjordur.is)

Öflugri ábendingagátt í þróun í samstarfi fleiri sveitarfélaga

Þó þessi áfangi sé í höfn þá er þetta aðeins fyrsta útgáfa ábendingagáttarinnar því Hafnarfjarðarbær á í samstarfi við þrjú önnur sveitarfélög; Reykjavík, Kópavog og Árborg, um áframhaldandi þróun ábendingagáttar með öflugu bakendakerfi og tengingu við Mínar síður . Verkefnið er það fyrsta af vonandi fjölmörgum þar sem sveitarfélög taka saman höndum við að smíða öflugar stafrænar lausnir sem bæta þjónustu og lífsgæði íbúa.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Sendu okkur ábendingu 

Ábendingagátt