Flugeldasýning og fjör við Fjörð í kvöld

óflokkað

Verslunarmiðstöðin Fjörður fagnar 30 ára afmæli sínu í dag föstudaginn 22. nóvember og Hafnarfjarðarbær fagnar með. Sérstök athygli er vakin á því að flugeldasýning hefst kl. 19:20 og mun hún standa yfir í 5 mínútur. Hundaeigendur eru hvattir til að faðma hundana sína sérstaklega mikið þessa stuttu stund og jafnvel halda þeim heima á meðan á flugeldasýningunni stendur.

Hjartanlega til hamingju með 30 árin Fjörður

Verslunarmiðstöðin Fjörður fagnar 30 ára afmæli sínu í dag föstudaginn 22. nóvember og Hafnarfjarðarbær fagnar með. Verslunarkjarninn opnaði í nóvember 1994. Blásið hefur verið til bæjarhátíðar frá og með kl. 18 í jólabænum og verður mikið líf og fjör í Firði til viðbótar við jólagleðina á Thorsplani og víðar um bæinn. Sérstök athygli er vakin á því að flugeldasýning hefst kl. 19:20 og mun hún standa yfir í 5 mínútur. Hundaeigendur eru hvattir til að faðma hundana sína sérstaklega mikið þessa stuttu stund og jafnvel halda þeim heima á meðan á flugeldasýningunni stendur.

Tónlistaratriði, vörukynningar, flugeldasýning, jólapop-up og Bylgjan í beinni

Jólaþorpið í Hafnarfirði opnaði um síðastliðna helgi þegar ljósin voru tendruð á Cuxhaven-jólatrénu. Fjölmenni sótti bæinn heim og naut þess að ganga um göturnar, allt frá Flensborgarhöfn upp í Hellisgerði. Hátíðarstemningin verður ekki minni í hjarta Hafnarfjarðar um helgina. Upplifun og smakk í upplifunarhúsunum á Thorsplani, spennandi gjafavara, sælkerakrásir, handverk og vönduð hönnun. Jólahjarta, Hjartasvell og ævintýraveröld í Hellisgerði þar sem kaffihúsið er opið til kl. 20. Tónlistaratriði, vörukynningar, flugeldasýning, jólapop-up markaður og Bylgjan í beinni í Firði. Opið verður í verslunum Fjarðar til kl. 21. Rokkararnir, ljúfir tónar með Sjonna, Diskótekið Dísa og Herbert Guðmundsson eru meðal dagskráratriða á bæjarhátíðinni í Firði.

Umfangsmikil uppbygging í hjarta Hafnarfjarðar

Fyrsta skóflustungan að umfangsmestu uppbyggingu í hjarta Hafnarfjarðar í áratugi við Fjörð verslunarmiðstöð var tekin í nóvember 2022. Fullbyggð mun nýbyggingin, sem verður um 9000 m2, hýsa verslanir og þjónustu á jarðhæð sem tengir Strandgötu við verslunarmiðstöðina, nútímalegt bókasafn, almenningsgarð á 2. hæð aðgengilegan frá Strandgötu, glæsilegar íbúðir og hótelíbúðir. Sérstaklega hefur verið horft til þess að tryggja góða blöndu verslunar-, þjónustu og íbúða. Uppbyggingunni miðar vel áfram og ljóst að starfsemin í Firði verður enn blómlegri að ári.

Hafnarfjarðarbær óskar Firði innilega til hamingju!

Ábendingagátt