Hlíðarendi fékk afhentan Grænfánann í sjöunda sinn

Fréttir

Leikskólinn Hlíðarendi fékk  Grænfánann afhentan í sjöunda sinn. Síðastliðin tvö ár hefur skólinn unnið með þemað „náttúruvernd“, þar sem börnin hafa fræðst um nærumhverfi skólans og gildi náttúrunnar. Athöfnin var haldin hátíðleg í maí þar sem börn leikskólans mynduðu heiðursgöng og elstu börn leikskólans, Uglurnar, báru nýja fánann í gegnum þau áður en fáninn var dreginn að húni.

Sjöundi grænfáninn

Leikskólinn Hlíðarendi fékk Grænfánann afhentan í sjöunda sinn. Síðastliðin tvö ár hefur skólinn unnið með þemað „náttúruvernd“. En Hlíðarendi hefur á síðustu árum einblínt á mismunandi þemu, meðal annars lýðheilsu. Með náttúruvernd sem markmið, hafa börnin fræðst um nærumhverfi skólans og gildi náttúrunnar. Athöfnin var haldin hátíðleg í lok maí þar sem börn leikskólans mynduðu heiðursgöng og elstu börn leikskólans, Uglurnar, báru nýja fánann í gegnum þau áður en fáninn var dreginn að húni.  Við erum afar ánægð með nýja fánann enda er starfsfólk skólans búið að vinna af metnaði og seiglu að náttúruverndarstarfi í vetur.“ Segir Þórelfur Bragadóttir, deildarstjóri á Hlíðarenda.

Bera virðingu fyrir hvor öðru og umhverfi sínu

Frá opnun Hlíðarenda hefur verið lagt mikið upp úr því að ganga vel um náttúruna og umhverfið og skapa aðstæður til þess að börnin fái notið þess frábæra nærumhverfis sem umlykur skólann. Frá árinu 2008 hefur skólinn verið Grænfánaskóli. Það er lögð áherlsa á hreyfingu, lífsleikni og umhverfismennt. Hreyfing fléttast inn í allt þeirra starf í samverustundum, hópastarfi og frjálsum leik inni og úti. Með því að fullnægja hreyfiþörf barna stuðlum við að andlegri og likamlegri vellíðan. En Hlíðarendi leggur áherslu á vináttu og lífleikni til að efla alhliða þroska barnsins, samskipti, tjáningu og bera virðingu fyrir umhverfi sínu.

Einblína á náttúruvernd

Eins og segir á vef Grænfánans; „Náttúruvernd snýst um verndun lífbreytileika, jarðfræðilegra minja, landslags, víðerna og náttúruminja fyrir umsvifum manna. Náttúruvernd hefur það að markmiði að draga úr hættu á að líf, land, haf, vatn og loft mengist eða spillist með einum eða öðrum hætti. Náttúruvernd miðar einnig að því að auðvelda umgengni og kynni fólks af náttúrunni án þess að henni sé raskað.“

Um Grænfánann

  • Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum.
  • Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.
  • Grænfáninn er viðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
  • Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans.
  • Reynslan sýnir að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri. Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.

Um Barnvæn sveitarfélög

Hafnarfjarðarbær vinnur að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins, undir formerkjum verkefnisins Barnvæn sveitarfélög. Ákvörðun sveitarfélagsins um að innleiða barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna og ungmenna sé verðmæt fyrir sveitarfélagið. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta, aðlaga og auka þjónustu sína. Börn og ungmenni eru hvött til að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri og foreldrar/forsjáraðilar hvattir til að vekja máls á verkefninu og verðmætinu sem felst í þátttöku sem flestra fyrir samfélagið og þjónustu sveitarfélagsins.

Barnvænt sveitarfélag og vegferð Hafnarfjarðarbæjar 

Hér má lesa nánar um Grænfánann

Leikskólinn á Hlíðarenda

Við óskum Hlíðarenda innilega til hamingju með árángurinn!

Ábendingagátt