Hátt í hundrað ungir hljóðfæraleikarar í Hafnarfirði í sumar

Fréttir

Hátt í eitt hundrað ungir strengjahljóðfæraleikarar taka þátt í Alþjóðlegu tónlistarakademíunni HIMA sem haldin verður í Hafnarfirði dagana 14.-23. júní. Hafnarfjarðarbær og HIMA hafa tekið höndum saman og verður bærinn bakhjarl þessa alþjóðlega tónlistarnámskeiðs.

Ungir strengjahljóðfæraleikarar í Hafnarfirði í sumar

Hljómfagrir tónar fiðlu-, víólu-, og sellós munu berast úr Lækjarskóla, Hásölum og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar dagana 14.-23. Júní. Þá taka hátt í eitt hundrað ungir strengjahljóðfæraleikarar þátt í Alþjóðlegu tónlistarakademíunni HIMA sem haldin verður í Hafnarfirði. Hafnarfjarðarbær og HIMA hafa tekið höndum saman og verður bærinn bakhjarl þessa alþjóðlega tónlistarnámskeiðs.

Sigurgeir Agnarsson, stjórnarformaður HIMA, segir samstarfsamninginn við Hafnarfjarðarbæ skipta miklu máli. „Samstarfið veitir okkur festu og ró sem við höfum leitað að í mörg ár og við því afar þakklát Hafnarfjarðarbæ. Aðstaðan er góð og stutt fyrir nemendur að rölta í miðbæinn og njóta þess að vera í bænum.“

Eflir menningarlíf í Hafnarfirði

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri býður unga fólkið velkomið þessa daga. „Hafnarfjörður er menningarbær og við sjáum þetta samstarf sem afar góða leið til að efla ungmennin á sínu sviði um leið og við tryggjum að íbúar heyri þessa fallegu tóna. Þau lita bæinn þessa daga og við njótum þess.“

Hljóðfæraleikararnir ungu munu taka þátt í hátíðarhöldum Hafnarfjarðar á 17. júní með því að spila á „pop-up“ kaffitónleikum á dvalarheimilum bæjarins, Sóltúni og Hrafnistu. Lokatónleikar HIMA fara svo fram í Norðurljósum í tónlistarhúsinu Hörpu 23. júní.

Efla tengsl og vináttu á námskeiðinu

Sigurgeir segir grunnhugmyndina að skapa umgjörð fyrir íslenska strengjahljóðfæranemendur svo þeir þurfi ekki að sækja vatnið yfir lækinn. „Markmiðið er að gefa ungum strengjaleikurum tækifæri til að sækja mjög metnaðarfullt námskeið án þess að fara af landi brott. Orðspor HIMA hefur svo borist víða þannig að það dregur einnig erlenda nemendur að. Það er mjög mikils virði því það skapar bæði tengsl og vináttu út fyrir þennan daglega ramma. Íslenskir tónlistarnemar fá þannig að kynnast fleirum í svipuðum hugleiðingum án þess að þurfa að fljúga út.“

Erlendir þátttakendur eru aðallega frá Bandaríkjunum, þar sem til dæmis Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikari býr, en hann er listrænn stjórnandi HIMA. Einnig koma nemendur frá Evrópu, þá helst frá Norðurlöndunum. Þá komi alltaf nokkrir frá Asíu.

Fyrsta HIMA-námskeiðið var haldið í tónlistarhúsinu Hörpu 2013. Það er nú haldið í annað sinn í Hafnarfirði en í fyrsta sinn í samstarfi við bæinn.

Við íbúar Hafnarfjarðar megum því vænta þess að sjá nemendurna  – í þremur deildum; yngri deild, miðdeild og eldri deild, rölta um með hljóðfærakassana sína þessa júnídaga.

 

 

Ábendingagátt