Frítt í sund fyrir íbúa Suðurnesja

óflokkað

Hafnfirðingar hugsa til íbúa Suðurnesja. Frítt er í sundlaugar Hafnarfjarðar fyrir íbúa Suðurnesja þar sem heitavatnslögnin skemmdist í eldgosinu.

Boð í allar þrjár sundlaugar bæjarins

Hafnarfjarðarbær býður íbúum Suðurnesja frítt í sund í allar þrjár sundlaugar bæjarins. Allar upplýsingar um sundlaugar bæjarins; opnunartíma, staðsetningu og aðstöðuna í hverri laug má finna hér. Sundlaugar | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is).

Boðið gildir í dag í Suðurbæjarlaug við Hringbraut og Ásvallalaug, sem opnar eru til kl. 20 í kvöld, og Sundhöll Hafnarfjarðar. Hún er opin til kl. 21.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum nú um hádegisbilið á Facebook er nú unnið að því að tengja lögnina sem skemmdist í gær og gengur sú vinna vel. Komi ekkert óvænt upp þá verði byrjað að hleypa vatni á lögnina í kvöld.

Lögreglan segir að vatni verði hleypt mjög hægt á nýju lögnina til að byrja með til að koma í veg fyrir að hún rifni. En búast megi við því að hún sé löskuð á einhverjum stöðum. Telur lögreglan að hiti komist á hús á Suðurnesjum á sunnudag og jafnvel seint á sunnudagskvöldið.

Hafnarfjarðarbær sendir hlýja strauma til Suðurnesja og hugsar til íbúanna sem búa nú við þessa óvissu vegna jarðhræringanna!

 

Ábendingagátt